Örskýring: Um hvað í fjandanum snýst þetta mál með Kim Kardashian og Donald Trump?

Um hvað snýst málið?

Alice Johnson er laus úr fangelsi eftir að Kim Kardashian fór á fund Donalds Trump Bandaríkjaforseta í síðustu viku og ræddi mál hennar.

Johnson er 63 ára gömul amma og langamma og hlaut lífstíðardóm fyrir minniháttar fíkniefnabrot á tíunda áratug síðustu aldar. Hún sat í fangelsi í 21 ár.

Hvað er búið að gerast?

Johnson flæktist inn í umfangsmikinn eiturlyfjahring en segist aldrei hafa meðhöndlað fíkniefnin sjálf heldur einungis verið milliliður sem kom skilaboðum áfram. Þetta var hennar fyrsta lögbrot en þar sem aðrir aðilar í málinu báru vitni gegn henni í skiptum fyrir vægari dóma hlaut hún lífstíðardóm.

Kim Kardashian rakst á myndband með frásögn Johnson á Twitter síðastliðinn október en það snerti við henni og hét hún því að gera allt sem í hennar valdi stóð til þess að hjálpa Johnson að fá dóminn mildaðan.

Kardashian fór á fund Donald Trump, Bandaríkjaforseta, í Hvíta Húsið í síðustu viku til að ræða við hann um mál Johnson og endurbætur í fangelsismálum. Trump varð við beiðni Kardashian og Hvíta Húsið tilkynnti í gær að dómur yfir Johnson hafi verið mildaður og henni var sleppt úr fangelsi.

Hvað gerist næst?

Kardashian gaf það í skyn á Twitter í gær að hún ætli að halda áfram að vinna með samtökum um endurbætur í fangelsismálum í Bandaríkjunum.

Óvíst er hver næstu skref Alice Johnson verða en í viðtali við fjölmiðla þegar hún losnaði úr fangelsinu lofaði hún forsetanum að gera hann stoltan.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram