10 lög sem við hlökkum til að heyra

Næstkomandi föstudag (20. júní) hefst hin árlega Secret Solstice tónlistarhátíð í Laugardalnum. SKE hefur sótt hátíðina frá upphafi og á margar góðar minningar—og má þá sérstaklega nefna tónleika listamanna á borð við Banks, FKA Twigs, Anderson .Paak, Charles Bradley og J.I.D. Í tilefni hátíðarinnar í ár tókum við saman 10 lög sem við erum spennt fyrir að heyra (lögin eru ekki í neinni sérstakri röð). Gjörið svo vel. 

(Uppfært 11:32: Breska söngkonan Rita Ora kemur ekki fram á hátíðinni vegna veikinda.)

1. Black Eyed Peas—Joints and Jam

Við vonum innilega að Black Eyed Peas bregði út af hefðinni og flytji eitthvað af gamla efninu, t.a.m. lagið Joints and Jam (sem gerir gamla skólanum einstaklega góð skil)—en þó verður það að teljast frekar ólíklegt; þó svo að lagið Let’s Get It Started hafi orðið langþreytt á sínum tíma yrði svosem ekkert að því að hlýða á lagið í góðum græjum, með bjór við hönd.  

2. Robert Plant and the Sensational Space Shifters—Ramble On

Robert Plant þekkja flestir sem söngvara hljómsveitarinnar Led Zeppelin (þá er Plant almennt talinn einn besti söngvari rokksögunnar). Led Zeppelin hætti formlega árið 1980 þegar trommari sveitarinnar, John Bonham, lést. Líklegt þykir að Robert Plant og the Sensational Space Shifters komi til með að flytja slatta af Zeppelin lögum í Laugardalnum og í því samhengi erum við spennt fyrir laginu Ramble On. Lagið er að finna á plötunni Led Zeppelin II sem kom út árið 1969. 

3. Rita Ora—Let You Love Me

Lagið Let You Love Me er að finna á plötunni Pheonix sem hin breska Rita Ora gaf út í fyrra. Let You Love Me er eyrnarormur mikill sem hefur notið vinsælda hér á landi sem og á alþjóðlegum vettvangi. Fínasta popp hér á ferð.

4. Patti Smith—Because the Night

Lagið Because the Night samdi Bruce Springsteen fyrir plötuna Darkness on the Edge of Town sem kom út árið 1978. Because the Night rataði þó aldrei á plötuna í ljósi þess að Springsteen fannst þetta vera bara „enn eitt ástarlag,“ eins og hann orðaði það. Fyrir vikið fór pródúsentinn Jimmy Iovine með lagið til Patti Smith, sem var að hljóðrita plötuna Easter í sama húsnæði. Smith setti lagið í eigin búning og er það löngu orðið sígilt. 

5. The Sugarhill Gang—Rapper’s Delight

Lagið Rapper’s Delight kom út árið 1979 og vilja margir meina að lagið hafi kynnt rapptónlist fyrir breiðari hlustendahóp. Lagið er að finna á plötunni Sugarhill Gang sem kom út árið 1980. Þá geymir Rapper’s Delight sampl úr laginu Good Times eftir hljómsveitina Chic (Chic stefndi The Sugarhill Gang fyrir lagastuld en málið var að endingu leyst utan þingsalsins).

6. The Sugarhill Gang—Apache

Lagið Apache samdi enski tónlistarmaðurinn Jerry Lordan árið 1960. Þó eru eflaust margir sem þekkja útgáfu The Sugarhill Gang frá árinu 1982 betur. Í raun er Apache eftir The Sugarhill Gang ábreiða af ábreiðu (útgáfa Michael Viner og The Incredible Bongo Band af laginu Apache er fyrirmyndin sem The Sugarhill Gang studdist við í sinni útsetningu). 

7. Morcheeba—The Sea

Lagið The Sea er að finna á plötunni Big Calm sem kom út árið 1998 og er líklega vinsælasta lag sveitarinnar til þessa. 

8. Hatari—Hatrið mun sigra

Þó svo að margir séu eflaust komnir með leið á laginu Hatrið mun sigra eftir íslensku hljómsveitina Hatara er sviðsframkoma sveitarinnar einstök; því er óhætt að reikna með því að gestir Solstice komi til með að fjölmenna á tónleika sveitarinnar og þá sérstaklega til þess að hlýða á fyrrnefnt lag. 

9. Pussy Riot—Make America Great Again

Í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum árið 2016 gaf rússneska pönksveitin Pussy Riot út lagið Make America Great Again og þá í því augnamiði—gefum við okkur—að sannfæra bandaríska þegna um að kjósa EKKI Donald Trump. Svo fór, hins vegar, sem fór. 

10. Vök—Spend the Love

Í byrjun mars gaf íslenska hljómsveitin Vök út plötuna In the Dark. Platan, sem er stórgóð, geymir meðal annars lagið Spend the Love sem hefur verið í miklu uppáhaldi hjá SKE allar götur síðan. Hér fyrir neðan geta áhugasamir lesið viðtal SKE við Margréti Rán, söngkonu sveitarinnar, stuttu eftir útgáfu In the Dark. 

Nánar: https://ske.is/grein/thid-erud-svo-miklu-myndarlegri-i-eigin-personu-ske-spjallar-vid-margreti-ran-i-vok

BÓNUS: Sólstafir—Fjara

Lagið Fjara er að finna á plötunni Svartir Sandar sem kom út árið 2011. SKE hefur marga fjöruna sopið en fær þó aldrei leið á Fjörunni í flutningi Sólstafa. 

Auglýsing

læk

Instagram