(Eiginlega) allt sem þig langar að vita um herraklippingu en meikar ekki alveg að spyrja um …

Sífellt fleiri íslenskir karlar velja að fara í herraklippingu, þ.e. varanlega ófrjósemisaðgerð enda er það örugg og ódýr getnaðarvörn ef fólk er á annað borð búið að ljúka sínum barneignum. Við settumst niður með Guðjóni Haraldssyni þvagfæraskurðlækni á Landsspítalanum og spurðum hann út í næstum allt sem ykkur gæti langað að vita um herraklippingar.

Hverjir leita til þín?

„Þeir menn sem leita til mín koma yfirleitt eftir að hafa rætt þessi mál við félaga, frændur eða vini sína. Það er ekki óalgengt að málefnið komi upp, t.d. hjá samstarfsfélögum og við sjáum mikið af því að einhver einn brjóti ísinn og svo fylgi aðrir í kjölfarið. Við höfum til dæmis fengið hingað vakta- og vinnuhópa frá verktökum og ýmsum fyrirtækjum. Svo það er ekki rétt sem sumir halda að karlmenn ræði ekki saman um heilsu sína; getnaðarvarnir og slíkt. Margar starfsstéttir til dæmis, sem við lítum á sem töff karla, eru greinilega að ræða þessi mál mikið sín í milli. Þeir eru upplýstir og mæta.“

Og hvað gerist fyrst?

„Ferlið hefst á viðtalið hjá þvagfæraskurðlækni þar sem farið er í gegnum aðgerðina, hvernig hún er framkvæmd, kosti, galla og vandamál og hver ávinningurinn sé. Svo er fundin heppileg dagsetning. Biðtíminn er yfirleitt stuttur, innan við fjórar vikur.“

Er þetta mikið mál?

„Þetta tekur í sjálfu sér skamman tíma, fjarvera frá vinnu er stutt en aðgerðin tekur innan við hálftíma. Hún er ýmist gerð í staðdeyfingu og/eða stuttri slævingu. Í slævingu eru notuð sömu lyf og við svæfingu en í vægari skömmtum. Þetta er viðkvæmt svæði og langflestir strákarnir velja það ef þeir hafa kost á að fá bara að slaka á og gleyma sér rétt á meðan. Þeir eru mjög ánægðir með það.“

Og hvað er gert nákvæmlega?

„Viðkomandi liggur á bakinu, ytri kynfæri eru þvegin, en hárin á pungsvæði eru ekki rökuð. Sjúklingur fær verkja- og slökunarlyf í æð og svæðið kringum efri hluta pungsins er líka staðdeyft með grannri nál. Í aðgerðinni er klippt á sáðleiðarana frá báðum eistunum. Það er gert pínulítið gat, með þar til gerðri græju og klipptur burtu örsmár bútur úr leiðurunum og svo lokað fyrir báða enda. Markmiðið er að loka fyrir leið sáðfrumanna úr eistunum upp í þvagrásina, það má segja að við tökum höglin úr skotinu.“

Hverjir eru viðstaddir aðgerðina?

„Viðstaddir aðgerðina eru skurðlæknirinn og einn hjúkrunarfræðingur. Stundum er einn aðstoðamaður líka sem er þá að aðstoða í fleiri aðgerðum á sama tíma.“

Hvernig líður manni á eftir?

„Þeim líður yfirleitt mjög vel á eftir. Með tækninni sem notuð er í dag er áreitið mjög lítið, þetta eru lágmarks skurðaðgerðir. Menn eru iðulega komnir heim um klukkutíma eftir að aðgerð lýkur.“

Aðgerð sem þessi hefur engin áhrif á ris né kynlöngun og aðeins óveruleg áhrif á sæðismagn viðkomandi. Allt er óbreytt nema að sæðisfrumurnar vantar í sæðið.

Hefur þetta áhrif á kynlífið?

„Nei, aðgerð sem þessi hefur engin áhrif á ris né kynlöngun og aðeins óveruleg áhrif á sæðismagn viðkomandi. Allt er óbreytt nema að sæðisfrumurnar vantar í sæðið. Og fæstir menn taka eftir því. Það er enginn munur á tilfinningunni við samfarir.“

En eru menn minni menn á eftir?

„Þetta með karlmennskuna kemur alltaf upp. Ofast hef ég frumkvæði af því að ræða þau mál sjálfur, en ef ég geri það ekki þá spyrja menn ofast út í það. Það er greinilega ekki mikil almenn vitneskja um þessa líffærafræði okkar heldur. Strákarnir hafa almennt ekki áttað sig á því hvaða tilgangi t.d. blöðruhálskirtillinn þjónar. Sú fræðsla er gagnleg og nauðsynleg. Þegar maður útskýrir að þetta snúist bara um að taka sæðisfrumurnar út úr myndinni en allt hitt haldi sér þá hætta flestir að hafa nokkrar áhyggjur af karlmennskunni. Þetta hefur til að mynda engin áhrif karlhormónið – testesterónið – sem gefur okkur bæði þetta karlmannlega útlit og kynlöngun, það er ekkert átt við það.“

Hefur þetta áhrif á samlíf para?

„Já, tvímælalaust. Konan losnar þá við getnaðarvörnina sem oftast er pillan, lykkjan eða hormónalykkja. Slíkum hormónagjöfum geta fylgt alls konar aukaverkanir, erting og jafnvel verkir. Og svona aðgerð getur á sinn hátt tekið ákveðinn streitufaktor úr samböndum.“

Hvenær er í lagi að stunda kynlíf eftir aðgerðina?

„Það er í lagi um leið og það er í boði en aðgerðin er ekki örugg fyrr en maðurinn er búinn að fara í tékk, það er að skila inn sæðisprufu svo hægt sé að tryggja að engar sæðisfrumur séu lengur að skila sér út. Það er gert sirka átta vikum eftir aðgerðina. Þó búið sé að taka sæðisleiðarann í sundur og brenna fyrir er gróandinn í líkamanum svo magnaður – og það getur gerst að hann finni leið, það getur myndast hárfínn gangur á milli þrátt fyrir alllt og þá þarf ekki marga sundmenn til þess að ónýta aðgerðina.“

Og fara allir í tékk?

„Já, nær allir gera það. Ég er mjög ákveðinn í því að senda alla í tékk enda er það eina leiðin til þess að tryggja að aðgerðin hafi heppnast sem skyldi.“

Er þá ekkert að óttast?

„Aðgerðin er áhættulítil, og mun minni en þegar konur fara í ófrjósemisaðgerð því þá þarf að fara inn í kviðarholið og leita uppi eggjaleiðarana til að setja klemmur á þá. Það verður að segjast að við strákarnir erum þannig úr garði gerðir að þetta er mun aðgengilegra hjá okkur. Við getum gert þessa aðgerð á langflestum, og ef eitthvað amar að vegna heilsufarsástæðna er oftast hægt að leysa það fyrir aðgerð. Menn á blóðþynningarlyfjum eiga t.a.m. að hætta á þeim tímanlega fyrir allar aðgerðir.“

Þetta gæti talist ódýrasta getnaðarvörnin á markaðnum.

Og hvað kostar þetta?

„Þetta gæti talist ódýrasta getnaðarvörnin á markaðnum. Kostnaðurinn er fólginn í viðtals- og móttökugjöldum og svo rannsóknum – aðgerðin sjálf er niðurgreidd af sjúkratryggingum og því ókeypis. Í heildina er útlagður kostnaður manna í kringum 25.000 krónur sem er álíka mikið og ein hormónalykkja.“

Mega allir fara í svona aðgerð?

„Meirihluti karlanna sem fara í þessar aðgerðir hér á landi eru á aldrinum 35-55 ára. Það er svo merkilegt að þú öðlast ekki fullnaðarrétt yfir líkama þínum fyrr en við 25 ára aldur, þó þú borgir skatta og megir kjósa. Menn yngri en 25 ára þurfa að sækja sérstaklega um að mega fara í ófrjósemisaðgerð. Mjög fáir ungir menn koma í svona aðgerðir en þó eru alltaf einhverjir, sérstaklega menn sem hafa þá byrjað ungir að eignast börn. Það fækkar þó í þeim hópi. Svo eru til ungir menn sem ekki vilja eignast börn. Mér finnst það ekki vera mitt að spyrja þá út í þeirra bakgrunn eða slíkt. Ég lít á þetta sem hverja aðra lífsskoðun – sumir vilja eignast börn en fólk á alveg jafn mikinn rétt á að vilja það ekki. Ég fer ekki í neina lífsskoðunarumræður en ég bendi fólki á aldur þess og árétta að ýmislegt getur breyst. Það er ágætt að nota tímann fram til 25 ára til þess að meta þessi mál. Það eru til ágætis getnaðarvarnir sem fólk getur notað. En 25 ár aldurinn er ekkert slæmur tímapunktur til þess að taka þess ákvörðun – þá er maður vonandi búinn að sjá nógu mikið af lífinu til þess að vita nokkurn veginn hvert maður vill stefna.“

En er eitthvað sem stoppar menn?

„Langflestir sem koma í viðtal fara í gegnum ferlið þó þeir geri það ekki strax. Mörgum finnst þetta mjög afgerandi og því stór ákvörðun. Ég legg á það mikla áherslu að menn líti á þetta sem varanlega getnaðarvörn því þó tæknilega sé hægt að endurtengja menn þá er árangurinn af slíkum aðgerðum ekkert sérstaklega lýsandi.“

Er þá ekki hægt að fara til baka?

„Á þeim stöðum sem hvað mest gera af slíku er árangurinn ekki nema í kringum 50% og talið að um 70% af endurtengingum sé búið að loka sér aftur innan árs. Það er því lítill gluggi sem opnast ef menn reyna að fara til baka. En möguleikinn á tæknifrjóvgun er ennþá til staðar. Það er hægt að sækja efnivið í eistnalippurnar og árangur af slíku er ágætur.“

Er enginn vafi í mönnum?

„Varanleiki aðgerðarinnar er það sem helst stoppar menn af. Það eru ekkert allir tilbúnir að stíga þetta skref strax, enginn veit sína ævi fyrr en öll er. Menn geta orðið fyrir slysum, hjónabönd breytast – sumir byrja upp á nýtt. Það skiptir öllu máli að vera búinn að hugsa þetta vel. Margir koma, fá upplýsingar og fara svo heim og ræða málin. Margir þeirra hafa samband aftur seinna þegar þeir hafa melt þetta betur og þá tökum við upp þráðinn að nýju.“

Koma menn oft í aðgerð að frumkvæði maka?

„Það hefur geysilega margt breyst bara á síðustu 20 árum, og eitt er að nú taka strákarnir miklu virkari þátt í ákvörðun sem þessari og axla meiri ábyrgð. Þegar við skoðum tölurnar yfir ófrjósemisaðgerðir undanfarna áratugi sjáum við að þetta hefur gjörsamlega snúist við, hér áður fyrr voru miklu fleiri konur sem fóru í ófrjósemisaðgerðir en það er breytt.“

Myndir þú segja að það væri jákvætt?

„Hvert par verður vitanlega að ræða þessi mál og taka sína ákvörðun, en þetta er líkamlega mun auðveldari aðgerð fyrir okkur karlana.“

Svo stelpurnar eru ekkert að senda sína menn til þín?

„Maður heyrir það alveg, menn bera því við en þeir eru ekkert að koma hingað nema af því að þeir eru fúsir að gera það. Ég man allavega ekki til þess að nokkur hafi verið teymdur hingað í aðgerð.“


Á næstu dögum birtum við hliðstætt viðtal um ófrjósemisaðgerðir kvenna.

Nútímaforeldrar eru líka á Facebook.
Lækaðu ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu.

Auglýsing

læk

Instagram