„Ég hef ansi oft fjarlægt málmflísar úr augum á fólki.“

SKE spjallar við Hauk Heiðar Hauksson (Dikta)

Ég er rithöfundur. Haukur er tónlistarmaður.
Við erum listamenn. Að minnsta kosti er Haukur
listamaður. Ég er hugsanlega bara hégómafullur
fúskari sem þykist vera listamaður. Þetta er eins
og þeir segja: ‚geðveikir menn vita ekki alltaf
að þeir eru geðveikir.’ Eins er með hégómafulla
fúskara sem þykjast vera listamenn: Þeir vita
ekki alltaf að þeir eru hégómafullir fúskarar
sem þykjast vera listamenn. En eins og geðveikur
maður sem heldur áfram að sveipa höfuð sitt
í álpappír – þá held ég áfram að skrifa … Ég
og Haukur hittumst á heimavelli listamannsins:
kaffihúsinu. Nánar tiltekið Te & Kaffi í Borgartúni.
Á meðan Allan ljósmyndari smellir myndum af
Hauki, þá tylli ég mér í sófann og fylgist með
mannfólkinu. Þarna situr herramaður í támjóum
skóm. Hann er íklæddur einkennisbúningi
fjármálamannsins, nema hvað, hann er
í hermannabuxum; ég velti því fyrir mér hvort
að fjármálaheimurinn sé orðinn að einhverskonar
vígvelli? Þarna er eldri maður, grannur, með
grimma undirhöku. Hann er furðulega klipptur.
Svo er sköllóttur maður með þykkt rautt skegg.
Hann er í gifsi. Var einhver með ‚ginger’ grín?
Brást hann illa við? Á meðan ég krota þessar
djúpstæðu hugsanir á blað þá klárast myndatakan.
Haukur sest niður og við vindum okkur strax
í viðtalið. Klukkan er fimm mínútur í sex. Staðurinn
er í það mund að loka. Ég kveiki á diktafóninum …

Haukur Heiðar: Nei, menn bara með DIKTA-fón?

Allan hlær.

SKE: Menn eru sjóðheitir!

Ég set ekki einungis diktafóninn í gang heldur
tek ég upp á símann líka; varúðarráðstöfun þessi
ber vott um djúpstæða taugaveiklun.

Vindum okkur í þetta. Þú varst að …

Pass!

Ég hlæ.

Þú varst að sauma andlitið á FH-ing um helgina. Segðu
okkur aðeins frá því.

Við erum bara í titilbaráttu og það er margt sem gengur á.
Stundum fá menn skurði. Sem þarf að sauma. Eða hefta.
(Haukur er læknir fótboltaliðsins FH.)

Og þá leita menn til þín?

Já, ég reyni að mæta á völlinn eins og ég get. Ég mæti
þegar ‚schedule‘-ið leyfir. Annars erum við með Jónas
Grana sjúkraþjálfara sem stendur ávallt vaktina á
hliðarlínunni … Nú eru tvær umferðir eftir.

Ertu vongóður?

Já, við bara klárum þetta. Við klárum þetta
á laugardaginn.

Það var mjög góð umræða á Facebook veggnum þínum
fyrir nokkrum dögum síðan. Þú baðst um ráðleggingar
varðandi fjórar skrúfur sem voru fastar í loftinu heima
hjá þér …

Haukur hlær.

Einn stakk upp á því að lækka loftið um þrjá sentimetra.
Svo var annar sem stakk upp á því að mála belju í loftið
og láta skrúfurnar standa eftir sem spena. Hvernig fór þetta
allt saman?

Þetta endaði með því að ég fékk lánaðan slípirokk.
Ég setti upp hlífðargleraugu. Þar sem ég hef ansi oft unnið
við það að fjarlægja málmflísar úr augum á fólki. Og ég bara
réðst á þetta drasl og dúndraði þessu niður. Svo var bara
sparslað yfir.

„Ég setti upp hlífðargleraugu.
Þar sem ég hef ansi oft
unnið við það að fjarlægja
málmflísar úr augum á fólki.“

Þú ert fagmaður á mörgum
sviðum?

Nei. Ég er alls ekki handlaginn heimilisfaðir. Því miður.
En ég geri eins og ég get. Ég var að flytja, þannig að
þetta var partur af því.

Ég var einmitt að reyna gera við uppþvottavélina heima
um daginn. Það gekk ekkert …

Hver reynir samt að gera við uppþvottavél?


Síðast sko, þegar hún bilaði, þá kipptum við henni undan
innréttingunni. Svo tókum við eftir því að það var gat á
slöngunni. Við teipuðum fyrir. Og það gekk.

Já, ok.

Þetta er eins og Seinfeld brandarinn: Ef bíllinn bilar þá
vonast maður eftir því, þegar að maður opnar húddið,
að það sé einhverskonar ‚OFF‘ takki sem maður getur
þrýst á ‚ON‘.

Haukur hlær.

En í þetta skiptið gekk þetta ekki neitt … Ég sá að það stóð til að þú
færir í viðtal hjá Music Reach í sumar. Þar áttirðu að svara spurningum
frá vinum, vandamönnum og aðdáendum – spurningum sem hafa
brunnið á þessum aðilum en þeir ekki þorað að spyrja (Haukur auglýsti eftir
spurningum á netinu). Ég fann ekkert meira um þetta viðtal. Varð eitthvað
úr þessu?

Það er ekki ennþá búið að gefa þetta út. Það er ennþá verið að klára
þáttinn. Ég frétti af þessu síðast í síðustu viku. En þetta verður birt
mjög fljótlega, á þessari Music Reach stöð.

Var einhver einstaklega erfið spurning sem þú fékkst?

Það voru nokkrar erfiðar, sko. Það var þarna ein sem var gerð til þess
að stuða mig, held ég. En það var allt í góðu.

Haukur hlær.

Hver var spurningin?


Spurningin var sú hvort við hefðum upprunalega stefnt að því
að aðalmarkhópurinn okkar væri miðaldra húsmæður eða hvort að
þetta hafi gerst svona hægt og bítandi. Það var einhvern veginn
svoleiðis.

„Spurningin var sú hvort við hefðum
upprunalega stefnt að því að
aðalmarkhópurinn okkar væri miðaldra
húsmæður eða hvort að þetta hafi gerst
svona hægt og bítandi. Það var einhvern
veginn svoleiðis.“

Shiii …

Haukur hlær.

Það er hart, maður … ég ætlaði að spyrja þig, hefði
það verið þannig að þú hefðir aldrei farið í þetta
viðtal … þá var ein spurning sem mér fannst góð
og hún var þessi: ‚Hvernig leið þér þegar Igor Biscan
fór frá Liverpool?‘

Haukur hlær.

Ég er enn að jafna mig. Nei, ég þoldi aldrei þann
leikmann. Ég var mjög glaður að sjá hann fara.
Ég skildi aldrei hvað þessi maður var að gera inn
á vellinum. Mér fannst alltaf eins og hann væri
vafrandi um … eins og hann hefði óvart verið
klæddur í búning og hent inn á völlinn. Það var
alltaf ákveðinn Mr. Bean fílingur í honum. Hann
var bara þarna og vissi ekkert hvað hann var að
gera. Hann var alltaf mjög hissa á svipinn: ‚já, já.‘
Alltaf hlaupandi eitthvað. En ég var mjög feginn
þegar að hann fór … Ég er Liverpool maður.

Á að reka Rodgers?

Haukur hugsar sig um … Það er svo margt að þessu
liði. Ég veit það ekki. Ekki strax.

Burtséð frá þessari sýru. Hvað er að SKE í þínu lífi
þessa dagana?

Ég var að gefa út plötu. Með Diktu. Fyrir viku síðan.
Hún heitir Easy Street og er ótrúlega skemmtileg.
Djöfull er hún skemmtileg!

Besta platan til þessa?

Já. Mér finnst það. Án gríns. Manni finnst reyndar
alltaf nýjasta efnið vera skemmtilegast. En mér finnst
þetta besta platan okkar hingað til. Við héldum svo
útgáfutónleika í Hörpunni núna í síðustu viku.

Hvaðan kemur nafnið Easy Street? Tengist þetta
Charlie Chaplin á einhvern hátt? (Charlie Chaplin
lék og leikstýrði samnefndri mynd árið 1917.)

https://en.wikipedia.org/wiki/Easy_Street_(film)

Nei, ekki upprunalega. En svo þegar við vorum að leita
af nafni fyrir plötuna … þá svona … þá datt okkur þetta
í hug. Þetta kemur fyrir í einum texta plötunnar. Þá
notaði ég þessa myndlíkingu: ‚Að vera kominn á Easy
Street.‘ Þá uppgötvuðum við líka þessa Charlie Chaplin
mynd, sem ber sama nafnið, og hún tengist alveg þema
plötunnar sem er svona hringrás lífsins. Í myndinni snýst
þetta svolítið í hring. Hann byrjar undir valdi allra vondu
lögreglumannanna og sigrar þá – en þá er hann allt í
einu orðinn vondi lögreglumaðurinn sjálfur. Þetta fer
í hring. Og allir aðrir orðnir hræddir við hann. Þetta
tengist plötunni.

Á hvaða hátt?

Það hefur margt gengið á hjá manni síðustu misserin …
Haukur verður hugsi … maður vill nýta þann tíma
sem maður hefur. Hér á jörð. Því að sá tími er ekki
endalaus. Sem er ákveðið þema plötunnar.

Ákveðið þakklæti?

Já, það má segja það. Þetta fer alltaf í hring. Lífið …
og ef maður gæti spólað tilbaka … ef maður gæti farið
hringinn afturábak. Myndi maður gera eitthvað öðruvísi?
Mér var þetta hugleikið þegar ég var að semja textana
á plötunni.

Ef þú gætir farið tilbaka, mundir þú gera eitthvað
öðruvísi?

Já, örugglega ýmislegt. Já … það er alltaf eitthvað
sem maður hefði viljað gera öðruvísi.

Geturðu nefnt einhver dæmi?

Ekki beint … þetta er ekki eitthvað sem ég vil opna mig
varðandi … Haukur hlær … nei, ekki beint.

Ég skynja að ég hafi misst af góðri tilvitnun – tilvitnun
sem hefði ratað á forsíðuna. Bara ef ég væri Oprah
Winfrey, þá væri Haukur grátandi á öxl minni … en ég er
ekki Oprah Winfrey.

Stóru ákvarðirnar voru góðar.

Hvað er næst á dagskrá hjá Diktu?

Nú ætlum við á fullt að kynna plötuna á Íslandi. Það er
verið að vinna í því að gefa hana út erlendis líka. En
við ætlum að einbeita okkur að Íslandi fram að jólum og
vera duglegir að spila. Við erum nú þegar komnir með slatta
af giggum. Svo er Airwaves eftir nokkrar vikur. Þannig að
við hlökkum til þess líka.

Hvernig var samstarfið með Sky Van Hoff?
(Sky Van Hoff stýrði upptökum á Easy Street.)
Voru þið ánægðir?


Gríðarlega ánægðir. Sky Van Hoff er ungur
upptökustjóri sem við kynntumst í gegnum
bransafólk þarna úti. Plötufyrirtækið okkar
kynnti okkur fyrir honum. Við fórum fyrst út
til þess að taka upp tvö lög, fyrir tveimur árum
síðan. Við vildum bara prófa. Maður vill ekki beint
demba sér út í heila plötu með einhverjum gaur
sem maður veit ekki hvort að maður fíli.

Nei, nákvæmlega.


Þannig að við ákváðum að byrja á tveimur lögum.
Svo vorum við alveg fáránlega ánægðir með
afraksturinn … þannig að þá ákváðum við
að hjóla í meira.

Nálgast hann lögin á annan hátt en þið?


Já, já. Það er líka bara það að við höfum verið
saman, sömu fjóru gaurarnir í hljómsveit, í 17
ár eða hvað það nú er og maður verður þeim
svolítið samdauna … við fórum út með nokkur
lög. Eitt lagið var róleg píanóballaða sem ég
hafði samið heima og það varð að mesta
rokklagi plötunnar.

Hvaða lag var það?

Það heitir Do You Remember. Það var
upprunalega mjög rólegt. Svo munar líka svo
mikið um fimmta settið af eyrum. Að vera fjórir
gaurar alltaf saman … maður verður einhvern
veginn vanur því að vinna saman … Svo kemur
einhver annar og segir: ‚Nei. Ekki svona! Alls ekki
svona!Þessi kafli út. Eitthvað nýtt þarna!‘ Það
er mikill munur. Sky kom alveg ferskur inn, bæði
gagnvart plötunni og okkur sjálfum. Hann hefur
sterkar skoðanir. Mjög sterkar skoðanir. Það þarf
í svona hóp. Þar sem allir eru prímadonnur.

Anton Chekov, Arthur Conan Doyle og William
Carlos Williams. Allir þessir menn voru bæði
læknar og listamenn. Hefðurðu eitthvað um
þessa menn að segja?

Haukur hlær.

Nei, þetta eru allt mjög góðir menn. Ekki það
að ég hafi þekkt þá persónulega. En það eru líka
fleiri í þessari stétt. Það virðist loða voða mikið
við þessa stétt. Ég spilaði á styrktartónleikum um
daginn og þá sagði einmitt kynnirinn að mikið af
læknum væru að koma fram, ég var einn af þeim.
Svo bætti hann við að eina stéttin sem teldi fleiri
tónlistarmenn væri tónlistarstéttin.

Við hlæjum.

Hver er uppáhalds læknirinn / tónlistarmaðurinn?

Það er pabbi. Hann er píanóleikari og læknir.
Hann hefur gefið út slatta af plötum.

Vel mælt … Varð eitthvað úr hittingnum með
Skrillex eftir Sónar?

Já, já, já. Við fórum þarna baksviðs. Við vorum
í rauninni á sviðinu á meðan hann spilaði.

Já, okay.

Hann bað okkur að koma og hitta sig. Við gerðum
það. Svo sagði hann við okkur þegar hann var
að stíga á svið ‚svo bara komiði upp á svið.‘ Við
horfðum á hvor annan: ‚Hvað meinar hann, koma
upp á svið?‘ Ætlar hann að draga okkur upp á
svið? Fullur salur af fólki og við ætlum ekkert að
standa uppá sviði … en svo kom eitthvað lið, hann
er með fullt af einhverju liði með sér: ‚Komiði bara
hérna!‘ Þau drógu okkur upp á svið, en það var smá
svæði bakvið hljóðkerfið.Við stóðum þarna ásamt
nokkrum öðrum. Við fylgdumst með gigginu frá
hliðarlínunni. Það var mjög gaman. Ég hef aldrei
fyrr verið á sviði án þess að vera á sviði. Svo fórum
við baksviðs eftir á og fórum í eitthvað partí líka.
Við skulum ekkert segja meira frá því.

‚Ef ég væri Oprah,‘ hugsa ég.

Fínn gaur: Skrillex?

Já, hann er mjög fínn. Ég kynntist honum þegar
hann var lítill strákur. Hann var bara ungur maður
þegar hann kom hingað fyrst. Hann hefur verið
svona 17, 18 ára.

Ertu að horfa á eða lesa eitthvað gott þessa dagana?

Síðustu vikurnar hef ég verið að vinna næturvaktir,
að skipta um húsnæði, að gefa út plötu og halda
útgáfutónleika.

Við hlæjum.

Þannig að ég hef ekki einu sinni lesið dagblöðin.
En ég horfði á einn þátt um daginn sem hét ‚Narcos‘.
Fyrsta þáttinn af því. Það lofar góðu.


Ég er kominn á sjöunda þátt eða eitthvað …


Ég er ekki að gera neitt í lífinu.

Þetta lofar góðu.

Þetta er gúdd stöff. Um daginn var ég að lesa mig
aðeins til um Pablo Escobar. Hann eyddi víst 2,500
dollurum í teygjur á mánuði (teygjur sem maður
setur utan um peningabunka).

https://all-that-is-interesting.com/pablo-escobar

Ég hef lesið ýmislegt um þennan gaur í gegnum
tíðina. Þetta er ‚fascinating‘ maður þó svo að hann
sé ógeðslegur gaur líka. Ég las að hann hafi verið
að grafa peninga í jörð. Hann gat ekki lengur þvegið
allan þennan pening. Þá fór hann að grafa þetta.

Hann þurfti víst alltaf að gera ráð fyrir því að hann
mundi tapa 1-2 milljón Bandaríkjadollurum á ári
vegna þess að rottur átu svo mikið af seðlunum
hans.

Við hlæjum.

Bara ef maður ætti við þessi vandamál að stríða.

Hvað eyðir Dikta mikið í teygjur á mánuði?

Við erum aðallega bara í bréfaklemmunum.
Við erum að fá reikninga og senda út reikninga.
Og hefti … Nei, við erum ekki mikið í ‚rubber
bands‘ sko.


Ekki ég heldur.

Við kaupum gítarstrengi og trommukjuða. Trommuskinn.

Svo er það þessi klisjulega spurning: ‚Hvernig myndir
þú lýsa sjálfum þér?‘ Hún er mikil klisja en svörin eru oft
mjög góð. Ég hef pælt í því hvernig sé best að útfæra
þessa spurningu á nýjan hátt. Mér datt í hug ‚hvernig
myndir þú lýsa sjálfum þér ef þú værir óvinur þinn?‘ … Er
þetta ekki einhver vinkill?

Ef ég væri óvinur minn hvernig mundi ég lýsa mér …
hmmm … shit … Ég mundi lýsa sjálfum mér sem manni
sem að hefur alltof mikið að gera. Sem vill gera allt vel en
tekst það ekki alltaf.

„Ég myndi segja að ég
væri maður sem hefur
alltof mikið að gera, sem vill
gera allt vel en tekst það ekki
alltaf – því að hann hefur of
mikið að gera.“

Auglýsing

Þetta er afar skilningsríkur óvinur.

Haukur hlær.

Ég bara vona að ég eigi enga óvini.

Ég get ímyndað mér það. En ef þú lýsir sjálfum þér sem
þú sjálfur.

Ég myndi segja að ég væri maður sem hefur alltof mikið
að gera, sem vill gera allt vel en tekst það ekki alltaf – því
að hann hefur of mikið að gera.

Haukur hlær.

Er eitthvað sem þú vilt bæta við að lokum?

Nei.

Haukur hallar sér í átt að diktafóninum og segir hátt:

Ég bara hvet alla til þess að kaupa síðasta geisladiskinn
sem Dikta mun gefa út! Það er vegna þess að geisladiskurinn
er dauðvona ‚format‘. Plötusala minnkar alltaf
með árunum. Sem mér finnst leiðinlegt en ég skil
það alveg. Fólk vill bara hafa þetta á símanum og á Spotify.

Vínyllinn er samt á lífi.

Já, við ætlum að gefa út vínyl líka. Fyrsta vínylplatan líka.
En já, ég hvet fólk til þess að kaupa annað hvort diskinn
eða plötuna.

Ég þakka Hauki kærlega fyrir spjallið. SKE hvetur alla
til þess að versla sér eintak af nýjustu plötu Diktu, Easy
Street.

Auglýsing

læk

Instagram