Grenjandi karlar

Umræðan grenjandi karla fór á flug á dögunum eftir að Ari Ólafsson fór að gráta í beinni útsendingu áður en hann vann Söngvakeppni Sjónvarpsins. Viðbrögðin á samfélagsmiðlum voru fyrirsjáanleg: Fyrst var gert grín að Ara, honum var líkt við Ingu Sæland sem fór eftirminnilega að gráta daginn fyrir síðustu Alþingiskosningar og var í kjölfarið sögð hafa grátið sig inn á þing.

Þegar búið var að hæðast að Ara var hópi fólks misboðið og birti stuðningsyfirlýsingar. Þær voru misdramatískar; allt frá stafrænu klappi á öxlina upp í að þakka honum fyrir að stuðla að betri heimi með færri sjálfsvígum. Allt gott og gilt og eflaust nokkuð auðveldlega rökstutt. Þannig séð. Bældir karlar eru hættulegir sjálfum sér og öðrum. Það myndi eflaust hjálpa ef við myndum öll gráta aðeins meira.

Sjálfur grét ég mjög sjaldan þangað til ég eignaðist son minn. Og ég grét ekki einu sinni þegar hann fæddist. Það var óbeint búið að segja mér að ég ætti að gráta en það bara gerðist ekki. Hef ekki hugmynd af hverju ekki. Hann var í smá stund að byrja að anda eftir að hann fæddist og ég upplifði allskonar tilfinningar á meðan yfirvegaðir starfsmenn landspítalans kveiktu á honum með öllum tiltækum ráðum. Þegar hann byrjaði loksins að grenja gat ég ekki tekið undir öðruvísi en með taugaveikluðu flissi.

Mér fannst þetta frekar glatað og ég er ekki sá eini sem hefur skammast sín fyrir að geta ekki grátið á yfir þessari ótrúlegustu upplifun allra upplifana. Um það hafa verið skrifaðar margar greinar og þeir sem þykjast vita best segja yfirleitt að maður þurfi ekki að skammast sín. Fólk er misjafnlega vel í tengslum við tilfinningar sínar. Sumir gráta aldrei og aðrir oft.

Sjálfur þurfti ég ekki að velta þessu fyrir mér lengi því næstu daga lak ég eins og gamall krani. Ég var eins og Bruce Willis í Friends eftir að hann byrjaði að tjá tilfinningar sínar við Rachel. Allt sem mér fannst fallegt lét mig fá kökk í hálsinn. Eðlilega gat ég varla horft á son minn án þess að tárast en það var bara svo miklu, miklu meira. Ég fór að gráta þegar ég heyrði falleg lög, ég grét yfir sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Ég var meira að segja byrjaður að fela tárin fyrir kærustunni minni — ekki vegna þess að ég skammaðist mín fyrir að gráta. Þetta var bara svo fjandi oft. Ég vildi ekki að hún hefði áhyggjur.

Þetta tímabil stóð yfir í nokkrar vikur og það væri pínu leiðinlegt ef það hefði engu skilað — ef ég væri kominn aftur í sama táralausa farið. Málið er að ein stærsta, varanlega breytingin sem ég hef upplifað á sjálfum mér eftir að Tindur fæddist er að ég fæ kökk í hálsinn, hor í nös og tár í augun nokkuð reglulega og við hin ýmsu tilefni. Sjónvarpsþættir, viðtöl, myndbönd á internetinu — þetta getur allt grætt mig. Ég birti þessa mynd á Instagram í gær og get varla horft á hana án þess að fara að gráta vegna þess að sonur minn er svo sætur á henni:

Og ég skil ekki af hverju nokkur maður myndi skammast sín fyrir þetta. Mér finnst þetta frábært og ég vona að ég verði alltaf svona.

Og þið getið bókað, að ef ég tek þátt í undankeppni Eurovision eða býð mig fram í kosningum, þá gæti alveg skeð að ég grenji svolítið í beinni útsendingu. Án þess að skammast mín fyrir það í eina sekúndu.

Auglýsing

læk

Instagram