Örskýring: Huldumaður með gögn um skattaundanskot Íslendinga

Uppfært: Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri segir að annað og hugsanlega bæði skilyrðin sem fjármálaráðuneytið setti fyrir kaupum á gögnum úr skattaskjólum verði vart uppfyllt. Hún segir að viðræðum um kaup á gögnum verði ekki haldið áfram nema skilyrði ráðuneytisins verði endurskoðuð. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Um hvað snýst málið?

Stjórnvöldum stendur til boða kaup á gögnum um skattaundanskot Íslendinga.

Skattrannsóknarstjóri fékk nöfn 50 íslenskra aðila síðasta sumar sem vísbendingar eru um að hafi stundað skattaundanskot og komið fyrir eignum í skattaskjólum. Upplýsingarnar komu frá manni sem bauð embættinu gögnin til sölu.

Þetta voru um tíu prósent gagnanna sem hann segist vera með undir höndum og var þeim ætlað að vera sýnishorn fyrir íslensk stjórnvöld.

Í desember fékk skattrannsóknarstjóri heimild frá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu til að kaupa gögnin, með ákveðnum fyrirvörum.

Hvað er búið að gerast?

Ekki hefur verið ákveðið hvort gögnin verði keypt. Enginn opinber verðmiði er kominn á gögnin.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í fréttum RÚV að málið strandaði ekki á fjármálaráðuneytinu:

Skattrannsóknarstjóri verður að rísa undir þeirri ábyrgð sinni að stunda skattrannsóknir og afla sér þeirra gagna og upplýsinga sem til þess þarf. […] Mér hefur þótt þetta mál vera að þvælast hjá embættinu alltof lengi og að ekki hafi allt staðist sem þaðan hefur komið.

Fulltrúar minnihlutaflokka efast um vilja Bjarna til að kaupa gögnin.

Hefur þessi leið virkað? 

Kjarninn segir frá því að þýsk stjórnvöld greiddu um 20 milljónir evra fyrir samskonar gögn á árunum 2006 til 2012. Ávinningur vegna kaupanna var margfaldur, eða um tvö þúsund milljónir evra.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram