„Ef ég geri þetta ekki í ár—þá geri ég þetta aldrei.“ SKE spjallar við Karítas Óðinsdóttur

Viðtöl

SKE: Helsta framlag franska hugsuðarins Jean-Paul Sartre til heimspekinnar er líklega hugtakið óheilindi („bad faith“). Hugtakið vísar í tilhneigingu einstaklingsins til þess að flýja frelsið—sumsé, að ljúga að sjálfum sér. Þekktasta dæmið um óheilindi er að finna í bókinni Vera og neind þar sem Sartre vísar í þjón sem tekur hlutverki sínu of alvarlega. Í BA ritgerð ónefnds nemanda við Háskóla Íslands kemst höfundur ágætlega að orði: „Þessi maður hefur alltaf frelsi til þess að vera ekki þessi vera og hætta í þessari vinnu hvenær sem er. Hann virðist hins vegar búinn að fyrirgera frelsi sínu í þessu hlutverki. Samfélagið hefur takmarkað athafnir hans að veru-í-sjálfri-sér með því gefa þessu hlutverki of mikið vægi. Vissulega kann þetta að hljóma sem skringilegur inngangur að viðtali við plötusnúðinn og tónlistarkonuna Karítas Óðinsdóttursem gaf út lagið „Wear Somebody Else“ í dag (29. apríl)en undirrituðum finnst þetta engu að síður við hæfi; Karítas starfar sem þjónustufulltrúi í ferðaþjónustunni en ákvað nýverið að horfast í augu við eigið frelsi (ef svo mætti að orði komast) og snúa sér, að stórum hluta, að tónlistinni: „Ef ég geri þetta ekki í ár, þá geri ég þetta aldrei. Þá verð ég aldrei hamingjusöm, segir hún. Í tilefni útgáfunnar heyrði SKE í Karítas og spurði hana út í lagið „Wear Somebody Else.“ Takt lagsins smíðaði Daði Freyr Ragnarsson, betur þekktur sem Dadykewl, og verður lagið að finna á stuttskífu sem er væntanleg í lok sumars eða í byrjun hausts. Gjörið svo vel. 

Viðtal: RTH 

Viðmælandi: Karítas Óðinsdóttir 

Ljósmynd: Birta Rán Björgvinsdóttir

SKE: Þið Reykjavíkurdætur snéruð nýverið heim frá Berlín, þar sem þið dvölduð í átta daga—og þá í því augnamiði að hljóðrita nýja plötu. Hvernig gekk?

Karítas: Upptökurnar gengu vonum framar. Salka starfar í hljóðveri í Berlín og þar sem hún er að pródúsera flestöll lögin á plötunni lá beinast við að hljóðrita plötuna þar. Okkur tókst að taka upp heila plötu á tíu dögum.

SKE: Mér skilst að platan komi ekki út fyrr en á næsta ári. Hvers vegna?

K: Við erum með danskan umboðsmann sem teiknaði þetta upp; við erum að stefna á heimsyfirráð árið 2020. Stefnan er að gefa út plötuna næsta vor og fylgja henni svo eftir með tónleikaferðalagi um sumarið. Við munum þó flytja eitthvað af þessu nýja efni í sumar líka. 

SKE: Er mikill munur á þessari plötu og gamla efninu?

K: Já, þetta er allt öðruvísi. Salka semur alla taktana á plötunni, að tveimur töktum undanskildum. Hljóðheimurinn er miklu heillegri. Þetta er melódískara.

SKE: Berlín er
stundum kölluð höfuðborg djammsins (að ég held). Var mikið djammað?
 

K:
Nei, nefnilega ekki. Flestar okkar drekka ekki. Við erum orðið
pínu svona sober band. 

SKE: Er það ekki bara fínt? Ég held að það sé almennt mikill miskilningur að listafólk þurfi vímuefni
til þess að hreyfa við sköpunargáfunni;
þetta
eru bara hækjur.
 

K: Nákvæmlega. Ég hef ekki drukkið í sex ár. Ég hætti þegar ég var 21 árs. 

(Undirritaður vísar í feril rithöfundarins Malcolm Lowry, sem lést af völdum áfengis. Á meðan hann lifði lét Lowry eftirfarandi ummæli falla: „Hvernig ætlar þú, án þess að drekka eins og ég, að skilja fegurðina sem felst í því að horfa á gamla indíánakonu spila dómínó við hænu?“ sem segir kannski eitthvað um geðveikina sem fylgir neyslunni.)

SKE: Hvers
vegna hættirðu að drekka?
 

K: Það bara fór mér ekki.
Ég var alltaf svo lítil í mér daginn eftir. Einn daginn hugsaði ég með sjálfri mér: „Af hverju er ég að borga til þess að liða illa?“ Í
kjölfarið opnaðist þetta allt fyrir mér. Það fór einhvern
veginn allt upp á við, í stað þess að drekka og deyfa sig og
vera varla viðstaddur.

SKE: Þú
gerðist plötusnúður eftir
að þú hættir að drekka,
ekki satt? 

K:
Jú, akkúrat. 

(Karítas segist þó hafa daðrað við
tónlistina alla ævi. Hún byrjaði, fjögurra ára gömul, að
leika á fiðlu—en hætti svo stuttu síðar. Hún sér eftir því.
Þá lærði hún einnig á píanó og gítar og hefur alltaf sungið.)
 

SKE: Að máli málanna: Til hamingju með lagið, Wear
Somebody Else.
Er lagið samið út frá eigin reynslu? Er
þetta,
svo maður leyfi sér að sletta
(Fyrirgefið mér, Eiður Svanberg),
real
talk?”
 

K:
Þetta er “real-talk!”
Það
mætti kannski segja að þetta sé
samsuða af ástarsorgum. Ég byrjaði að semja lagið
fyrir u.þ.b.
tveimur árum síðan, 2016 eða
2017. Ég samdi þetta upprunalega
við lítið ómerkilegt
píanó riff—og þótti alltaf vænt um lagið. Ég fór svo með grunninn til Daða. Hann bjó til fjórar mismunandi útgáfur af laginu þangað til að við vorum bæði sátt.

(Þess má geta að myndbandið við lagið var búið til í nótt. „Það var aldrei ætlunin að gera myndband við lagið,“ segir Karítas.)

SKE: Þetta er áhugaverður texti og byggir, ef ég skil þetta rétt, á spurningu sem blaðamenn leggja gjarnan fyrir leikara á rauða dreglinum: “And who are you wearing?” Svo svarar viðkomandi “I’m wearing Tom Ford,” eða eitthvað álíka. Í texta lagsins óskar þú þess, hins vegar, að þú gætir bókstaflega klæðst öðru skinni. 

K: Ég held að það hafi allir—á einhverjum tímapunkti í lífinu—langað til að vera einhver annar. Þá sérstaklega þegar önnur manneskja elskar mann ekki, vegna þess að maður er maður sjálfur. „Af hverju get ég ekki verið hún?“ Þetta nær kannski ekkert dýpra heldur en það, bara einlægar og hráar tilfinningar.

SKE: Mér finnst þetta flott.

K: Það kom mér á óvart að ég hafi loksins náð að semja eitthvað af viti. Lengst af átti ég mjög erfitt með að semja texta. Á tímabili leið mér eins og ég væri ein af þeim söngkonum sem gæti ekki samið eigið efni. Loksins tókst mér að koma þessu frá mér og ég kláraði fjögurra laga EP plötu með Daða.

SKE: Daði Freyr—betur þekktur sem Dadykewl—smíðaði takt lagsins. Hvernig kom samstarfið til? 

K: Ég heyrði í honum síðasta sumar. Þá var hann nýbúinn að gefa út plötuna Klámstjarna, sem ég hlustaði mikið á. Ég vissi að hann var að pródúsera sína eigin tónlist. Sjálf hef ég verið að gera tónlist síðustu ár, án þess þó að gefa neitt út. Ég viðurkenni að ég var svolítið stressuð þegar ég bar þetta upp við hann. Við erum ágætis félagar en ég var, samt sem áður, ekki viss hvernig hann myndi taka í þetta. „Er hann að fara segja ,Nei?’“ hugsaði ég. Hann sagði hins vegar strax Já. „Kíktu við í hljóðverið og við skoðum þetta.“ Við kláruðum eitt og hálft lag á fyrsta degi, þar á meðal lagið Burn sem verður að finna á plötunni. Það tók smá tíma að skapa hljóðheiminn sem ég var að leitast eftir, en það tókst.

SKE: Hann semur þá alla tónlistina á plötunni? 

K: Já. Þetta er stuttskífa (EP plata) sem við erum búin að klára. Þetta eru fjögur lög—fimm með inngangslagi (intró). Þetta eru flest ástarlög í dökkum búningi.

SKE: Svolítið melankólísk plata? 

K: Já, það mætti kannski lýsa þessu sem dimmu rytmablúsi með Trip-Hop ívafi—sem er akkúrat það sem ég vildi senda frá mér. Ég mun alveg örugglega halda áfram að gera sad lög; það er mín sterkasta hlið. 

SKE: Ertu mjög leið, yfir höfuð, Karítas? 

K: Ég er bara frekar hress. Ég held að ég sé, hins vegar, mjög meðvituð um tilfinningarnar mínar. Jú, jú, maður hefur gengið í gegnum súra tíma. Þaðan kemur fallegasta tónlistin. Frá …

(Karítas hugsar sig stuttlega um og undirritaður grípur orðið á lofti.)

SKE: Sársaukanum? 

K: Já, og ég held að fólk tengi mest við sársaukann.

SKE: Þú nefndir það áðan að það hafi tekið svolítin tíma að finna réttan hljóðheim. Að hverju leitarðu, í þeim efnum—og hvaða tónlistarfólk veitir þér innblástur? 

K: Ég er mikill aðdáandi Sevdaliza, Abra, James Blake, t.d. Svo elska ég Banks. 

SKE: Sástu hana nokkuð á Secret Solstice? 

K: Já, ég var fremst. Hún horfði í augun á mér—og ég gleymi því aldrei.

SKE: Af hverju enskan—kom íslenska aldrei til greina? 

K: Nei, ég held ekki. Ég hef samið texta á íslensku, ljóð og annað, en ekki fyrir þetta verkefni. Í rauninni vil ég að sem flestir heyri tónlistina. Þá er kannski betra fyrir mig að semja á enskunni. Það hefur virkað vel hingað til. 

SKE: Þú og Soffía Björg eru systur og eruð kannski frekar ólíkar hvað tónlistin varðar. Hvað finnst henni um lagið?

(Karítas hlær og segir mér að þau séu átta systkinin. Allt alsystkini. Karítas er yngst.) 

K: Já, hún Soffía systir einblínir aðallega á spaghetti western stefnuna. Ég lít mjög upp til hennar þó svo að við séum að semja gjörólíka tónlist. Ég sendi henni lagið um daginn og hún sendi mér mjög falleg skilaboð til baka: „Þetta er svo fallegt, elsku systir.“ Ég táraðist smá. 

(Karítas hlær.) 

SKE: Hvenær kemur platan út og ætlarðu að fylgja henni eftir með tónleikum? 

K: Líklega í lok sumars, byrjun hausts. Það er enginn ákveðinn útgáfudagur. Ég held að ég láti þetta bara flakka út í kosmósið og sjái hvað gerist. 

SKE: Ein klassísk að lokum: Hvernig myndirðu lýsa sjálfri þér? 

(Karítas hugsar sig um …) 

K: Ég veit það ekki. Ég ætti kannski auðveldara með að lýsa tónlistinni heldur en sjálfri mér …

SKE: Lagið er, að minnsta kosti, mjög einlægt. Einlægnin grundvallast á því að berskjalda sig … 

K: Það er nákvæmlega það sem ég er að gera. Ég sný sjálfri mér á rönguna. Sem er eitthvað sem ég þurfti að gera. Það hefur tekið svo langan tíma að komast hingað. Daði flutti til Danmerkur síðasta sumar og þá fór verkefnið svolítið á ís. Í ár fór ég svo að hugsa: „Ef ég geri þetta ekki í ár—þá geri ég þetta aldrei. Þá verð ég aldrei hamingjusöm. Það er bara þannig. Ég er að fara að vinna frá níu til fimm það sem eftir er ævinnar en hugurinn verður allataf einhvers staðar annars staðar. Þetta er ekki það sem ég á að vera gera.“ Það er ekkert annað í spilunum—en að gera tónlist. Annars yrði ég bara óhamingjusöm.

(Við hlæjum.) 

SKE: Ég tengi. 

K: Ég held að flestir tengi við þetta: „Ég verð að gera þetta og eignast pening,“ hugsa eflaust margir, í stað þess að gera það sem þeim er ætlað að gera og vera með minna á milli handanna. 

(Ég þyl upp gamla söluræðu frá dögum mínum á skrifstofu Geymslna.com.) 

K: Það er það versta við þetta; maður er að verða að einhverju handriti. 

SKE: Þegar ég var í Flórída í febrúar kíkti ég í Target. Ég ætlaði mér að máta stuttbuxur og þá tók kona á móti mér í mátunarklefanum. Hún virtist vinna markvisst gegn þessu fyrirframgefnu handriti, með því að setja sig í hlutverk hótelstjóra: „Velkomin á Hótel Target,“ sagði hún, þegar ég gekk inn í klefann: „Ég er búin að bóka þig í svítuna,“ bætti hún svo við og brosti. Mér fannst þetta gott hjá hennieins og hún væri í uppreisn. Svo kom ég aftur nokkrum dögum síðar og þá var hún með nákvæmlega sama gimmick: „Velkomin á Hótel Target, ég er búin að bóka þig í svítuna.“ Mér fannst þetta einhvern veginn enn verra …

K: Að gera þetta að handriti.

SKE: Já, að gera uppreisn gegn rútínunnien svo verður uppreisnin að rútínu. 

K: Þetta er líklega ástæðan fyrir því að við erum öll niðurdregin. 

SKE: Jörðin að deyja … 

K: Nákvæmlega, svo við förum ekki út í þá sálma! Heimurinn er hvort sem er að enda, af hverju ekki gefa út tónlist?

SKE: Sad tónlist? 

K: Af hverju ekki gefa út sad tónlist sem fólk getur hlustað á þegar jörðin er að farast?

(Á þessum jákvæðisnótum endar samtalið. SKE hvetur lesendur til þess að hlýða á lagið „Wear Somebody Else“ eftir Karítas, sem og að hlusta á plötuna þegar hún kemur út.)

Auglýsing

læk

Instagram