Örskýring: WOW air reynir að redda sér peningum og við reynum að útskýra málið

Um hvað snýst málið?

Mikið tap hefur verið á rekstri flugfélagsins WOW air að undanförnu. Unnið er að því að fá peninga að láni til að reka félagið næstu mánuði.

Hvað er búið að gerast?

Fréttablaðið greindi frá því í dag að stjórnendur og ráðgjafar WOW air ræði nú við forsvarsmenn stóru íslensku bankanna um mögulega aðkomu þeirra að fjármögnun flugfélagsins.

Rekstur WOW air hefur gengið erfiðlega, meðal annars vegna hækkandi olíuverðs. Í ágúst var greint frá því að WOW air væri að skipuleggja skuldabréfaútboð sem á að tryggja flugfélaginu fjármögnun í 18 til 24 mánuði. Ekki hefur tekist að ljúka útboðinu og þess vegna hefur WOW air leitað til íslensku bankanna.

Skuldabréf er skjal sem staðfestir að lán hafi verið tekið og samþykki fyrir því að það verði greitt til baka að fullu. Þegar þú tekur til dæmis íbúðarlán er gefið skuldabréf þar sem upplýsingar um lánið koma fram; upphæð, afborgunartími og vextir. Með því að kaupa skuldabréf sem WOW gefur út eru fjárfestar því að lána flugfélaginu peninga.

Kjarninn greinir frá því að stjórnvöld hafi fundað um stöðu WOW air um helgina enda myndi greiðslustöðvun flugfélagsins hafa mjög mikil efnagsleg áhrif á Íslandi.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, segir mikilvægt að stjórnvöld skoði afleiðingar þess að flugfélögin yrðu fyrir áföllum. Ekki stendur þó til að bjarga flugfélögunum, þurfi þau á því að halda.

Hvað gerist næst?

Í frétt Fréttablaðsins kemur fram að stjórnendur og ráðgjafar WOW air hafi orðið bjartsýnni um framgang útboðsins eftir því sem leið á gærdaginn. „Unnið er að því að ljúka útboðinu – með markaðsfjármögnun – fyrir helgi,“ segir þar.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram