today-is-a-good-day

Hvað gerist á nýju ári?

 

Ég var minnt á það um daginn að tvö ár væru liðin frá ákveðnum atburði sem mér fannst hafa gerst fyrir nokkrum dögum síðan. Ég trúði því ekki og þurfti að fletta því upp en jú, tvö ár voru það, heillin! Tíminn líður svo óskaplega hratt og augnablikið er þotið hjá áður en maður veit af. Þetta á svo sem ekki að koma manni neitt á óvart en gerir það samt. Stundum virðumst við, því miður, þurfa að vera minnt harkalega á það hversu hratt augnablikið líður hjá til að læra að njóta þess. Börnin minna okkur líka á það hvað tíminn flýgur; þau stækka og þroskast á einu augabragði, að manni finnst, og maður skilur bara ekkert í því hvar tannlausa ungbarnið sem hjalaði í fanginu á manni „í gær“ með pínulitlar og dúllulegar tásur er niðurkomið en í staðinn kominn unglingur með fullorðinstennur og risavaxna fætur. Þannig týnist tíminn …

Völvublaðið er stútfullt af skemmtilegu efni. Völvuspá Vikunnar er auðvitað fyrir löngu orðin ómissandi um áramót og alltaf spennandi að sjá hvað Völvan sér í spilunum fyrir komandi ár. Ekki er síður spennandi að skoða það sem rættist í spádómum hennar fyrir árið sem er að líða. Í blaðinu er svo til dæmis að finna viðtal við konu sem flutti frá Póllandi til Íslands fyrir sautján árum og stundar sjósund og köld böð af miklum móð. Á síðasta ári keppti hún fyrir Íslands hönd í skriðsundi í köldu vatni á alþjóðlegu móti og hreppti bronsið. Fram undan hjá henni er keppni í frönsku Ölpunum þar sem synt er í u.þ.b. 3°C köldu vatni. Ég signi mig nú bara og dáist að svona fólki! Einnig er viðtal við Dísu Dungal sem hryggbrotnaði þegar hún datt af trampólíni. Hún var ákaflega heppin að ekki skyldi fara verr en hún er í endurhæfingu sem mun taka langan tíma. Dísa segist alltaf setja sér sama áramótaheitið; að gera nýja árið enn betra en það fyrra, lífið snúist um að vera hamingjusöm. Það finnst mér flott áramótaheit!

Ég þekki marga sem strengja áramótaheit og ég hef gert það sjálf, oft og mörgum sinnum. Oftar en ég kæri mig um að muna hefur áramótaheitið snúist um líkama minn af því að lengi trúði ég því að hann væri orsök alls þess ómögulega í lífinu. Þegar ég losaði mig svo við 82 kíló af stjórnsemi og leiðindum eftir langa mæðu, varð ég loksins, í fyrsta skipti, hamingjusöm við það að missa kíló. Samt léttist ég sjálf ekki neitt og líkami minn var bara nákvæmlega sá sami og áður! Svo má ekki gleyma kröfunum sem samfélagið setur á okkur þegar útlitið er annars vegar; við þurfum helst öll að vera steypt í sama mót og ekki fara fram úr hinum úrelta BMI-stuðli því þá fer maður beinustu leið til helvítis, „óhamingjusamur“, „heilsulaus“ og annars flokks. Einn daginn mun þetta vonandi breytast og allir teknir í sátt eins og þeir eru.

Ég er fyrir löngu hætt að setja mér áramótaheit en ég set mér það markmið fyrir nýtt ár að vera besta útgáfan af sjálfri mér, góð við dýr og menn og njóta þess að vera til, segja já við nýjum ævintýrum og vera laus við leiðindi. Kæru lesendur; ég óska ykkur gleðilegs og farsæls nýs árs og þakka ykkur ánægjulega samfylgd á árinu sem er að líða. Gerið það fyrir mig að setja ykkur SKEMMTILEGT markmið fyrir nýja árið. Lífið er allt of stutt fyrir leiðindi nefnilega!

Leiðari Guðrúnar Ólu Jónsdóttur, ritstjóra Vikunnar

Auglýsing

læk

Instagram