Virkur í athugasemdum bað Semu Erlu afsökunar, tók fulla ábyrgð á því sem hann sagði

Maður sem skrifaði ljót ummæli um Semu Erla Serdar á Facebook hringdi í hana í dag og baðst afsökunar. Sema hafði birt ummæli hans á Facebook-síðu sinni.

Sema Erla er mikill talsmaður fjölmenningar á Íslandi og hefur reglulega orðið fyrir árásum frá virkum í athugasemdum. Fyrr á árinu hóf hún að birta verstu ummælin á Facebook-síðu sinni en hún segir að það sé gert til að skila skömminni þangað sem hún á heima.

Í færslu á Facebook-síðu sinni lýsir hún samtalinu sem hún átti við manninn hringdi í hana til að biðjast afsökunar.

„Ég sagði honum líka að með því væri ég ekki að reyna að sækja mér vorkunn eða samúð eða gera sjálfa mig að fórnarlambi, heldur geri ég það með von um að einhverjir myndu mögulega sjá að sér, biðjast afsökunar og hætta,“ segir hún.

Hún segir að maðurinn hafi tekið fulla ábyrgð á því sem hann hafði gert og beðið sig innilegrar afsökunar.

„Hann sannfærði mig um að hann myndi aldrei aftur taka þátt í því að dreifa hatursáróðri um netið og að ég myndi aldrei aftur sjá slík ummæli eftir hann á netinu. Ég trúi honum,“ segir Sema sem þakkaði honum fyrir og sagði að málið væri lokið af sinni hálfu enda markmiðinu náð.

Ég sagði honum að ég hefði ekki nokkra ástæðu til þess að halda áfram að vera reið út í hann, erfa þetta við hann eða hata hann, það hreinlega tæki alltof mikla orku frá okkur öllum að hata annað fólk.

Sema Erla segir að baráttan snúist ekki um sjálfa sig heldur þau sem upplifa fordóma, hatursorðræðu og einelti á netinu og geta ekki tekið slaginn

„Hún snýst um það hvernig samfélag við viljum byggja fyrir komandi kynslóðir, fyrir krakkana, fyrir þá sem vilja taka þátt í opinberri umræðu og stjórnmálum,“ segir hún.

„Að mínu mati er það opið samfélag þar sem hægt er að takast á um málefnin, það sem umburðalyndi, virðing og réttlæti fyrir alla er til staðar. Þar sem hatursorðræða er ekki liðin. Sem betur fer erum við flest öll sammála um það!“

Auglýsing

læk

Instagram