Ódýrt að ætla að afgreiða málið sem peningagræðgi

Auglýsing

Óhætt er að segja að Þóra Einarsdóttir hafi verið meðal fremstu óperusöngvara þjóðarinnar um árabil. Haustið 2019 fór hún með hlutverk Súsönnu í Brúðkaupi Fígarós sem Íslenska óperan setti upp. Í ljós kom að Óperan hafði ekki virt samninga við einsöngvara í sýningunni og stefndi Þóra Óperunni vegna vangoldinna launa. Þetta er brot úr lengra viðtali.

Í Héraðsdómi Reykjavíkur var Íslenska óperan sýknuð af kröfu Þóru en hún áfrýjaði málinu til Landsréttar þar sem hún fór með sigur úr býtum. Þóra segir aldrei hafa verið neinn vafa í sínum huga að eitthvað yrði að gera í málinu en henni hafi þó komið á óvart viðbrögð Óperunnar og einnig sumra kollega sinna. Þóra, sem áður hafði nóg að gera í íslensku tónlistarlífi segir símann hafa stoppað þegar hún höfðaði málið gegn Óperunni. Það er þó engan bilbug á henni að finna, enda á ýmislegt annað hug hennar allan þessa dagana, þótt hún sæki enn þá næringu í tónlistina.

„Það var auðvitað stór ákvörðun að fara í mál gegn Íslensku óperunni,“ segir Þóra þar sem hún situr ásamt blaðamanni á kaffihúsi í Perlunni á sólríkum degi. „Samt þurfti ég ekki að hugsa mig lengi um því við einsöngvararnir töldum að kjarasamningur okkar ætti að verja réttindi okkar um vinnutíma og lágmarkskjör enda vísað til hans í öllum okkar samningum. En við mættum þannig viðmóti að það var einfaldlega ekki hægt að sætta sig við það. Það var því aldrei nein spurning í mínum huga um að gera eitthvað í málinu. Það er ekki hægt að láta það viðgangast eða spyrjast út að við óperusöngvarar séum að vinna undir kjarasamningum og óhugsandi að ekki séu nein takmörk á vinnutíma. Mér fannst mikilvægt fyrir komandi kynslóðir söngvara og fyrir fagið að komið yrði skikki á þessa hluti. Dómsmál var bara eina leiðin. Ég átti kannski ekki von á því hvernig stjórnendur Óperunnar mættu þessu en sem betur fer náði réttlætið fram að ganga að lokum,“ segir hún brosandi.

Forsaga málsins er sú að Íslenska óperan boðaði Þóru á æfingar langt umfram þann hámarksæfingatíma sem kveðið er á um í kjarasamningi Óperunnar við Félag íslenskra hljómlistarmanna, FÍH, og Félag íslenskra leikara, FÍL. „Óperustjóri, Steinunn Birna Ragnarsdóttir, neitaði að borga yfirvinnuna og sagði kjarasamninginn ekki eiga við um okkur einsöngvarana. Við leituðum þá til stéttarfélags okkar, FÍH, sem taldi að æfingalaun væru of lágt reiknuð, greiðslu vantaði vegna yfirvinnutíma og að einnig vantaði greiðslu vegna launatengdra gjalda,“ segir Þóra. Málið féll Óperunni í vil fyrir Héraðsdómi en Þóra áfrýjaði til Landsréttar þar sem hún bar sigur úr býtum og staðfesti Landsréttur að Óperan hafi brotið gegn kjarasamningunum í þremur mikilvægum atriðum. Þ.e. að greidd hafi verið lægri laun fyrir æfingatíma en samkvæmt kjarasamningi, ekki hafi verið greitt fyrir yfirvinnu sem þó beri að gera samkvæmt kjarasamningi og ekki hafi verið greidd launatengd gjöld sem einnig beri að gera samkvæmt kjarasamningi. Óperunni var gert að greiða Þóru vangoldin laun, samtals 638 þúsund krónur.

Auglýsing

„Eftir að Óperan vann í héraði var birt yfirlýsing á vef Óperunnar þar sem var áréttað að þau hefðu ekki brotið samninga og ýjað að því að samningurinn hefði verið mér hagfelldur,“ segir Þóra og hristir höfuðið líkt og í vantrú, „en ég held að það sjái það nú allir að þetta er ekki há upphæð sem um var að ræða, þetta snerist bara um grundvallarréttindi, fyrst og fremst um rétt á hvíldartíma og lítið annað. Svona mikil yfirvinna á æfingatíma er alls ekki æskileg þar sem röddin og líkaminn þurfa nauðsynlega hvíld til að geta tekist við þessar krefjandi æfingar. Staðan var þannig hjá okkur að einsöngvararnir sýndu mikil merki þreytu og álags. Hvíld er sérstaklega mikilvæg í tilfelli okkar söngvara þar sem hljóðfærið er í líkamanum.

Óperusöng er oft líkt við afreksíþróttir þar sem úthald og hvíld eru lykilatriði. Það sér hver maður að það væri galið að haga æfingum maraþonhlaupara á þann veg að láta hann hlaupa maraþon á hverjum degi í margar vikur rétt fyrir mót. Mér fannst stórfurðulegt að peningar skyldu allt í einu vera orðinn einhver fókus og í raun mjög ódýrt að ætla að afgreiða málið með því að þetta hafi verið einhver peningagræðgi í mér. Ég hef starfað sem óperusöngvari í rúman aldarfjórðung og tekist á við fjölbreytt verkefni í alls konar aðstæðum, með litlum óperuleikhópum og í risahúsum og allt þar á milli, bæði sem verkefnaráðin og fastráðin, og ég verð að segja að reynsla mín í Brúðkaupi Fígarós hér á landi er með eindæmum.“

 

Texti: Guðrún Óla Jónsdóttir
Myndir: Hallur Karlsson

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram