Frumsýning á myndbandi Snorra Helgasonar, fjallar um þessa einlægu löngun okkar til að vera kúl

Tónlistarmaður Snorri Helgason hefur sent frá sér myndband við lagið Sumarrós. Leikkonan Saga Garðarsdóttir, kærasta Snorra, og Ásrún Magnúsdóttir listakona leikstýra myndbandinu sem er frumsýnt á Nútímanum. Horfðu á myndbandið hér fyrir neðan.

Saga segir í samtali við Nútímann að myndbandið fjalli um þessa einlægu löngun okkar til að vera kúl. „Og umþað hvað tilgangsleysið er töff,“ segir hún.

„Sko, lagið fjallar náttúrulega eins og öll bestu lög í heimi um það hvað það er stundum erfitt og flókið að vera skotinn í einhverjum. Og þetta tilfinningaríka millibilsástand þegar maður veit ekki alveg hvort einhver er að byrja með manni eða bara að djóka í manni.“

Saga segir að það sé mögnuð tilfinning. „Þegar maður vill ganga í augun á einhverjum en samt heldur ekki virka neitt örvæntingafullur,“ segir hún.

Soldið svona eins og þegar manni langar að leika við einhvern þegar maður er lítill eða spyrja eftir einhverjum en maður megnar það ekki alveg ef hann skildi segja nei.

Og Saga tekur dæmi: „Eða þegar maður var í afmæli hjá vinum foreldra manns og mamma manns sagði: „Sjáðu þennan krakka – hann er líka krakki. Leiktu við hann!“ — Sem er hræðilegt því auðvitað viltu leika við hann en þú vilt líka að það gerist bara einhvernveginn af sjálfu sér.“

Saga segir að hún og Ásrún hafi verið spenntar fyrir þessu millibilsástandi og einlægri löngun til þess að vera töff eða meðtekinn. „Og við vorum báðar að hugsa mjög mikið um krakka. Ásrún var náttúrulega nýbúin að leikstýra krökkum í dansverki og helstu fyrirmyndar mínar í lífinu eru litlu frændur mínir og aðrir kúl krakkar.“

Myndbandið er allt tekið upp í bakgörðunum þar sem Saga og Snorri búa. Nokkrir af krökkunum í myndbandinu búa þar líka.

„Aldurinn 8-11 ára er náttúrulega algjört millibilsástand á milli þess að vera ekki beint krakki en heldur ekki orðin unglingur. Þegar þú mátt ekki fara neitt sjálfur án þess að láta einhvern vita og verður bara að drepa tímann milli þess sem þér er skutlað á fótboltaæfingar eða í fiðlutíma,“ segir Saga.

„Þú verður bara að raða spilum, eða horfa út í loftið, eða hjóla einn hring um hverfið og finna fyrir unaði tilgangsleysisins. Okkur langaði líka að fanga það og upphefja. Svo fengum við Sigurð Unnar með okkur í að taka upp og klippa því hann er myndlistamaður lærður að utan og okkur finnst það mjög smart.“

Horfðu á myndbandið hér fyrir neðan

Auglýsing

læk

Instagram