Auglýsing

Stjórnsemi eða ást?

Texti: Vera Sófusdóttir

Stundum lítur eitthvað út fyrir að vera ósköp krúttlegt og gert af umhyggju. Það er hins vegar auðvelt að túlka stjórnsemi sem hugulsemi. Kíkjum á nokkur atriði sem gætu sýnt að kærastinn er í raun úlfur í sauðagæru.

Hann vill alltaf vera að tékka á þér

Hann saknaði þín „bara svo ótrúlega mikið“ að hann varð að senda þér nokkur skilaboð, á stuttum tíma, á meðan þú varst úti með vinkonum þínum. Þú sérð jafnvel að hann virðist áhyggjufyllri með hverjum skilaboðunum sem hann sendir. Ekki sætt og hann er ekki bara að athuga hvernig þú hafir það, heldur er hann að fylgjast með þér.

Hann notar oft afsökunina: „En … ég elska þig bara svo mikið!“

Ef hann notar þessa afsökun í kjölfarið á því að hafa komið illa fram við þig eru allar líkur á að hann sé að reyna að fá þig til að gleyma því hvernig hann lét og fá þig til að fyrirgefa sér. En þetta er hegðun sem vert er að passa sig á.

Hann getur ekki lifað án þín

Hann segist elska þig svo óendanlega mikið að hann myndi einfaldlega deyja án þín. Þetta er ekki rómantískt, þetta er hrollvekjandi. Ef um andlegt ofbeldi er að ræða getur það endað með því að viðkomandi hóti því að taka eigið líf til að stjórna þér þegar þú vilt ekki gera það sem hann vill að þú gerir.

Þú ert það eina góða í lífi hans

Ekki heldur rómantískt. Enginn ætti að bera þá ábyrgð að vera það eina góða í lífi einhvers. Gættu þín ef hann vill fara að hafa þig alveg út af fyrir sig og einangrar þig frá vinum þínum og vandamönnum.

Hann eys yfir þig gjöfum sem þú þarft ekki

Auðvitað er gaman að fá gjafir en ef hann er til dæmis að skipta út skartgripum sem þú átt og ert ánægð með eða kaupir þér föt sem hann vill að þú gangir í eða eitthvað þvíumlíkt snýst þetta ekki um að gefa þér gjafir til að gleðja þig. Þetta snýst um að hann er að reyna að breyta þér í einhverja manneskju sem þú ert ekki í raun.

Hann hefur „áhyggjur af þér“

Þess vegna hringdi hann margoft og sendi þér fjölmörg skilaboð á þessum stutta tíma sem þú varst úti, af því að hann „hafði áhyggjur,“ segir hann. Ef þú svarar honum ekki strax verður hann reiður, eða „áhyggjufullur“ eins og hann vill meina. Þetta er samt bara hans leið til að virðast meina vel á meðan hann er í raun að koma inn hjá þér samviskubiti svo þú sýnir honum og hans þörfum meiri athygli. Svona hagar ástríkur maki sér ekki.

Hann langar að stofna fjölskyldu

Það er nú ekkert óeðlilegt við það en veittu því athygli hvers vegna hann vill stofna fjölskyldu. Er það hluti af áætlun hans til að einangra þig og yfirtaka líf þitt algjörlega, svo hann geti stjórnað því hvar þú ert, fjármálunum og öllu öðru?

Hann slær þér stanslaust gullhamra

Sannarlega er gott að fá að heyra jákvæða hluti og það ýtir heldur betur undir sjálfstraustið en ef þetta er stanslaust gæti það verið fyrirsláttur. Ef til vill langar hann að nota þetta til að stjórna þér seinna.

Hann bendir þér á að þú sért búin að drekka heldur mikið

Dæmi: Þið voruð saman í veislu þar sem hann bað þig um að hætta að drekka eftir að hafa séð þig skemmta þér vel með vinum þínum. Auðvitað bara af því að hann bar hag þinn fyrir brjósti; hann vildi hlífa þér við slæmum timburmönnum á morgun af því að honum þykir svo vænt um þig. En kannski var hann frekar fúll yfir því hvað þú varst að skemmta þér vel af því að hann er óöruggur og öfundsjúkur.

Hann er mikið í gríninu

Hann kallar þig klikkaða eða vitlausa, en meinar það auðvitað „bara í gríni“. Í raun er hann að sá fræi í heilann á þér svo þú farir að trúa þessu.

Hann bendir þér á hvað betur megi fara í þínu fari

Hann getur til dæmis ráðlagt þér hvernig þú átt að hella upp á almennilegt kaffi, hvernig þú getir misst nokkur kíló, hvernig þú getir staðið þig betur í vinnunni og svo framvegis. En þetta er ekki af umhyggju fyrir þér, heldur vill hann stjórna þér.

Hann missir stjórn á sér af því að hann langaði svo að hitta þig

Það var svo svekkjandi þegar þú varðst að aflýsa stefnumótinu, hann var búinn að hlakka svo til. Þess vegna tók hann kast. Hann baðst fljótlega afsökunar og auðvitað fyrirgafstu honum því þetta var svo sætt. En ding dong, hér ættu viðvörunarbjöllur að fara af stað. Menn sem þola ekki að heyra nei ætti að varast.

Hann er alltaf svo yndislegur eftir rifrildi

Oft er rifrildið tilkomið vegna þess að þú bentir honum á eitthvað sem hann gerði rangt eða sagði. Eftir á gæti hann sagt að þú hefðir bara misskilið hann, honum finnst glatað að standa í svona drama eða hann bara trúi því ekki að þú haldir að hann sé „svona gaur“ eins og hann sýni nú hvað hann elski þig mikið á hverjum degi. Þetta er rugl og þú ættir ekki að sætta þig við meira af því.

„Hann kallar þig klikkaða eða vitlausa, en meinar það auðvitað „bara í gríni“. Í raun er hann að sá fræi í heilann á þér svo þú farir að trúa þessu.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing