Nokkur góð og hagnýt ferðaráð

Á vef Birtings er allan og ýmis konar sarp að finna, frá tölublöðum Vikunnar og Gestgjafans, svo dæmi séu nefnd ásamt mörgu fleiru. Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir tók saman neðangreind ferðaráð en greinin er upphaflega birt í Gestgjafanum og má finna hér í heild sinni. 


 

Vegabréfið

Athugaðu með góðum fyrirvara hvenær vegabréfið þitt rennur úr gildi, mörg lönd taka ekki við vegabréfum sem renna út innan sex mánaða.

Á flugvöllum er gott að hafa vegabréfið alltaf við höndina, veldu góða tösku með hólfi sem auðvelt er að komast að og hafðu vegabréfið alltaf á sama stað og ekki geyma því í vasanum á flugvélarsætinu.

Vertu alltaf með ljósrit af vegabréfinu meðferðis eða í það minnsta mynd af því í símanum, það getur verið gott til dæmis ef vegabréfinu er stolið eða það týnist. Margir kjósa að geyma vegabréfið í öryggishólfinu á hótelinu og hafa ljósritið á sér.

Gott er að leggja vegabréfsnúmerið sitt á minnið eða hafa það skrifað í símanum sínum. Oft þarf að fylla út skjöl sem krefjast þess að nota númerið til dæmis þegar verið er að fylla út tax-free skjöl og ýmislegt annað.

 

Öryggisleitin

Pakkaðu handfarangrinum þannig að auðvelt sé að nálgast snyrtivörurnar, tölvuna eða iPadinn og vertu búin að setja snyrtivörurnar í poka. Það er óþolandi hvað fólk er stundum lengi að koma dótinu sínu í bakkana í öryggisleitinni. Gott er líka að velja skó sem eru ekki með neinu málmskrauti á og einnig er ágætt að sleppa belti og of miklu glingri.

Afþreying

Í þeim flugvélum sem eru með sjónvarpi þarf að muna eftir að taka með heyrnartól, því þótt oftast sé hægt að kaupa þau í vélunum þá kostar það smávegis peninga og oft eru þau óvönduð.

Þeir sem ferðast með lággjaldaflugfélagi þar sem engin afþreying er ættu að passa að vera með síma, tölvu eða iPad og muna að hafa tækin fullhlaðin og ekki gleyma að hlaða niður einhverri góðri mynd eða hlaðvarpi.

Bækur og tímarit koma líka að góðum notum í háloftunum þegar á að stytta sér stundir og við mælum sérstaklega með að fólk nýti tímann í að lesa ferðagreinar um áfangastaðinn sem stefnt er á.

Það getur líka stytt fólki stundir að taka til í símanum sínum, hvort sem það eru myndir, öpp eða annað. Þannig höfum við ofan af okkur og gerum líka gagn.

Nokkur ráð um matsölustaði erlendis

 

Verið búin að ákveða hvar á borða þegar þið komið út og e.t.v. panta borð, það er fátt leiðinlegra en að ráfa um og leita að góðum stað þreyttur eftir flug. Fátt er aftur á móti betra en að setjast niður á góðum stað og byrja fríið á máltíð og drykk. 

Kynnið ykkur vel matarmenningu þess svæðis sem förinni er heitið og reynið að borða mest af þeirri matargerð eins og tapas-rétti á Spáni, vínarsnitsel í Þýskalandi og bistro- og brasserie-mat í Frakklandi svo dæmi sé tekið.

Pantið borð í tíma! Á vinsælum stöðum getur verið erfitt að komast að og því nauðsynlegt að panta borð í tíma, suma staði þarf að bóka með nokkurra mánaða fyrirvara og aðra með nokkurra vikna fyrirvara. Ef um stutta helgarferð er að ræða er ágætt að vera með nokkra staði bókaða en skilja eitthvað eftir fyrir önnur matarævintýri eins og götumat og mathallir. Margir staðir taka ekki pantanir heldur verður að mæta í tíma samdægurs. Litlir staðir gera þetta gjarnan og oft er auðvelt að sjá hvaða staðir eru góðir á því hversu margir bíða í röð fyrir utan. Pantið frekar fleiri staði og afbókið heldur en að panta ekki, flesta staði er hægt að afbóka innan ákveðins tímaramma.

Flestir veitingastaðir halda borðum í 10-15 mínútur, þannig að ef ykkur seinkar er nauðsynlegt að hringja og láta vita og þá halda þeir borðinu oftast lengur enda alþekkt í stórborgum að lenda í umferðarteppu eða vera fastur í neðanjarðarlestinni. Margir staðir eru afar þakklátir ef þeir eru látnir vita af seinkun og þá eru meiri líkur á því að fá gott borð og góða þjónustu.

 

Kynnið ykkur þjórfémenningu þar sem þið borðið, þótt okkur finnist fáránlegt að þjóninn þurfi að treysta á kúnnann til að fá launin sín þá breytum við ekki heilu samfélögunum með því að virða ekki menningu og hefðir landanna sem við heimsækjum. Í flestum Evrópulöndum er þjónustan innifalin nema annað sé tekið fram en víða annars staðar í heiminum er það ekki þannig. Ef vafi leikur á því hvort og hversu mikið þarf að skilja eftir þá má halla sér að gestunum á næsta borði og spyrja eða vera búinn að spyrja heimamenn.

Fáið þjónana til að segja ykkur hvað er best og vinsælast á matseðlinum og hvort veitingastaðurinn sé þekktur fyrir einhvern ákveðinn rétt eða rétti. Flestir þjónar vita hvað er ferskast hverju sinni og hvað er vel gert á staðnum. Látið þá líka mæla með góðri vín- eða drykkjarpörun. Þið eruð að borga fyrir þjónustuna hvort sem hún er innifalin í verðinu eða í formi þjórfjár, nýtið ykkur það. Bon appetit!

Auglýsing

læk

Instagram