Tvö sent um þessa Þjóðhátíðarumræðu

Það er enginn að kalla eftir öllum smáatriðum, enginn að biðja um nöfn þeirra sem koma að máli, enginn að biðja um upplýsingar um í hvaða tjaldi eða íbúð brotið átti sér stað, enginn að biðja um tímasetningu. Það er enginn fjölmiðill að biðja um nánari upplýsingar en „hafa einhver kynferðisbrot verið tilkynnt“. Þetta snýst ekki um að skrifa krassandi fréttir heldur að sýna og segja frá því sem gerist á svona hátíð.

Því miður er reynslan sú að við getum áætlað að nokkur kynferðisbrotamál, nauðganir, komi upp í Eyjum (og líka annars staðar á landinu). Það er eitthvað sem á og þarf að ræða og reyna að koma í veg fyrir. Það er einhver ástæða fyrir því að fleiri nauðganir eiga sér stað á Þjóðhátíð í Eyjum þar sem 17 þúsund koma saman en á Hróarskeldu þar sem 160 þúsund koma saman.

Það er enginn að biðja um að rannsóknarhagsmunir í einstaka málum verði látnir víkja fyrir upplýsingaskyldu við almenning. Allir eru sammála um að það eigi ekki að skaða rannsóknarhagsmuni í þessum málum og að hlúa eigi að fórnarlömbum nauðgana. Það stendur ekkert í vegi lögreglunnar að meta hvert mál fyrir sig. Ef rannsóknarhagsmunir kalli á að ekki sé greint frá málinu á meðan hátíðin stendur yfir hafa fjölmiðlar skilning á því. Það er alveg víst.

Að ógleymdum hinum margumtöluðu almannahagsmunum; að partýgestir í Eyjum viti af því að þrjár, fjórar, fimm eða sex nauðganir hafi verið tilkynntar. Það eru almannahagsmunir fólgnir í því að vita hvernig samfélagi við búum í. Að hér skuli hópur einstaklinga þurfa að sitja eftir með sár á sálinni eftir að hafa verið nauðgað á útihátíð. Eitthvað sem er svo algengt að við gerum frekar ráð fyrir því að einhverjum sé nauðgað á Þjóðhátíð í Eyjum en ekki.

Þetta verklag lögreglunnar í Vestmannaeyjum, sem er nær einstakt á landinu, var tekið upp í fyrra. Þá var ekki sagt frá tilkynntum brotum á þriðjudegi eftir Verslunarmannahelgi, eins og margir halda, heldur komu tölurnar fram í október. Gagnrýni fjölmiðla og fjölmiðlafólks er á það en ekki að rannsóknarhagsmunir í einstaka málum séu teknir fram yfir upplýsingagjöf um Verslunarmannahelgina.

Pistillinn birtist fyrst á Facebook-síðu Aðalsteins og er birt á Nútímanum með leyfi hans.

Auglýsing

læk

Instagram