Vigdís Hauksdóttir segir þvingunaraðgerðir í gangi vegna Laugavegarins: „Þetta er hreinn valdhroki og mikil ósvífni“

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, mótmælti stöðu Laugavegarins og miðborgarinnar á fundi í borgarstjórn í nótt. Hún segir aðför að svæðinu hafa staðið látlaust síðan árið 2011 og rök og andmæli rekstraraðila á svæðinu hafi verið hundsuð.

Í bókun Vigdísar segir að vísað sé fram og til baka í skoðanakannanir til rökstuðnings þeirrar stefnu að gera Laugaveginn og nágrenni hans að göngugötu allt árið. Meirihlutinn hafi nú þegar breytt deiliskipulagi fyrir svæðið svo hægt sé að hrinda hugmyndunum í framkvæmd.

Sjá einnig: Mikil ánægja með göngugötur í Reykjavík: „Hafa haft virkilega jákvæð áhrif á mannlíf”

„Ljóst er að þvingunaraðgerðir eru í gangi fyrir þá sem þarna búa og stunda rekstur og það án nokkurs samráðs. Ljóst er að verslun og þjónusta er ekki velkomin á þetta svæði, þá er það vitað svo ekki verður um villst. Þessi vinnubrögð eru einkar ósvífin.“

Í færslu á Facebook síðu sinni segir hún að þetta komi sér og öðrum verulega á óvart. Ekkert samráð hafi verið við rekstraraðila á svæðinu né íbúa og þarna sé á ferð hreinn valdhroki og mikil ósvífni. Í athugasemdum við færsluna kvartar hún einnig yfir skorti á bílastæðum.

Sjá einnig: Vigdís Hauksdóttir las greinargerð Vegagerðarinnar ekki alveg nógu vel: „Ekki eitt orð um það sem kallað er Borgarlína“

„Fæ ekki stæði því allir túristarnir sem gista á hótelunum teppa stæðin svona snemma á morgnana – kannski finn ég bílastæðishús sem ég get lagt í áður en öllu verður lokað og gjaldskráin hækkar um 20% 1. jan, n.k.“ skrifar Vigdís.

Hörður Ágústsson, eigandi og framkvæmdastjóri Maclands, rekur verslun á Laugaveginum. Hann segir að þegar stjórnmálamaður láti slík ummæli út úr sér þá sé viðkomandi með annað hvort mjög rangar upplýsingar eða bara ekki með allt kveikt.

Auglýsing

læk

Instagram