today-is-a-good-day

Hvað er að vera Íslendingur? (Sex hugsanleg svör)

SKE hefur nú gefið út sitt fyrsta hlaðvarp, en þátturinn ber titilinn CV_ismi (Þáttinn má hlusta í heild sinni hér fyrir ofan).

Í fyrsta þætti hlaðvarpsins er leitast við því að svara spurningunni

„HVAÐ ÞÝÐIR ÞAÐ AÐ VERA ÍSLENDINGUR?“

Viðmælendur þáttarins voru þeir Erpur Eyvindarson, Haraldur Sigfús Magnússon og rapparinn Charlie Marlowe (Eftir á að hyggja var fyrsti þátturinn heldur karllæegur. Meira jafnvægi verður að finna í næsta þætti.)

Hér eru sex hugsanleg svör við ofangreindri spurningu sem fram komu í þættinum:

1. Að vera Íslendingur er að fæðast inn í skrýtna útgáfu af Aldingarðinum:

„Ísland er eins og Aldingarðurinn, ef í stað þess að bera Adam og Evu út, hefði Guð kosið að slá hring um garðinn með hafi, eyðilagt gróðurinn með því að skyggja á sólina og lúbarið landið, í aldanna rás, með slæmu veðri. Nokkrum kynslóðum síðar myndu afkvæmi Adam og Evu, eflaust, svipa sterklega til vorrar íslensku þjóðar: hópur fölleitra ættmenna – sem gýtur hornauga til Guðs.“

2. Að vera Íslendingur er að vera klisja.

„Íslendingur talar íslensku, býr eða hefur búið á Íslandi, kennir sig við landið, þekkir myrkur vetursins og ljós sumarsins, elskar náttúruna og drekkur Lýsi.“

3. Að vera Íslendingur er að vera eins og Jón Sigurðsson:

„Að vera Íslendingur er að vera eins og Jón Sigurðsson: Að fæðast í Arnarfirði eða á Íslandi. Að klára stúdentspróf og helst með afburðarlofi. Að vera gagnkynhneigður og að giftast konu – helst frænku manns. Að nema í Kaupmannahöfn, en ekkert endilega að ljúka prófi. Að búa erlendis en að hafa alltaf hag þjóðar sinnar fyrir brjósti. Að sitja á Alþingi og vera helst forseti. Að vera í miklu sambandi við landsmenn og stunda bréfaskriftir við þá. Að vinna með íslensku handritin. Að vera forseti bókmenntafélags. Að berjast fyrir sjálfstæði Íslendinga. Sumsé, að vera Íslendingur er að vera eins og Jón Sigurðsson: víðförull eyjaskeggi sem ber ávallt hag þjóðar sinnar fyrir brjósti – sama hvert hann fer.“

4. Að vera Íslendingur er að tala íslensku (Erpur Eyvindarson):

„Ég segi að vera Íslendingur sé, í grunninn, að vera sammála þeim gildum sem Stjórnarskráin stendur fyrir – og mun standa enn meira fyrir þegar það er búið að breyta henni. Og síðan íslensk menning, íslensk tunga. Og það er kannski kjarninn í því: Tungumálið. Það er meira en að segja það. Tungumálið er meira en að panta sér pylsu. Þú hugsar á tungumálinu þínu … að vera vel lesinn það er mjög íslenskt … og þegar það komu hingað útlendingar – skítfátæka fólkið á Íslandi þau áttu samt bækur … Það gátu allir vitnað í Laxness og Þórberg og félaga, sama hvað það var mikið að gera í fjósinu eða á sjónum eða hvað það nú var.“

Sumsé, að vera Íslendingur er að búa yfir reynslu sem er mótuð af íslensku samfélagi og af íslenskri tungu.

5. Að vera Íslendingur er að vera sjálfstæður (Haraldur Sigfús Magnússon):

„Íslendingur er fyrst og fremst eins og maður sem er á eyðieyju: Hann þarf að geta gert allt sjálfur. Hann getur ekki treyst á neinn, vegna þess að hann er á eyðieyju … Þetta þýðir það að þeir eru það sjálfstæðir vegna þess að veðrið skapaði þá. Einangrunin skapaði þá. Þú verður að búa þig undir veturinn – ef þú gerir það ekki þá drepstu … Semsagt, þú getur ekki treyst neinum nema sjálfum þér. Þú getur treyst á veðrið, þú getur ekki treyst á náttúruna … sjálfstæðisvitundin og baráttan fyrir lífinu gerir þig að manni og að Íslendingi …“

Sumsé, rétt eins og vöðvi er mótaður af viðnámi þyngdaraflsins, er Íslendingurininn mótaður af þeirri mótstöðu sem hann mætir á eyjunni Ísland, af einangruninni og af veðrinu. Íslendingurinn verður að treysta á sjálfan sig, því hann getur ekki treyst á náttúruna og ekki heldur á þá utanaðkomandi hjálp sem væri máske í boði á meginlandinu. Að vera Íslendingur er að vera sjálfstæður.

6. Að vera Íslendingur er að vera lítilmagni (Charlie Marlowe):

„Being Icelandic is being an underdog – an overambitious underdog, forward in his backwardness, who is always looked at sideways by the international community.“

(„Að vera Íslendingur er að vera ,underdog’ (lítilmagni), metnaðargjarn lítilmagni, frakkur í seinþroska sínum, og sem er ávallt litinn hornauga af alþjóðasamfélaginu.“)

Hugsanleg niðurstaða þáttarins er því kannski eitthvað á þessa leiðina: Íslendingur er hún eða hann sá sem talar íslensku; sem hefur dálæti á bókum (en ekkert endilega); sem fæðist inn í hið litla, trúlausa (að mestu) íslenska samfélag; sem ber hag þjóðar sinnar fyrir brjósti sama hvert hún/hann fer; sem býr yfir ríkulegri sjálfstæðisvitund; sem upplifir sig gjarnan sem lítilmagna; en sem gefst aldrei upp.

Næsti þáttur CV_isma er væntanlegur eftir tvær vikur.

Auglýsing

læk

Instagram