„Ógeðslega flókið að deita þegar maður á þessi blessuðu börn“

Vera Sófusdóttir skrifar:

„Það er svo ógeðslega flókið að deita þegar maður á þessi blessuðu börn“

Þetta sagði samstarfskona mín fyrrverandi um daginn þar sem við stelpurnar sem unnum saman fyrir nokkrum árum hittumst í Happy hour. Hún er nýfráskilin og nokkrar í hópnum tóku undir með henni. Guð hvað ég var fegin að vera ekki í þessum sporum lengur, þ.e. með lítil börn. Ég man þegar ég var einhleyp, með krakkana mína litla, að þetta gat verið bara alveg ferlega flókið.

 

Hér eru nokkur atriði sem er gott að spá í þegar maður er einstætt foreldri og að deita.

 

Fáðu hlutina á hreint strax í byrjun

Það er gott að fá að vita strax hvernig hinum aðilanum líst á að deita einstætt foreldri. Margar og ólíkar ástæður geta verið fyrir því að maður deiti síður einhvern sem er einstæður með börn og það er bara allt í lagi og hefur ekkert með mann persónulega að gera. Sjálfri finnst mér til dæmis ekki spennandi að deita mann sem er með ung börn af því að mín eigin eru orðin fullorðin og flutt að heiman.

Barnið er/börnin eru alltaf í fyrsta sæti

Ef dóttir þín er að keppa á handboltamóti um helgina og þú ert boðin í bústað með fjölskyldu kæró, þá mætirðu á handboltamótið. Ef sonur þinn er að taka þátt í leiksýningu sama kvöld og mamma kæró er með kaffiboð í tilefni af sjötugsafmælinu sínu, þá mætirðu á leiksýninguna. Mörgum finnst sambandið alltaf eiga að ganga fyrir, en sambönd taka enda; við hættum ekki með börnunum.

„Mörgum finnst sambandið alltaf eiga að ganga fyrir, en sambönd taka enda; við hættum ekki með börnunum.“

Það er dýrt að deita

Því miður er það svo að það getur verið dýrt að deita. Þegar við erum með börn á okkar framfæri verða þau að ganga fyrir. Svo er það nú bara þannig að þegar maður er einn að reka heimili er oft erfitt að láta enda ná saman og maður má ekki við neinum aukakostnaði. Það þarf ekki að fara nákvæmlega yfir fjárhagsstöðu heimilisins þegar maður er að byrja að deita en það er allt í góðu að ræða það að manni henti betur að fara í bíó eða elda heima frekar en að fara í leikhús eða út að borða á dýrum veitingastað.

Börnin eru líka í þessu sambandi

Það er heilmikið mál að kynna nýjan aðila til leiks í lífi barnanna, það verður að segjast. Gott er að spyrja sig hvort þessi aðili, sem maður er að byrja að hitta, muni bæta líf manns OG barnsins/barnanna? Það getur verið gott að spyrja barnið/börnin álits, spyrja hvernig því/þeim líst á viðkomandi, og gefa sér tíma til að hlusta á það sem barnið hefur/börnin hafa að segja. Það getur líka verið gott að ræða þetta við þau reglulega því auðvitað getur alls konar komið upp á sem nauðsynlegt er að ræða strax.

Þú hefur minni tíma fyrir þig

Þegar maður er einn í barnauppeldinu og að reka heimilið er minni tími til að sinna áhugamálunum og jafnvel getur maður verið heppinn að ná eins og einni sturtuferð þann daginn. Það er samt nauðsynlegt að maður geti tekið pínu tíma frá fyrir sjálfan sig, án barnanna. Það á líka við um það þegar maður byrjar að deita einhvern. Það þarf að finna tíma og gefa sér tíma til að sinna því sambandi líka.

Úttektina má finna í heild ainni á vefnum Birtingur.is.

 

Auglýsing

læk

Instagram