Það sem Sigmundur Davíð sagði þá, það sem hann segir nú og það sem kemur fram á vef Alþingis

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, segir í færslu á Facebook í dag að hann fari ekki fram á kostnaðargreiðslur sem hann á rétt á frá Alþingi. Á vef Alþingis kemur hins vegar fram að hann fái 134.041 krónur á mánuði í húsnæðis og dvalarkostnaðargreiðslu.

Sigmundur á lögheimili á Akureyri en hann býður fram í norðausturkjördæmi. „Ég hef ekki talið viðeigandi að gera mikið úr því þótt ég fari ekki fram á kostnaðargreiðslur sem ég á rétt á frá þinginu,“ segir hann á Facebook-síðu sinni í dag.

Upplýsingar um laun og kostnaðargreiðslur þingmanna hafa verið birtar á vef Alþingis. Upplýsingarnar eru birtar í kjölfarið á því að það kom í ljós að þingmenn fá milljónir endurgreiddar í akstursgreiðslur, umfram útlagðan kostnað. Í fyrstu stóð til að birta aðeins upplýsingar frá 1. janúar 2018 en í gær kom fram að upplýsingar allt að tíu ár aftur í tímann verði birtar.

Það sem Sigmundur Davíð sagði þá:

„Sigmundur Davíð segir að hann sjálfur hafi aldrei þegið neinar greiðslur frá Alþingi vegna húsnæðis þrátt fyrir að hann eigi rétt á að fá 134.041 krónur á mánuði í húsnæðis- og dvalarkostnað,“ segir í frétt DV frá 16. febrúar.

Það sem Sigmundur Davíð segir nú:

„Eins og áður hefur komið fram hef ég ekki farið fram á greiðslur fyrir að eiga lögheimili í kjördæminu og heimili á höfuðborgarsvæðinu (53.161 kr. á mánuði) né fer ég fram á að fá endurgreiddan ferðakostnað milli heimilis og Reykjavíkur. Fastar greiðslur til landsbyggðarþingmanna vegna heimilis-/dvalarkostnaðar eru óháðar því hvort viðkomandi á lögheimili í kjördæminu eða ekki,“ segir Sigmundur á Facebook-síðu sinni í dag.

Það sem kemur fram á vef Alþingis:

Sigmundur fær 134.041 krónur í húsnæðis- og dvalarkostnað. Á vef Alþingis kemur fram að húsnæðis- og dvalarkostnaðargreiðslur sé ætlaður þingmönnum utan Reykjavíkurkjördæma og Suðvesturkjördæmis til að standa undir húsnæðis- og dvalarkostnaði á höfuðborgarsvæðinu. Ef þingmaðurinn er með fasta búsetu á höfuðborgarsvæðinu er fjárhæðin ætluð til að standa undir sams konar kostnaði í kjördæmi þingmannsins.

Auglýsing

læk

Instagram