Auglýsing

„Maður veit ekki og getur ekki vitað allt“ 

Guðrún Aspelund er nýr sóttvarnalæknir. Hún segir margt hafa lærst af COVID-faraldrinum þó að enn sé verið að rýna gögn. Það hafi t.d. komið í ljós hvað hægt sé að gera margt utan spítalans og að stjórnvöld hafi hlustað á lækna og vísindamenn, hér hafi dánartíðni verið lægri en í löndunum í kring og skólar hafi haldist opnir. Hún segir jafnframt að samstarfið við Almannavarnir hafi verið afar gott en að aðgerðirnar hafi líka miðast við að vernda heilbrigðiskerfið og spítala allra landsmanna. Guðrún telur að í framtíðinni megum við búast við aukinni tíðni faraldra, m.a. vegna ferðalaga, vöruflutninga og umhverfismála. Til þess að mæta því verði að ganga hratt í að klára nýjan spítala og auka mannafla.  

Guðrún hefur komið víða við á starfsferlinum, hún hefur starfað í þremur löndum og búið í fjórum. Guðrún ólst upp í Reykjavík á Öldugötunni og síðar á Seltjarnarnesi og segist eiga mjög góðar minningar frá báðum stöðum. Hún stundaði boltaíþróttir, fótbolta með KR og handbolta með Gróttu og hefur fylgst með báðum íþróttunum síðan, einnig bandaríska körfuboltanum og svo stundum ensku knattspyrnunni, og er uppáhaldsliðið Liverpool.

„Ég flutti á nesið níu ára, það var erfitt fyrst en svo eignaðist ég nýjar vinkonur. Það var mjög gott að alast þar upp og maður gat gengið allt. Ég eignaðist mjög góðar vinkonur sem eru enn í dag bestu vinkonur mínar og við voru í handbolta í Gróttu saman á tímabili. Ég var í Valhúsaskóla og svo fóru margar okkar saman í MR. Mamma var heimavinnandi þegar ég var yngri en ég er yngst fjögurra systkina og á þrjá bræður. Seinna vann hún allan daginn. Foreldrar mínir voru hvetjandi með það að við færum áfram í langskólanám, mamma hafði ekki haft tækifæri til þess að verða stúdent og ég veit að hana langaði til þess en á þessum tíma var ekkert sjálfsagt að konur færu áfram í nám. Hún var í ýmiss konar störfum, stóð sig vel og lærði hluti sjálf. Má segja að það hafi verið svipað með pabba, hann var stúdent en langaði í háskóla en þar var ekki efni til frekara náms. Þau vildu að við fengum tækifæri til að mennta okkur ef við vildum án þess að þau stjórnuðu því.“

„… auðvitað þarf maður að fylgjast með í læknisfræði en maður þarf líka að vera heiðarlegur, maður veit ekki og getur ekki vitað allt og þá er mikilvægt að leita til kollegana og leita uppi hlutina.“

Læknisfræðin sameinar raungreinar og tengist manneskjunni

Guðrún segist ekki hafa stefnt á læknisfræðina alla tíð en hafi verið á stærðfræði- og eðlisfræðibraut í MR. Stærðfræðin lá vel fyrir henni, þannig að áhuginn var mestur á raungreinum.

Hvers vegna varð læknisfræðin fyrir valinu? „Ég hafði áhuga á stærðfræði og vísindum en læknisfræðin sameinar vísindin og svo mannlega þáttinn. Ég hafði á endanum ekki áhuga á að fara í hreinar raungreinar eins og verkfræði.“

Guðrún fór síðan út í nám eftir kandídatsár þar sem nýútskrifaðir læknar fara á milli deilda og var eitt ár sem deildarlæknir á skurðdeild. „Ég ákvað að fara í almennar skurðlækningar, ég varð fyrir áhrifum aðallega frá tveimur manneskjum, Margréti Oddsdóttur, prófessor í skurðlækninigum, og Jónasi Magnússyni, prófessor í skurðlækningum, sem var yfirlæknir. Margrét var mikill frumkvöðull og kom með kviðsjártækni við skurðaðgerðir til Íslands en þá er sett inn myndavél og smágerð áhöld í gegnum göt í stað þess að gera holskurð. Margrét bjó yfir einstökum drifkrafti. Konur fóru á þessum tíma ekki mikið í skurðlækningar en Margrét smitaði frá sér og hafði mikil áhrif á mig. Ég hafði þetta líka í höndunum þannig að ég skellti mér í skurðlækningar. Margrét hafði verið á Yale og staðið sig mjög vel og hafði sambönd þar. Ég fór því í heimsókn á Yale og það varð úr að ég fór í rannsóknarstörf í tvö ár áður en ég hóf formlegt nám í skurðlækningum þar. Það var mælt með að ég gerði þetta svona til að komast inn gegnum síuna frekar en að reyna að fara beint inn og taka rannsóknarárin í miðju námi eins og margir gera. Þetta er sem sagt fimm ára klínískt nám og yfirleitt tvö ár í rannsóknum. Í heildina með rannsóknum er þetta því sjö ára nám. En það komast ekki allir að sem vilja,“ segir Guðrún en skurðlækningar í Bandaríkjunum þykja mjög erfitt nám. Guðrún  útskrifaðist sem almennur skurðlæknir frá Yale, ákvað að fara í undirgrein og valdi barnaskurðlækningar.

Aðspurð segist hún ekki hafa valið þær af praktískum ástæðum, af því að það vantaði hér heima, engin pressa hafi verið á henni, eða að einhver hefði haft samband við hana til að hafa áhrif á valið. „Maður fer á milli deilda í náminu og á þriðja ári fær maður að gera meira og taka þátt í aðgerðum og þar kviknaði áhuginn að vinna með börnum. Þau eru líka svo skemmtileg,“ segir Guðrún og hlær. Börnin eru að upplagi hraust og oft fljót að ná sér og spretta fram úr. Þannig að ég ákvað að fara í barnaskurðlækningar. Til að komast í það nám fór ég aftur í gegnum síu.“ Hún segir það hafa verið erfiðara að komast á góða staði í nám sem útlendingur en komst þó að á mjög góðum stað í Toronto.

Finnst læknunum ekkert vont að missa þig úr barnaskurðlækningum? „Ég veit það ekki,“ segir Guðrún glettin og hlær við.

Hvað tók við eftir námið? Ég var gift áður en ég fór út Gunnari Jakobssyni. Hann fór í MBA-nám á Yale en hann er lögfræðingur. Hann fékk vinnu úti í New York og fór til vinnu frá Connecticut og ég fór svo til Toronto. Hann var áfram í New York en vorum ekki með börn á þessum tíma og hann kom til mín um helgar. Þegar ég lauk námi ákváðum við að vera áfram úti og mér bauðst starf í New York við barnaspítala Columbia-háskóla. Ég var í 10 ár þar eða til 2017.“

Þér hefur þá líkað vel úti? Já, þetta var frábær hópur sem vann þarna og fínn spítali, við gerðum allar aðgerðir, þetta var mjög gefandi starfslega og svo kenndi ég líka, af því að þetta var háskólaspítali. Ég var svolítið líka í rannsóknum í samstarfi með öðrum.“

Var eitthvað sérstakt sem þú rannsakaðir? „Já, það var aðallega meðfætt þindarslit, börn sem fæðast með gat á þindinni, en þar með er alls ekki öll sagan sögð, þetta getur haft mikil áhrif á allan líkamann, þessi börn eru oft með hjartagalla, lungnasjúkdóm og meltingartruflanir, næringarvandamál og jafnvel líka þroskavandamál. Stundum fæðast þau fyrir tímann og geta verið með hjarta- og lungnabilun, þau sem eru verst sett. Þá eru innyfli og hluti af lifrinni uppi í brjóstholinu,“ lýsir Guðrún. „Og þau þrýsta á hjarta og lungu alla meðgönguna. Þetta ástand var það sem ég rannsakaði og hópurinn sem ég var í og einnig erfðafræðiþáttinn í þessu. Ég kom líka skipulagi á eftirfylgni sjúklinganna og ferli svo að fjölskyldur þyrftu ekki að koma á öllum tímum til að hitta mismunandi fagfólk, sem var betra fyrir þær og okkur líka,“ segir Guðrún.

Viðtalið má finna í heild sinni á vef Birtings.

Texti: Ragnheiður Linnet
Myndir: Hallur Karlsson
Förðun: Sara Eiríksdóttir

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing