„Hvernig skilgreinir þú hugtakið KÚL?“—SKE spjallar við GKR

Hvað er það að vera kúl?

Að mati heimspekingsins Thorsten Botz-Bornstein á kúlið, eða að minnsta kosti fagurfræði þess, rætur sínar að rekja til þeldökkra Bandaríkjamanna á tímum þrælahaldsins: „Þrælahald neyddi ánauðarmenn og konur til þess að leggja rækt við sérstaka varnarhætti („defense mechanisms“) sem einkenndust af tilfinningalegu fáskiptni og kaldhæðni; svalt viðmót gerði þrælum og fyrrum þrælum kleift að viðhalda geðheilsunni—að spjara sig innan um þrúgandi kerfi sem kappkostaði að hagnýta líkama þeirra—að einfaldlega ganga um göturnar á næturnar.“ 

Nánar: https://philosophynow.org/issu…

Svipaðar pælingar eru að finna í ritgerðinni The White Negro eftir bandaríska rithöfundinn Norman Mailer. Í ritgerðinni heldur hann því fram, líkt og Botz-Bornstein, að þeldökki Bandaríkjamaðurinn sé fyrirmynd hipstersins, sem jú—lifði fyrir kúlið: „Sérhver þeldökkur Bandaríkjamaður sem þráir að lifa verður að búa við hættuna frá fyrsta degi. Fyrir honum er engin upplifun kæruleysisleg. Engin þeldökkur Bandaríkjamaður getur rölt niður götuna í vissu um að engin hætta sé á ferð … meðvitaður um þá staðreynd að lífið er stríð—meðvitund sem gegnsýrir jafnvel frumur líkama hans—hafði þeldökki Bandaríkjamaðurinn sjaldan efni á fáguðu höftum siðmenningarinnar, og lifði því í takt við mun frumstæðari list: Hann bjó í risastóru núinu … hann gaf nautnir hugans upp á bátinn fyrir skyldubundnari nautnir líkamans.“ 

Nánar: https://www.dissentmagazine.or…

Ritgerð Mailer, þrátt fyrir fáguð stílbrögð, er vandasöm; Mailer alhæfir um of, sem er ávallt varhugavert, og einnig bera skoðanir hans úreltan keim. Líkt og rithöfundurinn James Baldwin sagði:

„(Mailer) … er fullkomið dæmi um hvað það þýðir að vera hvítur rithöfundur á 20. öldinni—hvítur rithöfundur í Bandaríkjunum. Það veitir manni of mörg tækifæri til þess að skjóta sér undan raunveruleikanum.“

Ég velti þessum hugmyndum fyrir mér er ég hlýði á lagið KÚL sem rapparinn GKR samdi í samstarfi við taktsmiðinn Pálma Ragnar Ásgeirsson (Stop Wait Go), sem gengur undir nafninu Arro í samhengi þessa verkefnis. Í laginu, sem rataði inn á Youtube í fyrradag (20. ágúst), virðist GKR hugleiða hugtakið kúl, alveg eins og Mailer og Botz-Bornstein. 

Í viðlaginu syngur hann:

Af hverju ertu svona kúl? /
Hvernig er það að vera þú? /
Kannski ég ættað fara meira út? /
Ættað fara meira út, vó /

Síðar ber ég þessar hugmyndir mínar upp við Gauk (GKR) sem segir mér að titill lagsins hafi reyndar verið frekar tilviljanakenndur og ýjar þar með að því að kúlið sé í raun ekkert endilega þungamiðja textans.

GKR: „Pálma fannst sá titill virka og mér tókst ekki að finna neitt annað—svo KÚL varð fyrir valinu.“

RTH: „En hvað þýðir hugtakið KÚL fyrir þér?“

GKR: „Fyrir mér er kúl eitthvað nýtt, eitthvað öðruvísi eða góðviljugt/einstakt. Mér finnst stundum eins og orðið kúl sé túlkað á leiðinlegri máta en það ætti í raun að vera, þ.e.a.s. að eitthvað er kúl en annað ekki.“

RTH: „Hver er að ávarpa hvern í línunni Hvernig ferðu að því að gera þetta?“ 

GKR: „Ég nefni engin nöfn en það er manneskja sem er yfirburðagóð í því að halda ró sinni og ég tek hana til fyrirmyndar.

RTH: Er rétt að rýna þannig í textann að kúlið einkennist af eftirfarandi atriðum: 

1. Að slaka á 

2. Að höndla pressuna 

3. Að fara út á lífið 

4. Að berjast ekki fyrir fullkomnun 

5. Að festast ekki í fortíðinni 

6. Að elska 
7. Að anda að sér fersku lofti og gera ekki neitt nema að líða vel  
8. Að lifa í augnablikinu

GKR: „Já, kannski að skilgreining hugtaksins kúl sé bara að vera algjör negla í mómentinu. En þegar ég segi fara út þá á ég ekki endilega við að fara út á lífið, kannski meira að fara út og sjá allt lífið—hvort sem það sé djamm, fjölskylduboð, útlönd eða út á land.

Að samtalinu loknu finnst mér eins og svör GKR haldist í hendur við fullyrðingar Botz-Bornstein og Mailer. Samkvæmt skilgreiningu Botz-Bornstein er það að vera kúl að halda ró sinni, þrátt fyrir álag eða stress, eða í orðum GKR: að höndla pressuna. En þó kviknar um leið önnur spurning: Ef kúlið var lausn bandarískra þræla við valdboðsstefnu suðurríkjanna—hvers vegna þessi þrá GKR í kúlið í dag, á Íslandi? Um hvaða pressu er rapparinn að tala í textabrotinu:

Hvernig ferðu að því að geretta? /

Slaka á, höndla pressuna? /

Vissulega eru hugleiðingar GKR í laginu KÚL settar fram á léttan hátt (þetta er óneitanlega hresst lag) og þó svo að það sé galið að halda því fram að íslenskur rappari á 21. öldinni upplifi andstreymi í einhverri líkingu við það sem fyrrnefndir bandarískir þegnar upplifðu—og upplifa enn—er þó einhver alvarlegur undirtónn sleginn í laginu.

Síðar velti ég því fyrir mér hvort að umrædd pressa sé tilbreytingarlaus rútína 
(„Ég fyrirlít, fólk sem hegðar sér eins og lík,“ segir rapparinn í laginu) þar sem andlausir þegnar samfélagsins þræla sér út í nafni fullkomnunarinnar eða neysluhyggjunnar? Á sama veg og bandarískir þrælar nýttu sér kúlið til þess að berjast gegn kerfinu þráir GKR sambærilegt vopn í baráttu sinni gegn sálarlausu lífi:

Held að ég sé fastur inni /
Þarf að na að losa mig /
Eg vil ekki búa í þunglyndi /
Frekar kaupa nýtt heimili /

En eflaust eru þetta bara fjarstæðukenndar vangaveltur undirritaðs, þó er það ein málsgrein eftir Bornstein sem verkar sem brú:

„Á tímum þrælahaldsins, og lengi vel eftir þá tíma, varðaði opinber ögrun þeldökkra Bandaríkjamanna við dauðarefsingu. Varð því andspyrnan að vera fremur meinlaus, og neyddust þrælar að dylja eða bæla niður jafnvel minnsta vott af alvöru ásetningi. Kúlið er þversagnarkennd blanda af undirgefni og uppreisn. Þetta er sígilt dæmi um mótspyrnu gegn yfirvaldinu með sköpun og nýsköpun.

Hvað sem þessum hugleiðingum líður er lagið KÚL eftir GKR og Arro skemmtilegt og hresst óður til RISASTÓRA NÚSINS.

Viðtal: RTH

Auglýsing

læk

Instagram