Tökum andleg og líkamleg veikindi jafn alvarlega

Ungur karlmaður er fluttur á Landspítalann í Fossvogi með lífshættulega áverka eftir alvarlegt umferðarslys á Reykjanesbrautinni. Þegar á spítalann er komið er hann þegar í stað sendur í aðgerð þar sem læknar reyna sitt besta til að bjarga lífi hans. Eftir aðgerðina dvelur hann á gjörgæslu þar sem hann er undir stöðugu eftirliti fagfólks.

Ungur karlmaður er lagður inn á geðdeild Landspítalans við Hringbraut um miðja nótt. Hann hefur glímt við andleg veikindi síðustu ár en að undanförnu hefur ástandið versnað til muna og hafa fjölskylda hans og vinir nú ástæðu til að ætla að hann muni svipta sig lífi ef hann fær tækifæri til þess. Að veikindi hans séu orðin honum lífshættuleg.

Fjölskylda hans og vinir hafa reyndar áður fylgt unga manninum á spítalann af sömu ástæðu en þá var þeim vísað í burtu. Nú er staðan önnur, starfsfólkið telur loksins að honum líði nógu illa. Þau sem standa manninum næst eru fegin, hann er kominn í hendur fagfólks. Hættan er liðin hjá, hann er á öruggum stað. Nokkrum klukkustundum síðar er ungi maðurinn látinn, honum tókst ætlunarverk sitt. Á sjálfri geðdeildinni.

Báðar sögurnar hér að ofan eru uppspuni en eiga sér því miður stoð í raunveruleikanum.

Eftir að hafa fylgst með umfjöllun um mál ungs karlmanns sem svipti sig lífi á geðdeild Landspítalans í síðustu viku hef ég meðal annars velt fyrir mér hvort hann væri hugsanlega enn á lífi ef hann hefði komið á spítalann með lífshættulega líkamlega áverka.
Ef hugsað hefði verið um unga manninn á geðdeildinni eins og unga manninn á gjörgæsludeildinni, hefðu andlegu veikindin kannski ekki náð að draga manninn til dauða?

Nokkrir hafa stigið fram eftir að fréttir um sjálfsvíg mannsins bárust og sagt sögu ættingja sinna sem dvöldu á geðdeild vegna sjálfsvígshugsana en tókst einnig að svipta sig lífi þar. Á staðnum þar sem þau áttu að fá aðstoð, þar sem þau áttu að vera örugg.

Eftir því sem ég best veit hefur Landspítalinn ekki viljað veita fjölmiðlum upplýsingar um hvernig staðið var að gæslu unga mannsins eða hversu lengi hann hafði verið einn þegar í ljós kom að hann var látinn eftir sjálfsvíg. Það þarf að svara þessum spurningum og tryggja í eitt skipti fyrir öll að þetta muni ekki endurtaka sig.

Við þurfum að fara að taka andleg og líkamleg veikindi jafn alvarlega, þá sérstaklega heilbrigðiskerfið. Það er nefnilega hægt að vera í lífshættu án þess að vera með líkamlega áverka.

Auglýsing

læk

Instagram