today-is-a-good-day

Dagur B. Eggertsson

„Þú kynnist Íslendingum hvergi betur en í heitu pottunum.“

Ég er ástfanginn af Reykjavíkurborg. Ég hef ekki alltaf verið ástfanginn af Reykjavíkurborg – en upp á síðkastið hefur leynileg rómantík kraumað á milli okkar #Seal#TyraBanks. Ég ráfa um strætin og um göturnar og reyti krónublöð af áður-blómstrandi freyjubrá, og reyni að ákveða, með þessari forn frönsku hjátrú, hvort að Reykjavíkurborg elski mig – eða elski mig ekki; ég tala ástúðlega um hana við vini mína; ég brýst út í sagnfræðilegum einræðum um hin eða þessi kennileiti borgarinnar; og ég yrki ímynduð ástarbréf til hennar í huganum, þar sem ég lofsyng þögullega hennar náttúrulegu fegurð og hennar bráðlynda, ástríðufulla karakter (svo er alltaf Happy Hour á Loft Hostel). Ég er hin ástsjúki Rómeó og hún – mín borgaralega Júlía. En þó er ég efins. Þó er ég óviss. Þó er ég einhvers konar Reykjavíkur Pyrrhon. Reykjavíkurborg elskar bankastjórana og viðskiptafræðingana og hún stundar stundum einnar nætur gaman með ríkmannlegum aðkomumönnum (lesist túristar = Airbnb = geðveiki), en ég er fullkomnlega óviss hvort að hún beri einhverjar tilfinningar gagnvart mér: mér, hinum (tiltölulega) unga, upprennandi (niðurrennandi) listamanni (vistmanni) sem var svikinn öllu viðskiptaviti af Skaparanum Mikla – og sem býr, eins og stendur, í Hafnarfirði (TeamHöddiMagg). Í gær spjallaði ég við borgarstjóra Reykjavíkur, Dag B. Eggertsson. Ég sagði eitthvað við manninn í afgreiðslunni og fór upp með lyftunni. Ég gekk í átt að skrifstofu borgarstjórans og stráði krónublöðum á gólf Ráðhussins. Mig langaði að spyrja Dag hvort að Reykjavíkurborg elskaði mig. Ef einhver veit það, þá veit Dagur það. En ég var of feiminn. Ég og Dagur ræddum aðra hluti, góða hluti eins og Menningarnótt, Jón Gnarr, Hip-Hop og fleira.

SKE: Það hefur verið nóg að SKE í Reykjavíkurborg í sumar. Hvað hefur staðið upp úr að þínu mati?

Dagur B. Eggertsson: Mér finnst hafa verið góður andi yfir borginni. Þetta hefur verið litríkt og skemmtilegt sumar. Laugavegurinn og miðborgin hafa blómstrað, en líka útivistarsvæðin. Mér finnst vera líf alls staðar. Það eru alltaf fleiri og fleiri sem eru að nota alla borgina til að hreyfa sig; hlaupa eða hjóla. Þetta hefur verið yndislegt sumar. Kannski líka vegna þess að síðustu tvö sumur hafa verið frekar hryssingsleg og maður var ekki með neinar væntingar. Maður gladdist einhvern veginn yfir hverjum sólargeisla.

„Maður gleðst einhvern veginn yfir hverjum sólargeisla.

Það er einmitt svo mikið að gerast í Reykjavík ef maður hefur augun opin. Ég fór um daginn í bæinn, eftir að hafa starfað sem blaðamaður hjá SKE í einhverjar vikur, og maður var þá orðinn meðvitaður um allt það sem er í gangi. Ég fór á sýninguna hans Ragga Kjartans í i8, þaðan á Ljósmyndasafnið, staldraði við á KRÁS matarmarkaðinn, næst á Bernhöfts Bazaar …

Já, mjög skemmtilegt. KRÁS og Bernhöfts Bazaar er hluti af verkefni sem gengur út á það að endurlífga vannýtt torg og svæði í borginni. Við fengum hugmyndaríkt fólk til þess að meta hvað væri hægt að gera á þessum stöðum. Bæði Fógetagarðurinn, þar sem KRÁS var, og Bernhöftstorfan hafa nánast ekkert verið notuð. Þangað til núna. Þetta er svo skemmtilegt. Ég sé þetta líka fyrir utan Óðinstorg, þar sem ég bý, hvernig það svæði hefur verið að vaxa og dafna í kringum svona verkefni.

Nú er Menningarnótt handan við hornið. Það er skemmtileg og fjölbreytt dagskrá framundan. Hvert er þitt innlegg í Menningarnótt. Það er Höfuðborgarstofa sem skipuleggur þetta, ekki satt?

Borgin heldur utan um þetta, en þetta gengur í rauninni út á frumkvæði einstaklinga og fyrirtækja. Fólk tilkynnir sín atriði. Þetta hefur farið úr því að vera kannski 50 samstarfsaðilar og 15,000 manns sem mættu, yfir í það að vera mörg hundruð samstarfsaðilar og yfir 100,000 manns. Þannig að í rauninni í öðrum hverjum garði, húsi og húsasundi er eitthvað að gerast. Það er engin leið til að fá yfirlit yfir þetta allt saman. Mér finnst Menningarnótt alltaf verða skemmtilegri og skemmtilegri.

Þetta er eitt stærsta kvöld ársins?

Jú, langstærsta. Ótrúlegt að sjá hvað fólki dettur í hug. DJ Margeir var til dæmis þrítugur í fyrra og breytti Hverfisgötu í klúbb. Hann ætlar að gera það aftur í ár. Það kom alveg ævintýralega vel út.

Ertu með eitthvað sérstakt planað yfir daginn?

Nei. Dagurinn er undirlagður af því að við erum alltaf með vöfflukaffi heima. Á milli tvö og fjögur. Þá getur hver sem er komið og fólk gerir það. Það mæta iðulega yfir þúsund manns. Við erum að keyra svona átta til tíu vöfflujárn. Svo er bara stöðugur straumur af fólki. Þetta er alveg gríðarlega skemmtilegt. Líka svolítið sérstakt. Þetta er tveggja tíma törn. Það eru sjálfboðaliðar sem hjálpa okkur, oftast úr fjölskyldunni, og við eldum yfirleitt fyrir mannskapinn í kjölfarið. Þessi veisla hefur litað Menningarnótt á mínu heimili undanfarin ár.

Einhvers staðar heyrði ég að þjóðlagatríóið Barkinn myndi halda reunion á Menningarnótt (Dagur var einu sinni söngvari). Er eitthvað til í því?

Ég er ekki viss um það. Þetta er fræg hljómsveit í minni sögu vegna þess að þetta er eina hljómsveitin sem ég hef sungið með og hún hélt áfram sem instrúmental hljómsveit án mín.

„Þetta er fræg hljómsveit í minni sögu vegna þess að þetta er eina hljómsveitin sem ég hef sungið með og hún hélt áfram sem instrúmental hljómsveit án mín.”

Dagur hlær.

Þetta er með betri sögum sem ég hef heyrt. Hún starfaði svo undir nafninu Skárren ekkert, seinna meir, ekki satt?

Og bara til að niðurlægja mig.

Þú varst í Hip-Hop og Pólitík um daginn. Venjan í þeim þætti er að viðmælendur velji lag, en þú varst svikinn um það. Logi Pedro fékk að velja en ekki þú. Sem voru ákveðinn vonbrigði. Hvaða Hip-Hop lag hefðirðu spilað?

Sú plata sem hefur verið sumarplatan hjá okkur er nýja platan með Úlfi Úlfi.

Þú nefndir það einmitt á Twitter.

Það hefði þá verið eitthvað af þeirri plötu. Ég hef aldrei hlustað mikið á rapp tónlist, en það er einhver mikil gróska í gangi hjá hljómsveitum sem eru að koma fram á sjónarsviðið í dag, í borginni. Mér finnst það frábært. Við höfum alltaf reynt að fylgjast með.

Þú hefur einmitt talað um það, sérstaklega í erlendum fjölmiðlum, að styrkleiki borgarinnar sé, að einhverju leyti, tónlistarsenan.

Já, nákvæmlega. Ég held að við áttum okkur ekki alveg á því að það sem er „mainstream“ í tónlist hér myndi flokkast sem „alternative“ annars staðar. Í mínum huga er það vegna þess að tónlistarfólkið hérna heima er meira og minna á mjög litlum markaði og er bara með risastórt hjarta í því sem það er að gera. Það kemur í ljós að fólk kann að meta það. Þannig að sem myndi teljast vera á jaðrinum annars staðar verður svo miklu stærra hérna heima. Íslensk tónlist er orðin ákveðinn gæðastimpill.

„Ég held að við áttum okkur ekki alveg á því að það sem er ‘mainstream’ í tónlist hér myndi flokkast sem ‘alternative’ annars staðar.“

Fyrir ekki svo löngu tókum við þátt í steggjun og partur af þeirri hátíð, sem þessi steggjun var, var æfingarútína með Ingvari E. á þaki Sundhallarinnar. Það kom ákveðinn glampi í augu borgarstjórans þegar hann leit yfir borgina og sá alla þessa byggingakrana …

Dagur hlær.

Er Reykjavíkurborg í sókn?

Já, það var engin hluti atvinnulífsins sem fór jafn illa út úr hruninu eins og byggingariðnaðurinn, nema þá bankarnir sjálfir. Þannig að það var alfrost á byggingarmarkaðinum mjög lengi. Það hefur safnast upp þörf fyrir íbúðarbyggingar. Þess vegna hef ég lagt áherslu á það að auka þessa fjárfestingu og fjölga íbúðum, sérstaklega litlum og meðalstórum íbúðum. En ég hef líka verið ánægður með það að uppbyggingin sé komin í gang. Það skipti sérstaklega miklu máli á meðan að hérna var ennþá meira atvinnuleysi. Reykjavík dró svolítið vagninn út úr kreppunni. Við gleymum því oft hvað Reykjavík skiptir miklu máli í þessu hagkerfi.

„Við gleymum því oft hvað Reykjavík skiptir miklu máli í þessu hagkerfi.“

Hvað er þér efst í huga varðandi Reykjavíkurborg þessa daganna? Er það eitthvað sérstakt sem brennur á þér?

Húsnæðismálin brenna á mér. Líka það að ýta undir fjölbreytni. Við eigum ekki að trúa á eina stóra lausn, heldur á breidd og þess vegna erum við að vinna mikið með Háskólanum og með fólki í kvikmyndabransanum að skoða hvernig hægt er að búa undir skapandi greinar í borginni. Svo erum við auðvitað að vinna mikið með ferðaþjónustunni sem vex svo hratt að við þurfum að hafa okkur öll við að reyna stýra þeirri þróun. Því fylgir mjög margt gott, eins og verslanir og veitingastaðir, en við þurfum að passa upp á það. Mér finnst til dæmis hafa tekist vel út á hafnarsvæðinu. Við höfum endurnýjað kynnin við hafnarsvæðið. Mér finnst sú þróun skemmtileg: að þróa borgina svolítið lífrænt.

Grandinn er örugglega skemmtilegasta hverfið í Reykjavík í dag.

Algjörlega. Í stað þess að ryðja öllu í burtu og byggja nýtt að þá er hægt að prjóna við það sem fyrir er. Og það er hægt að gera eitthvað skemmtilegt. Það er í mörg horn að líta.

„Í stað þess að ryðja öllu í burtu og byggja nýtt þá er hægt að prjóna við það sem fyrir er.“

Fyrirrennari þinn hann Jón Gnarr var mikill The Wire maður og tók fyrir það í gríni að vinna með mönnum sem hefðu ekki séð The Wire. Ef þú yrðir að gera svipaða kröfu, hvaða þáttur yrði fyrir valinu? Dr. House?

Dagur hlær.

E.R. … Nei. … Ég veit það ekki. Ég er ekki mikið fyrir að setja þannig kröfur.

Þú hefur talað um það að þú hafir lært mikið af Jóni Gnarr. Getur þú farið nánar út í það?

Já, Jón breytti kannski meira í pólitík heldur en fólk almennt áttar sig á. Það var mjög mikil tortryggni, og er ennþá. En hann náði trúnaðarsambandi við fólk eftir mjög erfiðan tíma í borginni. Hann gerði það með ákveðnu hispursleysi. Ég held að það hafi verið eitthvað sem mér fannst ég læra mikið af. Það þýðir ekki fyrir mig að þykjast eða segja að ég fari í fötin hans að þessu leyti, en ég held að þessi tónn, þessi sanni tónn, skiptir miklu máli. Ef ég lít í eigin barm þá stóð ég sjálfan mig að því að vera kominn með ákveðna rútínu sem maður romsaði upp úr sér.

Það opnar einhver hurðina að skrifstofunni og tilkynnir okkur að Allan ljósmyndari sé mættur.

Þetta snerist bæði um að læra og aflæra einhverja óvana sem maður var búinn að tileinka sér.

Þú hefur talað um það að í kosningabarráttuni árið 2010 hafir þú verið svolítið alvörugefinn og kannski að einhverju leiti aðeins öðruvísi útgáfa af sjálfum þér …

Það var náttúrulega mjög sérstök reynsla. Það var eins og að ganga í mjög þykkri leðju. Maður komst eiginlega ekki neitt. Fólk sagði kannski við mig, „ég heyri alveg hvað þú ert að segja og ég er sammála þér en ég get eiginlega ekki kosið neinn af þessum flokkum.“ Það var mjög sérstök lífsreynsla.

„Það var náttúrulega mjög sérstök reynsla. Það var einsog að ganga í mjög þykkri leðju. Maður komst eiginlega ekki neitt.”

Ég minnist aðeins á heimildirmyndina Gnarr sem fjallar um kosningabaráttu Jóns Gnarr 2010 og lýsi yfir aðdáun minni á myndinni.

Þú hefur talað um það að það sé mikilvægt að vera aðgengilegur sem borgarstjóri og ég hef tekið eftir því að það er mikið um að menn séu að tag-a þig í FB póstum, og þetta eru svona misskemmtileg tögg. Hver er stefnan þín gagnvart samskiptamiðlum?

Ég reyni að svara eins og ég kemst yfir. Ég reyni ekki að velja eftir því hverjir eru yndislegir og hverjir ekki, heldur finnst mér mikilvægt að bregðast við og reyna svara. Auðvitað kemur það fyrir að eitthvað sé fyrir neðan allar hellur eða þannig, sem svarar sig oftast sjálft. Svo koma kaflar eins og núna. Við erum í miklum framkvæmdum heima og þá er maður ekki mikið á Facebook á meðan.

Uppáhalds byggingin mín í borginni er án efa Listasafn Einars Jónssonar. Mér finnst þetta vera stórkostlegur staður. Áttu þér einhverja uppáhalds byggingu eða stað í borginni?

Ekki kannski byggingu. Ég er alinn upp í Árbænum þannig að Elliðaárdalurinn hefur einhvern veginn staðið nærri hjartanu. Þetta er fallegur staður. Þarna stóð maður hinum megin við girðinguna þegar Fylkir var að spila á malaravellinum og maður var að vona að boltinn færi út í ánna því að þá fékk maður kók og prins ef maður sótti hann.

Ég hlæ.

Ég gæti nefnt marga staði en Elliðaárdalurinn kemur fyrst upp í hugann.

Central Park Reykjavík.

Það eru ekki margar borgir sem státa af spriklandi, fjörugri laxveiðiá.

Nei, það er rétt. Sem Danirnir áttu í 300 ár.

Ef þú ættir að ráðleggja túristum í Reykjavík: hvað eiga menn að gera í Reykjavík?

Þú kynnist Íslendingum hvergi betur en í heitu pottunum. Ég mæli með því að fara í almenningslaugarnar. Það eru alls ekki allir sem vita af Nauthólsvíkinni sem er mjögsérstök reynsla. Þar er meira segja frítt á sumrin. Menn geta farið í pottinn og farið í sjósund. Síðan mæli ég með því í Reykjavík, og þegar maður ferðast í borgum almennt, að leigja hjól og kynnast borginni þannig. Maður kemst víðara um og það er svolítið öðruvísi.

„Þú kynnist Íslendingum hvergi betur en í heitu pottunum.“

Ég er sammáli Degi í þessu og segi honum frá afar ánægjulegri dvöl í Berlín fyrir nokkrum árum síðan þar sem ég og hjólið vorum eitt.

Þetta er það sem kemur fyrst í hugann og síðan er það að fara á tónleika. Þeir þurfa ekki að vera stórir og geta meira að segja verið því mun betri eftir því sem þeir eru minni. Það er alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast.

Sem læknanemi ritaðir þú ævisögu Steingríms Hermannssonar. Sérðu fyrir þér að rita fleiri bækur?

Ég veit það ekki. Já, kannski. En það er svosem ekkert sem ég er að vinna að. Þetta var góð reynsla. Gríðarlega mikil vinna.

Þrjú bindi, ekki satt?

Jú, ég gat ekki einu sinni lyft ævisögu í nokkur ár eftir þetta.

Þú hefur verið alveg búinn með kvótann.

Já, í bili.

Hver er leiðinlegasti hlutinn af starfinu?

Þetta er nú bara mjög skemmtilegt starf. Gríðarlega fjölbreytt. Ég finn ekki beinlínis til leiða heldur stundum væri maður til í að hafa meira svigrúm til þess að kafa ennþá dýpra í afmarkaða þætti í því sem maður er að gera. Þetta er náttúrulega bara það stórt fyrirtæki, og það mikil starfsemi, og það fjölbreytt, að það er ekki mikið ráðrúm í það. Ég sakna þess stundum. Ég er svolítill nörd að því leyti. Ég get fengið mikið út úr því að kafa djúpt í einstök mál sem skipta máli.

Þú hefur einmitt talað um það að þú sérð yfir daginn og vikuna en kannski ekkert lengra en það. Starfið er það fjölbreytt.

Maður verður að hafa sig allan við. Skipuleggja bæði, eins og ég er að gera núna, veturinn, en líka næstu sex ár eða tíu ár eða hvað það er, til þess að koma í veg fyrir það að dagurinn fyllist af áreiti einhvers staðar annars staðar frá. Maður verður að setja þau mál á dagskrá sem manni finnst skipta mestu máli.

Það er nauðsynlegt að vera mjög skipulagður.

Ég hef frábært samstarfsfólk, bæði í pólitíkinni en líka á meðal starfsfólksins, og það eru mjög margir sem er virkilega gaman að fá að vinna með. Ég er heppinn að fá þetta tækifæri.

Að lokum: Hvað tekur svo við eftir að þessu lýkur? Sérðu fyrir þér að fara aftur í læknisfræðina?

Já, ég gæti hugsað mér það. Það hefur þó En allt öðruvísi.

Þú varst á bráðamóttökunni og á Ísafirði.

Jú, ég vann svolítið sem læknir áður en ég leiddist út í Pólítík.

Dagur hlær og þar með bindum við enda á samtalið.

(Viðtal: Ragnar Tómas)

Auglýsing

Instagram