Hvernig er hægt að skjóta sér inn í skilaboðaskjóðuna?

Ég dáist að fólki sem sækir það sem það langar í. Þá er ég ekki að meina fólk sem langar í örbylgjuofn og fer í næstu raftækjaverslun til að verða sér úti um einn slíkan. Ég á vinkonu sem varð sér úti um mann með því að senda honum skilaboð á Instagram, án þess að þekkja hann hið minnsta. Hún náði bara að „skjóta sér inn í skilaboðaskjóðuna hans,“ eins og hún orðar það sjálf.

Margar vinkvenna okkar í saumaklúbbnum segjast öfunda hana af því hvað hún er ófeimin og hvatvís því það þarf jú vissa hvatvísi til að gera hluti án þess að hugsa neitt út í afleiðingarnar. Þessi vinkona mín hafði til dæmis engar áhyggjur af viðbrögðum gaursins, og nei, hún var ekki að gera þetta í fyrsta skipti en það hefur ekki alltaf endað með sambandi eða jafnvel neinum samskiptum að ráði. „Ég – hrædd við höfnun?“ svaraði hún hlæjandi þegar við stelpurnar spurðum hvort hún væri ekkert hrædd við að fá höfnun eða ekkert svar. Flestar sögðust vinkonur okkar líka vera hræddar um að það yrði gert grín að þeim, þær fengju einhver leiðindi í andlitið og sætu jafnvel uppi með einhverja vanlíðan í kjölfarið. „Það gerist samt ekkert ef maður prófar ekki,“ sagði ófeimna vinkona okkar, „og ég vil frekar fá neitun við því að spyrja hvort við ættum að hittast yfir kaffibolla eða jafnvel ekkert svar heldur en að hafa ekki prófað. Ég meina, hver veit nema þetta sé sálufélaginn!“

Samskipti á netinu eiga líka að snúast um virðingu

Margir í kringum mig segja að „gamla leiðin“ til að kynnast einhverjum, sé bara liðin undir lok. Þ.e. „gamla leiðin“, eins og við sem erum eldri en tvævetur í þessum stefnumótamálum þekkjum, t.d. að kynnast á skemmtistað eða byrja að spjalla við einhvern sem þú ert alltaf að rekast á í göngutúrnum og eitt leiði svo af öðru. Nú eru stefnumótaforritin málið eða önnur forrit í símanum, eins og til dæmis Instagram. En hvernig eigum við að bera okkur að við að „skjóta okkur í skilaboðaskjóðurnar“ eins og vinkona mín orðar það svo skemmtilega? Það er nefnilega ekki sama hvernig þetta er gert. Það er til dæmis algjörlega bannað, ég endurtek: ALGJÖRLEGA BANNAÐ að senda dónamynd, þú veist hvað ég meina. Ekki myndir þú gyrða niður um þig á næsta bar þegar þú sérð einhverja sæta stelpu og heilsa henni með því að sýna henni þetta allra heilagasta um leið og þú kynnir þig? Nei, varla, og þess vegna sendir þú ekki dónamynd í skilaboðum.

Það er heldur ekkert heillandi við að fá skilaboð á borð við: „Flott brjóstaskora“ eða „sexí rass“. Samskipti á netinu eiga líka að snúast um virðingu og kurteisi, alveg eins og samskipti í raunheimum.

„Ekki myndir þú gyrða niður um þig á næsta bar þegar þú sérð einhverja sæta stelpu og heilsa henni með því að sýna henni þetta allra heilagasta um leið og þú kynnir þig?“

Notaðu ímyndunaraflið til að koma samræðum í gang

Mér finnst alltaf mjög furðulegt að fá skilaboð sem byrja einfaldlega á „hæ“. Það er glötuð byrjun ef þú ert að reyna að koma af stað samræðum. Ég mæli með því að þú sendir eitthvert svar við því sem viðkomandi setur í story. Það er betra en að fara bara beint í að senda skilaboð, alveg upp úr þurru. Það fer ekkert á milli mála ef þú sendir einhver viðbrögð að þú sért að fylgjast með viðkomandi og hafir áhuga á því sem hann er að gera. Það er alltaf gaman að finna fyrir því að einhver hafi áhuga á því sem maður er að gera, það séu ekki bara áhrifavaldarnir og fræga fólkið sem aðrir fylgist með.

Með því að gera „reply“ við story geturðu líka aðeins þreifað fyrir þér og séð hvort að það gæti mögulega verið einhver áhugi á hinum enda línunnar, án þess að þú þurfir að óttast að finnast þér hafnað ef ekkert kemur út úr þessu. Ef viðkomandi svarar þér getur orðið áframhaldandi spjall úr því en ef þú færð til dæmis ekkert svar til baka er nokkuð ljóst að það þarf ekki að eyða meiri tíma í þetta. Næsti, takk!

Opnar spurningar gefa kost á spjalli

Þegar (nú, eða ef …) þið eruð byrjuð að spjalla geturðu fært þig aðeins upp á skaftið í samræðunum. Ef viðkomandi á til dæmis hund geturðu spurt út í tegundina, dáðst að því hvað þér sýnist hann vel uppalinn eða hvaðeina sem þér dettur í hug. Eða, ef viðkomandi er duglegur að fara út að ganga geturðu spurt hvort hann geti bent þér á skemmtilegar gönguleiðir og jafnvel beðið um góð ráð fyrir göngu. Í rauninni eru möguleikarnir óendanlegir því fólk er að pósta öllu mögulegu en þú skilur hvað ég meina. Málið er að fara bara rólega í hlutina og helst ekki spyrja spurninga sem gefa eingöngu kost á já- eða nei-svari. Best er að geta farið inn á sameiginlegan áhuga, ekki gera þér upp áhuga á einhverju sem þú veist í raun ekkert um því það getur komið þér í vandræði. Einlægni, heiðarleiki og rólegheit virka örugglega best.

Texti: Vera Sófusdóttir

Auglýsing

læk

Instagram