Block Burger

[the_ad_group id="3076"]

Ég var óviss hvernig að ég ætti að túlka vörumerki Block Burger. Bleiki einkennislitur Block Burger og nánast dularfulla lógóið (hálf-furðuleg kjötkaka sem svífur á milli tveggja hamborgarabrauða) framkölluðu einhverskonar Legósenu í breiðtjaldi huga míns. Ég ímyndaði mér kubbslega menn í kubbslegum fötum að setja saman kubblagaða borgara í kubblöguðu eldhúsi; ég er, almennt séð, algjör kubbahaus (blockhead). En ég var frekar langt frá því að hafa á réttu að standa. Sannleikurinn er sá að Block Burger er frekar hefðbundinn hamborgarastaður
og ég meina þetta alls ekki illa. Þegar ég heimsótti Block Burger var klukkan að slá tvö. Það var fámennt, hádegistraffíkin sennilega búin, og staðurinn hefði verið tómur væri það ekki fyrir tvo bandaríkjamenn sem voru að diskútera pólitík (sem betur fer hafði ég undirbúið mig fyrir slíka vitleysu með heyrnartólum). Ég gekk í átt að afgreiðsluborðinu, eins og ungur Clint Eastwood sem rigsar hnarrreistur í kúrekastígvélum. Við afgreiðsluborðið stóð erlend stúlka sem talaði ensku. Mér finnst gaman að tala ensku. Ég er nefnilega Clint Eastwood. Þar sem ég þjáðist af alvarlegum matarskorti, þá sleppti ég öllu smátali (small talk) og pantaði Block Burger Kombóið í flýti (1,690 ISK). Ég bað til Guðs (ekki kristilega Guðs, heldur til heilags Blocks) um að kokkurinn væri kvikur. Og sem betur fer var kokkurinn kvikur. Kombóinu var stungið út um lúgu nokkrum mínútum seinna. Ég sótti bakkann og settist aftur niður. Hamborgarinn var góður: kjöt, kál, tómatar, block-sósa og ostur. Frönskuskammturinn (vöfflufranskar) var samt frekar rýr (‚rýr‘ er hugsanlega rangyrði; hestur hefði flokkast í ‚rýr‘ í þessu ástandi sem ég var í). Síðan ég heimsótti Block Burger fyrst hef ég komið aftur í þrígang. Það eru meðmæli.

Orð: Skyndibitakúrekinn

www.blockburger.is

Auglýsing

læk

Instagram