12 gagnleg afmælisráð fyrir foreldra þar sem markmiðið er minni streita og meira stuð

Gefum okkur að barnið þitt sé ögn spenntara fyrir afmælinu sínu heldur en þú. Afmæli eru stórmál fyrir ákveðinn aldurshóp og við munum flest þá daga þegar svona tímamót voru sannarlega fagnaðarefni.

Hér er rjóminn af góðum afmælisráðum frá reyndum foreldrum.

1. Finndu barnið í þér!

Það er miklu líklegra að þér finnist gaman ef þú ert þátttakandi fremur en verkstjóri eingöngu. Njótið þess að skipuleggja með barninu, innan raunhæfra tímamarka – það er óþarfi að hefja skipulagninguna 10 mánuðum fyrirfram þó barnið vilji það. Afmæli snúast um að fá að vera stjarnan þann daginn svo finndu út með barninu hvað er mikilvægast fyrir það. Þetta þarf ekki allt að vera fullkomið frá A-Ö. Það á bara að vera gaman.

2. Slappaðu af

Þetta er afmæli fyrir barnið þitt. Þetta er þeirra show og snýst ekki um egóin okkar foreldrana. Sjá fyrra komment. Þetta á að vera gaman – ekki streituvaldur fyrir þig.

3. Þarfagreining

Þetta er basic. Hverjir eru að koma? Á hvaða aldri? Í grunninn þarftu bara stað, veitingar og afþreyingu. Allt hitt er viðbótarstuð og þú velur hversu mikið tilstandið er. Það stjórnast af tíma ykkar foreldranna.

4. Út fyrir kassann

Hikaðu ekki við að hugsa út fyrir kassann. Væri gaman að halda afmælið úti? Pikknikk í Heiðmörk? Ganga á fjall? Fara með krakkahópinn í bíó? Sund? Keilu? Þá þarft þú ekki bæði að þrífa fyrir og eftir afmælið. Fjölskylduafmæli þarf heldur ekki að halda í stofunni heima. Það má líka halda þau heima hjá afa og ömmu. Eða Bibbu frænku ef stofan hennar er stór.

5. Útvistaðu, fólk vill hjálpa þér

Þú þarft ekki að gera allt sjálf/ur. Fáðu t.d. einhvern til þess að stýra söng, taka myndir, fylgjast með veitingunum. Það vilja allir hjálpa til – leyfðu þeim það. Ekki ræna vini og ættingja þeirri gleði að fá að taka virkan þátt í þessum skemmtilega viðburði. Fleiri ábyrgir fullorðnir þýðir líka að minni líkur eru á að eitthvað þróist yfir í drama, leiðindi eða vesen.

6. Ramminn

Það auðveldar málið að hafa tímaramma í barnaafmælum þéttan. Tveir tímar er gott viðmið og það er ekki dónaskapur að segja fólki hvenær afmælið er búið. Gott er að verja fyrri hálfleik í leiki, inni eða úti eftir hentugleika (úti er kjörið að nota bakgarða, skólavelli eða leikskólasvæði eftir lokun).

7. Leikir eru mjög mikilvægir!

Fyrir eldri krakka er geysilega vinsælt að fara í ratleiki (krefst skipulags en það borgar sig algjörlega) en feluleikir, myndastyttuleikir, pokahlaup og boðhlaup eru líka grand. Krökkum finnst mjög skemmtilegt að hafa fullorðna með í leikjunum svo endilega virkið sem flesta með í fjörið. Naglaskreytingar og hárgreiðslustöðvar með fullt af spennum og skrauti eru vinsælar hjá mörgum sem og alls konar föndur. Vatnsbyssustríð ef vel viðrar – endalaust vinsælt. Hæfileikasýningar þar sem gestum er skipt upp í hópa og þau eiga að semja lítið leikrit, dans- eða söngatriði með tilheyrandi búningum og leikmunum getur slegið gegn. Fyrir bekkjar- og leikskólaafmæli er gott að hafa í huga að börnin eru oft verulega snögg að borða. Það er gott að róa andrúmsloftið aðeins niður áður en foreldrarnir byrja að banka uppá. Þá er sniðugt að fara í pakkaleik eða stoppdans eða skella ræmu í tækið á meðan gengið er frá. Leiklestur eða sögustund virkar vel á litlu krakkana, þá fara allir mjög afslappaðir heim.

8. Allir saman – enginn útundan

Allir með er algjört lykilatriði í afmælum. Pössum að enginn sé útundan og allir séu vinir.

9. Veitingarnar

Það er óþarfi að segja börnunum að einhver kaka sé sykurlaus en glútenfrí eða vegan nema viðkomandi barn sé á slíku mataræði. Ef þú vilt bjóða upp á holla valkosti í afmælinu þá er það frábært. En líkurnar á því að börnin hafi frumkvæði að því að borða fyrst hollu kökuna sem þú hafðir svo mikið fyrir að baka eru hverfandi ef það er eitthvað annað meira glitrandi á borðinu. Það hefur reynst vel að leyfa litlum gestum bara að byrja að borða strax, já og stórum líka jafnvel ef leikjum og slíku er sleppt. Það er óþarfi að byggja upp meiri spennu í kringum borðhaldið líka, sumir eru alltaf svangir ef það er kaka. Það má alveg blása á kertin þó aðrir séu farnir að fá sér. Fast borðhald er erfitt með yngra fólk – stundum er hlaðborð í einu horni er þekkilegra og þægilegra.

10. Skreytingar

Skreytingar eru mikið mál fyrir yngra fólk. Og þar gildir reglan More is more. Leyfðu því bara að flæða. Þetta er einu sinni á ári – og þú getur geymt skrautið og notað það aftur á næsta ári. Og lítið gerir mikið – það er skemmtilegra að drekka úr krukku en glasi, borða popp úr kramhúsi fremur en skál og muffins með augu er alltaf fyndið. En það þarf ekki allt að vera sniðugt.

11. Gista eða ekki gista?

Ekki gistipartý fyrr en eftir 12 ára nema þá fyrir börn hvers foreldra þið þekkið mjög vel. Margir foreldrar vilja ekki að börnin sín gisti hjá „ókunnugum“ og lenda þá í klemmu með sitt barn.

12. Og hvað með gjafirnar?

Fyrir marga er heppilegt að geyma pakkana þar til gestirnir eru farnir heim. Það getur skapað togstreitu að vera í þeim ham að opna þegar aðrir eru að leika sér. Það er gaman að hafa einn vin eða vinkonu með – en erfitt að vera með öll augun á sér – og muna svo ekki hver gaf hvað.

 

Nútíminn foreldrar er ný og skemmtileg síða helguð þessu risavaxna hlutverki. Lækaðu okkur á Facebook og þú missir ekki af neinu.

Auglýsing

læk

Instagram