Nýtt hlaðvarp um rapparann Prodigy (Mobb Deep): „The Realness“

Meðal frægustu opnunarlínum rappsögunnar eru fyrstu fjórar línurnar í laginu Shook Ones, Pt. II eftir rapparann Prodigy: 

I got you stuck off the realness /
We be the infamous /
You heard of us /
Official Queensbridge murderers /

Rúmt ár er liðið frá andláti Prodigy en rapparinn andaðist langt fyrir aldur fram, aðeins 42 ára gamall. Dauði rapparans á rætur sínar að rekja til arfgengs blóðskjúkdóms (sigðkornablóðleysi eða „sickle cell anemia“ á ensku) sem rapparinn glímdi við alla ævi. 

Nýverið gáfu WNYC Studios út fyrsta þátt hlaðvarpsins The Realness (titill þáttarins vísar einmitt í fyrrnefnt erindi) þar sem þáttastjórnendur kafa ofan í baráttu Prodigy við sigðkornablóðleysi, en sjúkdómurinn hafði mikil áhrif á líf rapparans, eins og gefur að skilja. 

Ýmislegt áhugavert kemur fram í fyrsta þættinum, meðal annars hvernig Prodigy og hljómsveitabróðir hans Havoc kynntust; samkvæmt Prodigy var hann plataður á fund Havoc undir þeim formerkjum að hinn síðarnefndi væri áhugasamur um rapptónlist; í raun og veru ætluðu Havoc og vinir hans að ræna Prodigy, sem hafði mikið dálæti af skartgripum—en sem betur fer varð ekkert úr þessum áformum Havoc.

Nánar: https://www.wnycstudios.org/st…

Prodigy fæddist árið 1974 og stofnaði hann tvíeykið Mobb Deep með vini sínum Kejuan Muchita (betur þekktur sem Havoc) snemma á tíunda áratugnum. Gáfu þeir út sína fyrstu plötu Juvenile Hell árið 1993 og fylgdu plötunni svo eftir með þremur hljóðversplötum í viðbót fyrir lok aldarinnar. Héldu þeir félagar áfram að túra og gefa út tónlist saman á nýrri öld en síðasta plata Mobb Deep, The Infamous Mobb Deep, kom út árið 2014. Þekktasta lag sveitarinnar er án efa Shook Ones, Pt. II sem hljómaði meðal annars í kvikmyndinni 8 Mile. 

Auglýsing

læk

Instagram