Fór pílagrímsferð til Íslands og reyndi við Húsafellshelluna: „Þetta breytir manni.“

Er Kanadamaðurinn Keith Surette stóð fyrir framan Húsafellshelluna í fyrsta skipti voru viðbrögðin þessi: „það er ekki séns í helvíti að mér takist að bifa henni.'“

Surette hafði þá undirbúið sig fyrir átökin í heilt ár, og þó svo að hellan væri mun minni en hann hafði ímyndað sér—var hún mun þéttari.

Surette—sem rekur Jones Gym líkamsræktarstöðina í Kanada—er enginn nýgræðingur þegar það kemur að aflraunasteinum; áður hafði hann ferðast til Skotlands í sambærilegum erindagjörðum, en Húsafellshellan, hún var einstök.

Surette hafði látið sig dreyma um að lyfta Húsafellshellunni frá því að hellan kom fyrir í aflraunakeppninni Sterkasti maður heims árið 1992, sem fór fram á Íslandi. Þegar Surette skreið yfir fimmtugsaldurinn í fyrra hugsaði hann með sjálfum sér: „Það er núna eða aldrei.“

Eftir árslangan undirbúning ferðaðist Surette til Íslands í júní ásamt kærustu sinni, Barbara Brittain. Reyndi hann þrívegis við helluna. Brást honum bogalistin fyrstu tvö skiptin en eftir buxnaskipti tókst honum að lyfta hellunni í þriðju atrennu—og gott betur: Surette gekk í kringum tóftina með helluna í höndunum, og hlaut hann, eins og siður kveður á um, nafnbótina fullsterkur fyrir vikið.

Í myndbandi sem Surette deildi á Youtube í júní (sjá hér að ofan) má sjá undirbúning Kanadamannsins sem og lyftuna sjálfa. Húsafellshellan vegur um 186 kíló, sem er tvöföld líkamsþyngd Surette.

„Það er ótrúlegt að hugsa til þess að mér hafi tekist þetta núna,“ sagði Surrette í viðtali við The Chronicle Herald (ofangreindur texti er þýddur úr grein The Chronicle Herald).

„Ég er búinn að handleika stein sem margir merkir menn hafa lyft í gegnum árin … þetta var einskonar pílagrímsferð. Þetta breytir manni. Maður er allt annar maður eftir þessa lyftu.“

Nánar: https://www.thechronicleherald.ca/lifestyles/local-lifestyles/yarmouth-man-tests-strength-on-fabled-icelandic-stone-339741/

Auglýsing

læk

Instagram