„Einn daginn flyt ég til Pennsylvaníu og spila kántrí.“—SKE spjallar við Chase

Viðtöl

SKE: Í laginu “Deeper than the Holler” veltir bandaríski kántrísöngvarinn Randy Travis ástinni fyrir sér. Segist hann hafa heyrt aðra söngvara á mölinni stæra sig af því, við konurnar sem þeir elska, að ást þeirra sé dýpri en hafið og stjörnum ofar. Viðurkennir Travis að hann sé nú bara einfaldur sveitapjakkur, sem eigi ýmislegt ólært—en hafi þó heyrt að hafið sé salt og að stjörnurnar eigi það til að hrapa (búmm tiss). Af þessum ástæðum getur hann ekki tekið sér þvíumlík orð í munn, um konuna sem hann elskar. Hefði þetta væntanlega verið ákveðin negla, ef Travis hefði látið þar við sitja—en því miður fellur söngvarinn fyrir eigin bragði í viðlaginu: „Ást mín er dýpri en dalurinn, kröftugri en árnar, háreistari en furuviðirnir,“ syngur hann, og eflaust gæti einhver meinhæðinn hlustandi bent Travis á að furuviðirnir falla sömuleiðis—og að mennirnir mígi stundum í árnar. Hvað sem rökvillum bandarískra kántrísöngvara líður kom það undirrituðum engu að síður skemmtilega á óvart að uppgötva aðdáun íslenska söngvarans Chase á kántrítónlist; hinn síðarnefndi getur vel ímyndað sér að flytja til Bandaríkjanna einn daginn og spila kántrí. Chase gaf nýverið út lagið „Klikk“ í samstarfi við NVTVN, Sdóra og BlazRoca. Lagið verður að finna á plötu sem söngvarinn hyggst gefa út í lok febrúar. Í tilefni þess bauð SKE söngvaranum upp á kaffibolla og spurði hann spjörunum úr. 

Viðtal: RTH 

Viðmælandi: Chase Anton Hjaltested 

(Klukkan rúmlega þrjú gengur Chase inn á skrifstofu SKE. Hann er íklæddur fóðraðri skyrtu og er með eyrnarlokk í vinstra eyra. Hann lítur svolítið út eins og yngsti Hanson bróðirinn—ef sá yngsti hefði elst aðeins betur. Við fáum okkur kaffi og vindum okkur rakleiðis í spjallið.)

SKE: Sæll og blessaður, hvað segirðu þá—og hvað er að frétta?

Chase: Ég segi gott. Það er plata á leiðinni í samstarfi við fullt af flottu listafólki. Þetta verður mest megnis popptónlist. Klikk er eina rapplagið á plötunni.

SKE:
Akkúrat:
Klikk.
Tölum aðeins um það.
Hvers
vegna fékkstu Blaz, NVTVN og Sdóra til liðs við þig
í
laginu? 

Chase:
Okkur langaði að semja rapplag—og
okkur langaði enn
fremur

að smala tilviljunarkenndum hópi listamanna saman. Við töluðum
því við NVTVN (borið fram Natan) sem er búsettur í Noregi.
Hann er frábær taktsmiður og á eftir að gera góða hluti árið
2019. Ég
þekki
Sdóra líka vel, verandi
mikill
Landaboi$-maður.
Síðan höfum við Blaz verið fellar
frá
því að Ég
vil það
kom
út.
Jafnvel
fyrr. Við gigguðum svolítið saman á sínum tíma.

(Chase
bætir
því við að ásamt Blaz mun platan skarta annarri goðsögn úr íslenskri dægurlagatónlist, en neitar þó að gefa upp nafn viðkomandi. „Er þetta Helgi Björns?“ spyr ég aftur—en án árangurs.) 

SKE:
Kaflinn þinn í laginu Klikk ljóstrar kannski upp um mann sem hefur orðið
fyrir vonbrigðum með mannkynið: 

Ég
er svo fokking týndur

Ég veit ekki mína leið /

Þessi
heimur er svo grimmur

Það vilja allir stærri sneið /

SKE:
Endurspeglar textinn skoðun
þína
á mannskepnunni?
 

Chase:
Allt sem ég skrifa eru eigin hugsanir. Það er líka ákveðinn
sannleikur í þessu: Það eru allir
að hugsa um sjálfan sig. Ég komst að því þegar ég í byrjaði
í tónlistinni. 

SKE:
Hvenær kemur platan út?

Chase:
Í lok febrúar. Það stendur til að skjóta eitt myndband áður (sem skartar fyrrnefndri poppstjörnu). Aron Már mun leikstýra því (betur
þekktur sem Midnight
Mar). Hann hefur t.d. skotið myndbönd fyrir Þorra, Balcony Boyz og Ella Grill.

SKE: Þú ert uppalinn, að hluta til, í Bandaríkjunum—ekki satt? 

Chase: Ég fer á hverju sumri og er allt sumarið. Mamma er frá Bandaríkjunum. Hún á níu systkini sem eru á víð og dreif um Bandaríkin. Amma býr t.d. í sveitinni í Pennsylvaníu og þangað fer ég oft. Sumir myndu kannski kalla þetta fólk rednecks en … (Chase hugsar sér um) … ég ætla bara að segja það—þetta er skrítið fólk. Maður þarf að verða svolítið skrítinn sjálfur til þess að falla í kramið. 

(Máli sínu til stuðnings vísar Chase í þá staðreynd að frændfólk hans stytti sér gjarnan stundir, að næturlagi, með því að sameina fjórhjólaakstur og dýraveiðar. Sjálfur má hann einvörðungu stunda þessa iðju að hálfuþar sem hann er ekki með byssuleyfi. Síðar fylgir saga af ættarmóti í Pennsylvaníu árið 2011 þar sem yngri kynslóðinni var komið fyrir í hjólhýsi í skóginum—svo að fullorðna fólkið gæti fengið sér í tánna í friði. Gaf þetta krökkunum ágætis tækifæri til þess að stelast í bjór, þangað til að brúnbjörn birtist um nóttina og skemmdi stemninguna. „Alvöru rjóðhálsastemning,“ hugsa ég með sjálfum mér.) 

SKE: Ólst móðir þín þá upp í Pennsylvaníu? 

Chase: Já, en hún bjó út um allt—ferðaðist strandanna á milli. Amma mín er reyndar íslensk. Hún flutti til Bandaríkjanna 18 ára gömul eftir að hún kynntist afa. 

(Chase bætir því svo við að móðir hans hafi fetað í fótspor ömmu sinnar—en öfugt: Móðir hans flutti til Íslands 18 ára gömul og hóf störf hjá Hard Rock.)

Chase: Það voru allir mjög harðir á því að hún yrði að tala íslensku. Þetta var öðruvísi á þeim tíma: Það talaði enginn ensku. Hún er mjög góð í íslensku, miðað við; hún tók þetta á harkinu.

SKE: Vann hún í Kringlunni þá? 

Chase: Já, einmitt. Hún kynntist pabba þarna í Kringlunni—Kringlu-ástin, maður. 

SKE: Hvað finnst frændfólki þínu í Bandaríkjunum um tónlistina sem þú semur? 

Chase: Þeim finnst tónlistin góð, þ.e.a.s. þau lög sem ég sem á ensku. Ég reyni stundum að semja smá kántrí líka. Ég elska kántrí. Einn daginn—þegar allir eru komnir með leið á mér hérna heima—mun ég flytja til Pennsylvaníu og spila kántrí. 

SKE: Til eru verri draumur. Áttu þér einhverja uppáhalds kántrítónlistarmenn? 

Chase: Randy Travis, hann á mörg góð lög. Hann samdi t.d. I Told You So, sem er klikkað. Einnig Three Wooden Crosses—hann vann Grammy-verðlaunin fyrir það. Svo er lagið Deeper than the Holler, sem er geggjað líka. 

SKE: Þetta er mjög hreinskilin stefna. Í viðlagi lagsins Buy Me a Boat viðurkennir höfundur, Chris Janson, að hamingjan sé ekki fölen segir svo að slíkt hið sama eigi ekki við pallbíla, kæliskápa og báta, sem er, jú, undirstaða hamingjunnar (þetta er svona lagaleg smuga, loophole, í lögmáli Almættisins). Það er eins og að kántrítónlistin hafi tileinkað sér sældar-, efnis- og einstaklingshyggju rapptónlistar, en hlustendur aðallega hvítt suðurríkjafólk … að öðru: Það hafa væntanlega aldrei verið fleiri störf í boði í dag. Hvers vegna tónlist? 

Chase: Það var nú aldrei ætlunin. Þegar ég söng í bílnum sögðu vinkonur mínar að ég væri með ágætis rödd. Ég var alltaf að semja texta. Einn daginn þegar ég var veikur hljóðritaði ég lagið I’m So Sorry og uppskar ágætis viðbrögð. Það sögðu einhverjir að ég hljómaði eins og Justin Bieber, sem var nú reyndar ekki það sem ég vildi heyra—en ákvað að taka því sem hrósi, engu að síður. 

(Chase segist hafa haft gaman af athyglinni. Það að fólk hefði áhuga að hlusta á hann syngja kom honum svolítið á óvart. Hann hefur alltaf verið fremur hlédrægur.)

Chase: Ég var alltaf gæinn sem dró sig í hlé á meðan vinurinn fékk stelpurnar. Þetta var kannski ágætis tilbreyting. 

SKE: I’m So Sorry kom út undir lok 2016 og nokkur lög fylgdu í kjölfarið. Sumarið 2017 gáfuð þið JóiPé svo út Ég vil það. Hvernig kynntust þið JóiPé?

Chase: Ég heyrði lagið Góðir tímar sem hann samdi með Romeo. Í fyrstu var ég sannfærður um að þetta væri erlendur listamaður. Þegar ég komst að því að hann væri Íslendingur hafði ég samband og við sömdum lag á ensku. Í kjölfarið urðum við vinir og hann taldi mér loks hughvarf um að taka upp lag á íslensku. Svo sprungu hann og Króli út.

SKE: Hvað finnst þér hafa breyst frá fyrsta laginu sem þú samdir og til þess nýjasta? 

Chase: Ég hef lært að beita röddinni. Fyrst var það bara „Ef ég næ nótunni þá næ ég henni, annars ekki. Ég er orðinn betri að semja tónlist, myndi ég segja—ég kunni ekki einu sinni á hljóðfæri þá.“ 

(Ég spyr Chase hvort að hann hefði farið í tónlistarnám. Hann svarar því neitandi: Hann kenndi sjálfum sér á píanó með aðstoð Youtube.) 

Chase: Ég er fínn í dag. Ég get spilað nokkur lög ef þú vilt heyra. Þetta er ógeðslega gaman—þó maður sé ekkert endilega neitt góður. Svo á ég nokkra vini sem eru geggjaðir á píanó: „Fokk, ég hefði átt að byrja fyrir 10 árum síðan,“ hugsa ég stundum. 

SKE: Það eru svo margir sem eru að semja tónlist í dag. Að þínu viti, hvað aðgreinir þig frá öðrum listamönnum?

Chase: Við erum ekki eins mikið í rappinu, þó svo að Klikk sé vissulega rapplag. Við erum aðeins meira í poppinu (Chase hælir ClubDub í því samhengi). Mér finnst eins og að poppið sé að koma til baka. Aron Can er byrjaður að gera meira af því. Svo sem ég eitthvað kántrí síðar meir. 

(Aðspurður hvað hann ætli að gera eftir útskrift úr MS segir Chase að draumurinn sé að starfa í kvikmyndabransanum, þ.e.a.s. ef tónlistin þróast ekki út í eitthvað meira en bara hobbý.) 

SKE: Þú tókst einmitt þátt í sýningunni Rokk aldarinnar á vegum MS. Hefurðu leikið í einhverju öðru síðan þá? 

Chase: Nei, ég hef ekki gert neitt annað. Ég byrjaði að semja tónlist strax á eftir Rokk aldarinnar og hef í raun ekki litið til baka síðan þá. Það var mjög fyndið: Ég spurði hvort að ég mætti ekki syngja í sýningunni—en ég fékk það ekki. Ég var bara: „Okay!“ 

(Chase leikur hálfpartinn atriðið; setur upp vandræðalegan svip og dregur ay-ið á auðmjúkan hátt. Hann er fínasti leikari. „Þú myndir nú væntanlega fá giggið í dag,“ segi ég honum til hughreystingar.) 

Chase: Vonandi.

SKE: Sá orðrómur komst á flot á sínum tíma að Pharrell hefði reynt að fá þig til Bandaríkjanna. Var eitthvað til í því? 

Chase: Ég veit í rauninni ekkert um það. Ég vaknaði bara þarna um morguninn—á afmælisdaginn, sama dag og Ég vil það kom út—og sá að ónefndur blaðamaður hafði haft samband til þess að forvitnast um þetta mál. Ég gat engu svarað. Ég vonaði þó innilega að þetta væri satt. 

SKE: Hvaðan kom þessi orðrómur? 

Chase: Ekki hugmynd. Þetta var kannski bara einhver vinur minn að fokka í mér. 

SKE: En hver veit nema að hann hringi einn daginn … Við biðjum flest alla viðmælendur okkar að mæla með einu lagi sem allir verða að heyra (ákveðin retórík)? 

Chase: Þau eru svo mörg. Mig langar að vera rómantískur og segja Careless Whisper.

(Chase hlær.)

SKE: Er það ekki bara sígilt? 

Chase: Það er draumurinn að vera í viðarkofa í Aspen að vetri til og spila Careless Whisper á flygilinn.

(Chase hlær.) 

SKE: Fínasti draumur. Ef þú gætir fengið svar við hvaða spurningu sem er, hver yrði sú spurning? 

(Chase hugsar sig aðeins um. Eftir talsverðar vangaveltur tekur hann loks til máls.) 

Chase: Þetta er erfitt. Hefurðu einvhern tímann Gúgglað “How to make money fast?” 

SKE: Örugglega þegar ég var tvítugur eða eitthvað. 

Chase: Það væri fínt að fá svar frá Guði hvað þetta varðar. Þá væri maður í fínum málum held ég. Ég væri kannski líka til í að vita hvort að hliðarvíddir eins og í Rick and Morty séu til. Þar sem ég sit hérna—en er að drekka úr bleikum kaffibolla ekki svörtum. 

(Undirritaður hugsar til Rikka og Matta.)

SKE: Góð pæling … hvernig myndirðu lýsa sjálfum þér? 

Chase: Ég veit það ekki … (Chase veltir vöngum. Þetta er erfið spurning.) … hvernig myndir þú lýsa sjálfum þér?

SKE: Ég viðurkenni að ég hef spurt þessa spurning mjög often aldrei þurft að svara henni sjálfur. Ég myndi sennilega segja að ég væri, umfram annað fólk, síbreytilegur. Ég legg kannski minni áherslu á sjálfið en aðrir. Það er kannski það sem aðgreinir mig frá öðrum. Ég veit það ekki. Þetta kveikir kannski eitthvað í þinni hugsun? 

Chase: Já, það gerir það. Ég myndi segja að ég væri opinn fyrir öllu og góður við þá sem eru góðir við mig. 

SKE: Ber þetta vott um Kristni Pennsylvaníu-manna? Gullna reglanAllt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gera? Þessi boðskapur er mjög ríkur í Bandaríkjunum (kannski alveg þangað til að kurteisin víkur fyrir kúlunni). 

Chase: Alveg örugglega. Mamma er alltaf góð við alla. Hún er flugfreyja, alltaf að hitta nýtt fólk. Ég fæ þetta örugglega frá henni. Því ég var það ekki alltaf. 

SKE: Meinarðu þá í kjölfar vinsældanna? 

Chase: Já, það var kannski svolítið þannig. Þó það sé vissulega asnalegt að tala um það. Maður var með stæla við fólk sem maður þekkti ekki: „Hver ert þú?“ o.s.frv. Í dag reyni ég að vera almennilegur við alla. 

SKE: Ég meina, þú ert ungur enn (Chase er aðeins 19 ára gamall). Það eru margir sem glöggva sig ekki á þessu fyrr en mun seinnaeða jafnvel aldrei. Þú þarft ekkert að skammast þín fyrir það. Ég er, að minnsta kosti, mjög ánægður með þig.

Chase: Jæja. 

SKE: Að lokumhvernig lítur árið 2019 út? 

Chase: Bara að skemmta fólki og gleðja. Að peppa annað fólk. Þetta er skemmtilegur kafli í lífinu. 19 ára. Hví ekki hafa gaman?

SKE: Amen. Meira gleði, meira stuð.

(SKE þakkar Chase kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að hlýða á plötuna þegar hún kemur út í lok febrúar, sem og að hlýða á lagið Klikk. Hér fyrir neðan er svo „menningarsnauði ruddinn“ Chris Janson með slagarann „Buy Me a Boat.“)

Auglýsing

læk

Instagram