Þinglýsingar verði rafrænar í haust: bið eftir þeim gæti styst niður í sekúndubrot

Biðin eftir þinglýsingu gæti styst niður í nokkur sekúndbrot ef nýtt frumvarp þess efnis hlýtur brautargengi í haust. Greint er frá þessu á Vísi.

Frumvarpið er tilbúið til framlagningar og mun Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra leggja það fram í haust. Fólk getur þá sent inn skjöl til þinglýsingar með rafrænum hætti sem verður til þess að biðin eftir þinglýsingu styttist niður í nokkrar sekúndur, jafnvel sekúndubrot.

Fasteignasalar og fjármálastofnanir geta fengið aðgang að tölvukerfi sem verður gangsett í mars, verði frumvarpið samþykkt en hönnun kerfisins er langt á veg komið. Þar verður hægt að senda inn kaupsamninga, veðleyfi og veðskuldabréf með rafrænu aukenni.

Sigríður segir breytingarnar munu flýta fyrir þinglýsingu skjala enda verði ferlið nánast sjálfkrafa þegar tölvukerfið verður komið í gang og þannig dragi verulega úr umstangi í kringum þinglýsingar en það mun einnig létta á vinnuálagi hjá sýslumannsembættum.

Dómsmálaráðuneytið áætlaði árið 2010 að sparnaður hjá sýslumannsembættinu vegna rafnrænnar þinglýsingar á veðskuldabréfum yrði að minnsta kosti 70 milljónir. Fjármálafyrirtæki áætluðu að þau gætu sparað að minnsta kosti 5.500 krónur á hvert veðskuldabréf í formi pappírs og vinnu sem samsvarar hundruðum milljóna króna á ári.

Með tilkomu rafrænna þinglýsinga verður fullnægjandi skjölum þinglýst á sekúndubrotum að sögn Bergþóru Sigmundsdóttir sviðstjóra hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, en séu skjölin ófullnægjandi verði þeim vísað frá eða þau fara í handvirka vinnslu sem getur tekið lengri tíma.

 

Auglýsing

læk

Instagram