Auglýsing

Maraþon Reykjavíkur: Nei, takk.

(Pistill þessi birtist upprunalega í Grapevine stuttu eftir Reykjavíkurmaraþonið árið 2013)

Reykjavíkurmaraþonið er niðurlægjandi viðburður; ömurlegt og ósæmilegt fyrirbrigði; stórfengleg hátíðarsýning mannlegra afturfara – og eru það aðeins þeir sem eru hvað ómerkilegastir sem taka þátt. Íhugaðu staðreyndirnar: til þess að öðlast þátttökurétt neyðist maðurinn til þess að verða að sínu eigin farartæki, og ber honum sú skylda að ferja sjálfan sig 10, 21 eða 42 kílómetra – og aðeins með öllum þeim ófullnægjandi hestöflum sem fætur hans geta framkallað. Með öðrum orðum verður ákveðin öfugþróun að eiga sér stað: manninum er gert að ferðast aftur í tímann, fyrir tíð iðnbyltingarinnar, og ryðja sér svo leið um götur borgarinnar eins og hver önnur afrísk antilópa … eftir hlaupið í fyrra strengdi ég þess heit að ég mundi ekki niðurlægja sjálfan mig aftur; að ég mundi sofa yfir mig; að á meðan á kapphlaupinu stæði mundi ég halla mér aftur í framsæti bílsins og brenna eldsneyti í ríflegu magni, er ég brunaði 5, 10, 21, 42 kílómetra – í illkvittniskasti … en nei, nei, tveimur dögum fyrir þennan ömurlega viðburð lét ég undan; skráði mig til leiks; vaknaði snemma morguns og lét sjá mig við marklínu Reykjavíkurmaraþonsins í þröngum fatnaði og varð fljótlega að skotspæni annarra betur klæddra manna. Konan mín, sem hafði fylgt mér af vorkunnsemi, kvaddi mig með vandræðalegum kossi og gekk svo á brott. Ég kom mér fyrir í mannshjarðarþvögunni, hnipraði mig saman og beið eftir hvellnum frá byssunni. Tikk … Tikk … Tikk … Búmm! Niðurlægjandi hátíðarsýningin hófst – og ég brokkaði af stað eins og drukkinn vísundur í takt við ónáttúrulega hljóma rokktónlistar níunda áratugarins. Hér fylgir stutt samantekt af helstu þáttaskilum hlaupsins: Fyrsti kílómetri: ekkert þreyttur og fremur öruggur með sjálfan mig. Annar kílómetri: aðeins þreyttari og þar með ekki eins sjálfsöruggur. Þriðji kílómetri: óheillavænleg blaðra fæddist inn í heiminn neðst á vinstri fæti mínum. Fjórði kílómetri: Alger glötun sjálfsöruggis sökum kvalafullrar mæðu og tilvist fyrrnefndar blöðru. Fimmti kílómetri: gerði tilraun til þess að drekka Powerade um leið og ég hljóp og andaði – og kafnaði næstum því. Sjötti kílómetri: hópur barna skokkaði framhjá mér með niðrandi, loftkenndum skrefum. Sjöundi kílómetri: einlægar vangaveltur um uppgjöf. Áttundi kílómetri: einlæg afneitum gegn möguleikanum um uppgjöf sökum óvenju stórs egós. Níundi kílómetri: perluskreytt hlið og brjóstgóðir englar birtust mér sem draumsýn sem var í skýrri mótsögn við eigið rótgróið trúleysi. Tíundi kílómetri: ég, holdgervingur lifandi dauðans, hrasaði yfir marklínuna með klunnalegum skrefum. Ég sótti medalíuna mína, kastaði henni í ruslið og varði tilfinningaþrungnum klukkutíma í leit að konunni minni, sem fannst þetta allt saman svo niðurlægjandi að hún hafði tekið upp á því að hlaupa upp Laugaveginn eins og vandræðalegur blettatígur. Á næsta ári ætla ég ekki að skipta sjálfsvirðingu minni út fyrir heilsuna. Ég ætla að vera feitur, virðulegur og iðjulaus.

Orð: Ragnar Tómas

PS.

SKE styður Reykjavíkurmaraþonið heilshugar.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing