Þakkar Mána Péturs fyrir bata sinn: „Hann kenndi mér að lífið er ekki bara fótbolti“

Sigurbergur Elísson, fótboltamaður í Keflavík, birtir pistil á vefnum Fótbolti.net í dag þar sem hann segir frá glímu sinni við þunglyndi og kvíða. Hann þakkar útvarpsmanninum Mána Péturssyni, fyrrverandi aðstoðarþjálfara Keflavíkur, að miklu leyti fyrir bata sinn.

Hann kenndi mér að lífið er ekki bara fótbolti, það er svo margt annað sem er mikilvægara. Máni Péturs og Kristján Guðmunds eiga stóran þátt í mínum bataferli og verð ég þeim ævinlega þakklátur.

Sigurbergur var á sínum tíma einn efnilegasti fótboltamaður landsins og árið 2007 varð hann yngsti leikmaðurinn til þess að spila í efstu deild karla á Íslandi.

Sjá einnig: Máni hjálpaði Ólafi Karli úr ruglinu

„Árið 2009 breyttist allt hjá mér í sambandi við knattspyrnu. Ég fór frá því að elska íþróttina yfir í það að hata hana algjörlega,“ segir hann í pistlinum.

„Á einni æfingunni að þá fer hnéð á mér, game over, sumarið farið, og ég sem hafði gert mér gífurlegar væntingar um fótboltasumarið.“

Það tók Sigurberg tvö og hálft ár að komast aftur á völlinn og hann segir að sá tími hafi verið skelfilegur.

„Ég þurfti að fara í 3 aðgerðir á hné og ég glímdi við mikið þunglyndi sem ég náði að fela mjög vel,“ segir hann í pistlinum.

„Fjölskyldan mín hafði ekki hugmynd um líðan mína fyrr en ég sagði þeim það ári eftir að ég uppgötvaði það sjálfur. Ég hafði gefið atvinnuferilinn upp á bátinn, þrátt fyrir að vera aðeins 17-18 ára. Mín hugsun var sú að ég hafði brugðist öllum.“

Hann segist hafa verið gjörsamlega niðurbrotinn.

„Þetta hafði gífurleg áhrif á samband mitt við fjölskylduna og kærustuna mína á þeim tíma. Ég tók mjög oft þunglyndisköst og á tímapunkti var ég kominn það djúpt niður að ég var farin að íhuga hluti sem ég átti alls ekkert að vera spá í. Ég faldi þetta mjög vel og setti á mig grímu í hvert skipti sem ég fór út. Það vissu þetta mjög fáir í kringum mig.“

Sigurbergur segir líðan sína hafa byrjað að lagast þegar Máni kom inn í þjálfarateymið en honum og Kristjáni var sagt upp störfum á dögunum.

„Í dag er ég annar maður, er með frábæra kærustu, fjölskyldu og vini sem styðja við bakið á mér,“ segir Sigurbergur í pistlinum.

„Með þessum pistli vil ég miðla sögu minni og reynslu til þeirra sem líma við sama vandamál og ég glímdi við því þetta er mun algengara en við höldum, þið eru með heilann her af fólki sem er tilbúið að hjálpa ykkur og munum að lífið er ekki bara fótbolti.“

Smelltu hér til að lesa allan pistilinn.

Auglýsing

læk

Instagram