„Það er óhugsandi að fjölskyldur verði látnar búa í ótta og kvíða í eigin húsnæði“

Fjölmargar spurningar brenna á vörum Grindvíkinga þessa dagana og hafa gert allt frá því náttúruhamfarirnar riðu yfir bæjarfélagið í byrjun nóvember. Fjölmenni var á íbúafundi Grindavíkur sem var haldin í gær í anddyri nýju Laugardalshallarinnar en þar freistuðust margir að fá svör við eitthvað af þessum spurningum.

Ein af athyglisverðustu spurningum fundarins var hins vegar ekki svarað með nægilega afgerandi hætti en það var sú spurning hvaða möguleikar væru í stöðunni fyrir þá Grindvíkinga sem kæra sig ekki um að flytja aftur í bæjarfélagið í þessar aðstæður. Aðstæður sem hafa valdið gríðarlegum kvíða og ótta meðal fjölmargra íbúa.

Loðið svar á íbúafundinum

Grindvíkingurinn Pétur Rúðrik Guðmundsson, sem er landsliðsþjálfari karla og kvenna í pílukasti, veltir þessari spurningu upp á Facebook-síðu sinni en Nútíminn fékk góðfúslegt leyfi til þess að birta pistilinn. Hann segir þarfir Grindvíkinga mismunandi og að svörin á íbúafundinum er varðar umrædda möguleika – hvað væri í boði fyrir þá einstaklinga og fjölskyldu sem ætla ekki að snúa aftur – hafi verið loðin.

„Ég væri til í að fá heyra hugmyndir ráðamanna um hvað verði gert tengt þessu ef eitthvað. Það er óhugsandi að fjölskyldur verði látnar búa í ótta og kvíða í eigin húsnæði í einhver ár á meðan beðið er eftir að markaðurinn jafni sig,“ segir Pétur Rúðrik í pistlinum sem hann birti í morgun. Við birtum hann hér fyrir neðan í heild sinni.

Þarfir Grindvíkinginga tengt því hvað skiptir máli er mismunandi.

Það er áberandi að þeir sem hafa hagsmuni að gæta tengt fyrirtækisrekstri eru að láta i sér heyra og krefjast þess að komast aftur heim bæði opinberlega og ég geri ráð fyrir líka óopinberlega. Þeir íbúar sem vilja fara heim strax og ætla sér að búa áfram í Grindavík eru a sama máli og fyrirtækiseigendur.

Engu að síður þá er töluvert af Grindvíkingum sem ætla sér ekki heim og geta ekki hugsað sér að fara aftur í þessar aðstæður.

Spurningin kom upp á fundinum í gær og voru svörin loðin um hvaða möguleikar væru í boði fyrir þá einstaklinga og fjölskyldur sem ætla ekki að snúa aftur. Ég væri til í að fá heyra hugmyndir ráðamanna um hvað verði gert tengt þessu ef eitthvað. Það er óhugsandi að fjölskyldur verði látnar búa í ótta og kvíða í eigin húsnæði í einhver ár á meðan beðið er eftir að markaðurinn jafni sig.

Það er vonandi að markaðurinn geri það sem fyrst fyrir þau sem ætla sér að vera áfram en þau sem vilja fara væru til í að fá heyra hvað og hvort einhverjar lausnir séu í boði fyrir þau. Til að fjölskyldur sem eiga fasteignir í Grindavík og ætla að reyna að hefja „eðlilegt“ líf eftir þetta, þá er mikilvægt að þau geti nýtt sér þá eign sem þau eru með til að geta eignast sambærilega fasteign fyrir fjölskyldur sínar.

Núna skilst mér að það verði ekki tekið af förgunargjald ef húsið þitt er dæmt ónýtt og þú getir nýtt tryggingaféð annnarsstaðar en i Grindavík sem ef reynist rétt er gott.

Eftir situr samt töluverður fjöldi einstaklinga og fjölskyldna með verðlausa eign í mikilli óvissu þar sem þau geta ekki hugsað sér að fara aftur heim til að búa í Grindavík í von eða óvon um að allt fari af stað aftur.

Með vinsemd og virðingu

Auglýsing

læk

Instagram