Tanja Ýr og Arna Ýr gagnrýndar á Twitter: „Fokking borðiði bara og hættið að reyna að láta konur fá samviskubit“

Tíst Söru Mansour, þar sem hún gagnrýnir þær Örnu Ýri Jónsdóttur og Tönju Ýri Ástþórsdóttur harðlega fyrir að reyna að láta konur fá samviskubit hefur vakið mikla athygli. Sara birtir myndir af Örnu og Tönju en í texta sem fylgir myndunum gefa þær í skyn að þær eigi skilið óhollan mat eftir púl í ræktinni.

Rúmlega 1.600 manns hafa líkað við tístið þegar þetta er skrifað og fjölmargir hafa sagt sína skoðun. Í samtali við Nútímann gefur Tanja Ýr lítið fyrir gangrýni Söru og segir erfitt að gera öllum til geðs.

Í tístinu segir Sara: „Fokking borðiði bara og hættið að reyna að láta konur fá samviskubit því „þær eiga ekki skilið mat.“.

Tanja Ýr segist fagna umræðunni en bætir við að það sé erfitt að gera öllum til geðs. Eftir að hún sigraði Ungfrú Ísland árið 2013 hefur hún alltaf verið mikið á milli tannanna á fólki og hún segir það hafa haft mikil áhrif á sig. „Fólk hefur mismunandi skoðanir og vill segja mér hvernig ég á að vera,“ segir hún.

Ég mátti ekki fitna án þess að það yrði talað um það, ég mátti ekki grennast án þess að það yrði talað um það, ég mátti ekki mæta í ræktina tvisvar á dag án þess að það yrði talað það. 

Hún segist hætt að láta raddir í kringum sig hafa áhrif á sig: „Núna er ég bara eins og ég vil nákvæmlega vera. Ég æfi eins og ég vil, ég borða það sem ég vil,“ segir Tanja.

„Ég hefði borðað þennan hamborgara hvort sem ég hefði farið í tvöfaldan, einfaldan eða engan spinning-tíma. Á þessari mynd er ég að gera nákvæmlega það sem mig langaði að gera.“

Tanja hvetur fólk til að vera sín eigin fyrirmynd og láta ekki annað fólk segja sér hvernig það á að vera. „Þetta er líkaminn minn og ég ræð hvað ég vil gera við hann. Við getum flest ef ekki öll verið sammála um að við veljum fyrir okkur sjálf og engan annan.“

Auglýsing

læk

Instagram