Systkinin Dimma, Sara Björk, Svarthöfði og Úlfur Úlfur flytja inn í kisuhúsið

Systkinin Dimma, Sara Björk, Svarthöfði og Úlfur Úlfur eru flutt inn í fallega og skemmtilega húsið í Keeping Up With the Kattarshians. Þau taka við af Vanillu og börnunum hennar fimm: Gretti, Nóa, Trítli, Tópasi og Nóu sem nutu þess í botn að eiga heima í húsinu. Hér er hægt að fylgjast með kisunum í beinni útsendingu.

Kettlingarnir fjórir eru átta vikna gamlir og ætla að eiga heima í húsinu í nokkrar vikur. Þau ólust upp á heimili með mömmu sinni á heimili fólks en hún kom aftur á móti ekki með þeim í Kattholt. Satt að segja er það bara gott, því mamman var komin með leið á kettlingunum og var farin að meiða þá og bíta. Kettlingarnir eru með sár á eyrunum eftir mömmuna og verður fylgst vel með því að þau grói vel á næstu dögum.

Það þarf ekki aðeins að passa vel upp á sárin þeirra, heldur þarf líka að gæta þess að þeir borði nóg þar sem þeir eru frekar smáir miðað við aldur. Systkinin verða vigtuð reglulega svo hægt sé að gæta þess að þau þyngist nógu mikið.

Dimma

Dimma er ósköp smá og fíngerð. Hún er lifandi sönnun þess að margur er knár þó að hann sé smár og gefur ekkert eftir þegar systkinin leika sér. Dimma á líka aðeins auðveldara með að finna felustað þegar þau eru í feluleik og vinnur því oftast systkini sín.

Sara Björk

Sara Björk er dökk á brún og brá eins og systkini sín. Hún er ákveðin, áræðin og hikar ekki við að taka af skarið þegar þarf að leysa vandamál á heimilinu. Sara Björk ákveður til dæmis oftast hver á að sofa í hvaða koju, hver eigi að elta í eltingarleiknum og hver fái að vera fyrst eða fyrstur að matardallinum.

Svarthöfði

Svarthöfði ber nafn með rentu, hann er kolsvartur eins og systkini sín. Hann á það til að vera dálítið stríðinn og fá Dimma, Sara Björk og Úlfur Úlfur oft að kenna á því. Þegar hann er búinn að stríða þeim of lengi eða of mikið fær hann þó samviskubit og biður þau afsökunar.

Úlfur Úlfur

Sumir hefðu kannski haldið að það væri nóg að gefa Úlfi Úlfi aðeins eitt nafn en það er ekki raunin. Það fer svo mikið fyrir fressinu að okkur fannst við hæfi að gefa honum sama nafnið tvisvar. Úlfur Úlfur er forvitinn, mjálmar af miklum krafti og stekkur um allt í leit að ævintýrum.

Keeping Up With The Kattarshians er framleitt af Skoti og Sagafilm. Verkefnið er unnið í samvinnu við Kattavinafélag Íslands, með fullri vitneskju og samþykki Matvælastofnunar, dýraeftirlitsmanns suðvesturumdæmis og dýralæknis gæludýra og dýravelferðar.

Auglýsing

læk

Instagram