„Lagið fjallar um konuna mína, eins og öll önnur lög“—Viðtal við Hauk Heiðar í aðdraganda stórtónleika Diktu

Viðtöl

SKE: Sagan segir að stórskáldið Einar Benediktsson hafi eitt sinn fyrirhitt einstaklega fallega konu á barnum. Skáldið, stórhuga að vanda, var ekki lengi að vinda sér að konunni og bjóða henni gott kvöld. Konan, svolítið undrandi, kannaðist, jú, við manninn og spurði því: „Bíddu, ert þú ekki þarna ljóðskáldið?“ „Jú,“ svaraði Einar um hæl—„og öll mín ósömdu kvæði eru um þig.“ Ekki veit ég fyrir víst hvort að þessi atburður hafi átt sér stað í raun og veru (gamall kollegi sagði mér þessa sögu), eða hvort að viðkomandi skáld hafi verið Einar Ben, en það skiptir ekki máli; þetta er ein rómantískasta pikkup lína sem undirritaður hefur heyrt. Þá hugsaði undirritaður til þessarar sögu fyrir rúmri viku síðan er hann sat andspænis Hauki Heiðari Haukssyni, söngvara íslensku hljómsveitarinnar Diktu, á Hótel Marina við gömlu höfnina í Reykjavík; aðspurður út í tilurð lagsins lét hann eftirfarandi ummæli falla: Þetta lag fjallar bara um konuna mína—eins og öll önnur lög. Undirrituðum fannst þetta mjög gott svar. Hvað sem því líður stígur Dikta á svið í Eldborg í Hörpu á sunnudaginn (16. júní). Tilefni tónleikanna er tuttugu ára starfsafmæli sveitarinnar sem og tíu ára afmæli plötunnar „Get It Together,“ sem sló eftirminnilega í gegn árið 2009. 

Viðtal: RTH
Viðtal: Haukur Heiðar Hauksson 

SKE: Ertu búinn að jafna þig eftir sigur Liverpool í Meistaradeildinni?

Haukur Heiðar: Já, ég er rétt að stíga niður af skýinu—ef ég kemst einhvern tímann niður af skýinu—eftir að Liverpool varð meistari, eða, fyrirgefðu, Ég varð meistari. Þetta er góð tilfinning. Sex titlar. Við strákarnir í Liverpool. Þetta var erfitt hjá okkur—en hafðist.

(Haukur brosir sínu breiðasta, eins og Cheshire-kötturinn í Lísu í Undralandi.)  

SKE: Ég var einmitt að rifja upp viðtal okkar frá 2016. Þá varstu ekkert endilega á því að Liverpool ætti að reka Brendan Rodgers. Þú ert þó væntanlega ánægður með þá ákvörðun í dag?

HH: Vá, hvað ég man ekki eftir því, en, já, ég er mjög glaður að Rodgers fékk að fjúka og að Klopp var ráðinn í staðinn. Góður maður: Brendan Rodgers—en kannski ekki alveg á sama level-i og Kloppar-inn.

SKE: Það eru það fáir, viðurkenni ég, sem United-maður.

(Haukur hlær. Sjálfur hef ég ekki hlegið frá því að United tapaði fyrir Everton í apríl—með fjögurra marka mun.)

SKE: Þið gáfuð út lagið Anniversary í byrjun maí. Hvernig kom lagið til og verður það að finna á væntanlegri plötu?

HH: Lagið varð til þegar ég var að ganga út í bíl úr Þjóðleikhúsinu. Þá skaust það inn í hausinn á mér, þetta stef og þessi laglína. Svo hittumst við strákarnir í hljóðverinu og þetta varð að lagi á núll einni. Væntanleg breiðskífa: Ég veit það ekki. Gefur einhver út breiðskífur lengur—eru þetta ekki bara allt saman stök lög („singles“) í dag? Við erum að vinna í nokkrum lögum og ákváðum að gefa þetta út fyrir tónleikana í Hörpu á sunnudaginn 16. júní. Við eigum sumsé 20 ára afmæli. Við erum búnir að vera hljómsveit í tuttugu ár, sem er svolítið klikkað. Svo á stærsta platan okkar einnig tíu ára afmæli („Get It Together“). Þetta er tvöfalt afmæli.

(Haukur hugsar sig aðeins um.)

HH: En lagið snýst ekkert um það. Það tengist því ekki neitt. Titillinn á laginu er ótengdur því, þó að hann sé vissulega heppilegur.

SKE: Þetta hlýtur að hafa verið einhver markaðsbrella? 

HH: Markaðssnilld? Nei, Anniversary getur þýtt miklu meira en bara afmæli. Þetta merkir líka tímamót eða eitthvað sem gerist árlega. 

(Enska orðið Anniversary á rætur að rekja til Latínunnar og samanstendur af orðunum Annus, Ár, og Versus, Að snúa, og vísar í grunninn til einhvers fyrirbæris sem Snýr aftur árlega.)

SKE: Út frá textanum að dæma þá er brúðkaupsafmæli kannski nærri lagi?

HH: Eða mikil ást. Nei, nei, þetta lag fjallar bara um konuna mína—eins og öll önnur lög.

SKE: Tuttugu ára starfsmæli: Hver er helsti munurinn á nálgun þinni á tónlist í dag, í samanburði við hvernig þú nálgaðist sköpunina þegar þú varst að stíga þín fyrstu skref sem tónlistarmaður?

HH: Þetta er góð spurning. Helsti munurinn er sennilega sá að maður kann miklu meira. Maður þarf ekki að hamast eins mikið til að skapa. Flæðið er betra. Maður er líka meira meðvitaður um sjálfan sig, sem er gott en slæmt líka. Maður þarf að leggja meira á sig til þess að setja sig inn í þennan barnslega hugarheim þar sem maður er tilbúinn að prófa hluti sem standast engin rök, eða ættu ekki að virka. Í gamla daga, hins vegar, var maður óhræddur að prófa nýja hluti. Í dag þarf maður meðvitað að ganga út í hið óþekkta. 

SKE: Er hægt að tala um hápunkt ferilsins eða á Dikta enn eftir að ná hæstu hæðum?

HH: Hápunktur ferilsins verður klárlega tónleikar okkar í Eldborg í Hörpu næstkomandi 16. júní. Miðar fást á Tix.is. 

(Haukur hlær.)

HH: Nei, ég veit það ekki; erum við ekki alltaf að leita að einhverjum nýjum hápunkti? Þessi tónleikaferðalög sem við höfum farið í hafa verið geggjuð. Að spila fyrir rúmlega 17.000 manns í Eyjum á sínum tíma var geggjað. Allir sungu með.

SKE: Verstu tónleikarnir?

(Haukur hlær.)

HH: Við höfum spilað á mörgum vondum tónleikum. Við héldum eitt sinn tónleika í Lundúnum þar sem það voru kannski tveir í salnum. Það var ansi slæmt, en aðallega vegna þess að maður bjóst við betri mætingu. Í raun og veru skemmtum við okkur vel á þessum tónleikum. Við fífluðumst á sviðinu.

(Undirritaður hleypur úr einu yfir í annað.) 

SKE: Sem læknir hvaða sjónvarpssería fangar þennan raunveruleika best?

HH: Ég horfi eiginilega ekkert á læknaþætti. Dr. House var skemmtilegur—en söguheimurinn eins langt frá raunveruleikanum og hægt er að komast. Síðasti sjónvarpsþáttur sem ég horfði á þar sem læknar voru í fyrirrúmi var ER, sem er einnig ansi fjarri lagi. 

SKE: Áttu eitthvað svona House móment, þar sem þú ert kannski að keyra á Álftanesinu og ert að hugsa um einhvern sjúkling og svo allt í einu færðu hugljómun?

(Hlátur.)

HH: Ég get ekki beint sagt að ég hafi átt svona House móment—en vissulega hefur maður komist í tæri við margt óvenjulegt sem maður bjóst ekki við að sjá; það er margt sem getur klikkað í þessum líkama. 

SKE: Í því samhengi; það hafði einhver erlendur aðdáandi orð á því í athugasemdakerfi Facebook að röddin þín í laginu Anniversary væri eitthvað frábrugðin því sem hlustendur höfðu vanist …

HH: Þetta hafði kannski eitthvað með hljóðvinnsluna að gera. Magnús Öder, sem sá um upptöku og hljóðblöndun, setti einhver effect á röddina sem gerði það kannski að verkum að hún hljómaði aðeins öðruvísi en vanalega. Ég söng þetta líka kannski aðeins öðruvísi. Það var kannski það—en svo er ég líka að verða eldri. Ég er kominn með fullt af gráum hárum.

(Haukur stýrkur sér um vanga. Óneitanlega er hann grár fyrir hærum. Betra að vera gráhærður en fáhærður, bulla ég með sjálfum mér.)

SKE: Formlegt svar Diktu við þessari athugasemd var einmitt svohljóðandi: „He’s just really, really old.“

(Við hlæjum.)

SKE: Hvað er að frétta af plötunni þinni?

HH: Ég byrjaði að vinna að plötu undir eigin formerkjum árið 2015. Nú er 2019. Ég er búinn að gefa út eitt lag. Það er eitthvað í áttina. Ég hef verið að vinna þetta með þýska pródúsentnum Sky Van Hoff, sem hefur verið mjög upptekinn. Hann er að túra með Rammstein. Svo er ég líka mjög upptekinn, þannig að við höfum ekki hist mikið. En ég hef farið til Þýskalands stundum til að kúpla mig út. Það kemur samt sem áður meira efni síðar.

(Haukur bætir því svo við að það sé engin pressa sem fylgi því að vinna að sólóplötu, sem gerir það að verkum að hlutirnir eigi það til að dragast á langinn. Við ræðum í kjölfarið nýja tónlist og Haukur viðurkennir að honum finnist erfitt að fylgjast með nýrri tónlist í dag; það er svo mikið í gangi.)

SKE: Það hafa einmitt margir tónlistarmenn haft orð á þessum yfirþyrmandi hraða. Sumum finnst þeim nánast verða irrelevant ef of langur tími líður á milli útgáfu laga eða platna. Finnurðu fyrir þessu? Finnst þér eins og að Dikta þurfi svolítið að stimpla sig inn á ný?

HH: Ég get alveg samþykkt það; bransinn, sem og samfélagið, hefur breyst rosalega mikið. Í gamla daga keyptu menn plötu og þessi plata sat síðan á skrifborðinu dögum eða vikum saman og minnti þannig á sig. Diskurinn var þarna. En núna—þar sem allt er komið á netið—þá falla lög og plötur stundum á milli skips og bryggju. Bransinn hefur einnig brugðist við þessu á þann hátt að stórar alþjóðlegar hljómsveitir gefa ekki lengur út plötu og svo eitt stakt lag með því—og svo líða þrír mánuðir og þá kemur annað lag út; öllu heldur kemur lag út og svo annað eftir þrjár vikur og svo annað eftir fjórar vikur og svo kemur platan út og svo annað lag eftir mánuð. Það þarf alltaf, einhvern veginn, að minna á sig. Það þarft alltaf eitthvað nýtt, nýtt, nýtt! Það er breytingin. Hvort að það sé til góðs eða slæms, veit ég ekki. Svona hefur þetta einfaldlega þróast og það er enginn að fara aftur í geisladiskana. Jú, fólk er að kaupa vínyl upp á stemninguna að gera. 

(SKE þakkar Hauki Heiðari kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að láta sjá sig á tónleikum Diktu í Eldborg í Hörpu á sunnudaginn.)

Miðar: https://tix.is/is/event/7333/dikta-takk-fyrir-/

Auglýsing

læk

Instagram