Janette Beckman

Ræðir við Ske um ljósmyndir, undirheima, Brownsville, ofl.


Í dag eru allir ljósmyndarar. Í dag dregur hver einasti maður
snjallsímann upp úr vasanum og beinir honum að ómerkilegum og ófrýnilegum
manneskjum, að meðaltali einu sinni á dag – og oft er þessi ómerkilega og
ófrýnilega manneskja einn og sami maðurinn. Já, herra minn: Í dag er mikið af smásálarlegu fólki sem er alltaf
fyrir framan myndavélina, í sviðsljósinu. En svo eru alvöru ljósmyndarar eins
og Janette Beckman. Janette Beckman er lítið fyrir „selfies.“ Þegar Janette Beckman dregur fram myndavélina beinist
linsan yfirleitt að einhverjum merkilegum: LL Cool J, André 3000, Busta Rhymes,
meðlimum hljómsveitarinnar the Clash eða the Ramones, Afrika Bambaataa og svona
mætti áfram telja. Í lok október mun Gallerí Fold hýsa
sýninguna „HIP-HOP MASHUP / World Tour
Exhibit“ þar sem ljósmyndir eftir Janette
Beckman eru endurtúlkaðar af 10 gröffurum. Sýningin er unnin í samstarfi við
myndlistarmanninn Cey Adams, fyrrum listrænan stjórnanda plötufyrirtækisins Def Jam. SKE setti sig í samband við Janette Beckman í
tilefni þessarar merkilegu sýningar.
Við ræddum um Bill
Cosby, undirheima Brownsville, ljósmyndir og fleira.

SKE: Segðu okkur, Janette, hvað hefur þú verið að bralla síðustu daga?

Janette Beckman: Ég var að ljúka við sýningu í the Museum of the City of New York sem bar titilinn „Hip Hop Revolution.“ Svo var ég sýningarstjóri á sýningunni „Down & Dirty“ í Photoville safninu í Brooklyn. Þetta var ljósmyndasýning tileinkuð ljósmyndurum í tónlistargeiranum. Þetta var samantekt af bestu ljósmyndum sem 55 ljósmyndarar tóku síðustu fjóra áratugi. Svo er ég að skjóta næstu herferð Shinola í Detroit.

Af hverju ákvaðstu að gerast ljósmyndari?

Ég varð snemma ástfangin af portrett myndunum sem ég sá í söfnunum í Evrópu. Mig langaði helst til þess að gerast portrett málari. En ég var ekki alveg viss. Seinna meir þegar ég var nemandi í Listaháskólanum þá tók ég smá krók og ákvað að læra ljósmyndun.

Þú tókst myndir af Gay Talese fyrir ekki svo löngu, en hann var þekktur fyrir greinina sína „Frank Sinatra Has A Cold.“ Er mikill munur á því að taka ljósmyndir af rithöfundum í samanburði við rappara og pönkara?

Já, ég tók ljósmyndir af Gay Talese fyrir tímaritið „Jocks & Nerds.“ Hann er ótrúlega heillandi maður og algjör herramaður. Hann á stórt safn af höttum og gaf mér tækifæri til þess að skoða. Sama hvernig viðrar, hvort að það er hvasst, rigning, skiptir ekki máli, þá á hann sérstakan hatt sem hentar. Ætli að við höfum ekki verið í rúman klukkutíma að skjóta myndir heima hjá honum. Það besta við þetta allt saman var að hann sendi mér póstkort stuttu seinna: „Á hálfri öld hafa fjölmargir atvinnuljósmyndarar tekið myndir af mér, en þínar myndir eru eflaust bestar.“ Það var einstaklega gaman að fá þetta bréf. Svo elska ég einnig greinina um Frank Sinatra.

Allt frá áttunda áratugnum hefur þú verið að taka ljósmyndir af tónlistarmönnum: Finnst þér tónlistarmenn hafa breyst á þessum tíma?

Í gamla daga voru listamennirnir mun frjálsari. Þeir kipptu sér ekki upp við að stilla sér upp og ég gat oft verið fluga á vegg baksviðs og tók mikið af skemmtilegum myndum. Í dag er allt svo stíliserað og útpælt. Það er nánast ómögulegt að fá hljómsveitir til þess að vera spontant. Það er erfitt að fá hljómsveitir til þess að skemmta sér í tökum. Það eru allir svo einbeittir að vera „cool.“ Svo ætla ég ekki einu sinni að fara út í Photoshop hliðina á þessu öllu saman. Í dag eru engir gallar leyfðir. En ég reyni að vinna gegn þessu. Í dag er ég að vinna að bók með djasssöngvaranum Jose James. Síðustu tvö árin þá hef ég verið að taka myndir af honum á tónleikaferðalögum, baksviðs og á sviði. Ég hef verið sannkölluð fluga á vegg og hann hefur ritað dagbók sem á að fylgja myndunum. Þetta er ógeðslega flott. Við erum með Kickstarter herferð til þess að fjármagna þessa útgáfu.

https://www.kickstarter.com/projects/1552720808/no-beginning-no-end-a-year-in-wordsand-photos

Í dag er allt svo stíliserað og útpælt. Það er nánast ómögulegt að fá hljómsveitir til þess að vera spontant. Það er erfitt að fá hljómsveitir til þess að skemmta sér í tökum. Það eru allir svo einbeittir að vera ‚cool.’

Áttu þér einhverja uppáhalds ljósmyndatöku?

Þetta er erfið spurning. Eftirmiðdagurinn með Salt & Pepa á heitum sumardegi í New York er eftirminnilegastur. Á þessum tíma voru þær ekki einu sinni búnar að gefa út plötu. Þetta var eftirminnilegur dagur og mér gafst tækifæri til þess að kynnast þeim. Seinna meir tók ég ljósmyndir fyrir öll plötuumslögin þeirra. En svo er annar tökudagur sem mér dettur í hug. Það var dagurinn sem ég ljósmyndaði Run DMC árið 1984. Ég gekk út úr neðanjarðarlest í Hollis, Queens og hitti Jam Master Jay. Við gengum dálitla stund og svo tók ég svona 12 myndir af Run DMC ásamt vinum sínum. Þeir voru bara að hangsa í skræpóttu sólarljósi á götunni þar sem þeir bjuggu. Þetta er örugglega ein af mínum uppáhalds tökum – og uppáhalds augnablikum.

Þú tókst nokkrar ljósmyndir af Bill Cosby, sem þú leist mjög upp til. En hann olli vonbrigðum: hann var seinn, fjarlægur og ósamvinnuþýður. Hefur þú upplifað einstaklega erfiðar eða óþægilegar ljósmyndatökur?

Þessi taka með Bill Cosby er ofarlega á listanum. Ég hafði verið mjög spennt að hitta hann, goðsögnina Bill Cosby. Ég var mikill aðdáandi „The Cosby Show.“ En svo var hann mjög ósamvinnuþýður og ókurteis. Við biðum eftir honum í fjóra klukkutíma á meðan hann spjallaði við vini sína og hunsaði okkur. Þetta voru tökur fyrir þátt sem hann var að leika í, fyrir sjónvarpsstöðina Nickolodeon. Þetta voru rosaleg vonbrigði. Hafandi sagt þetta, þá voru margar tökur sem mér var sagt að yrðu erfiðar – tökur með röppurum eins og NWA og Public Enemy; stjórnmálamönnum eins og Madelein Albright; íþróttastjörnum eins og Derek Jeter og Martina Navratilova; og stórleikurum eins og Kevin Bacon – sem allar voru mjög þægilegar og auðveldar. Ég geri mitt besta til þess að vera virðingarfull í garð allra sem ég mynda og það gengur yfirleitt vel.

Í gegnum ævina þá hefur þú tekið ljósmyndir af meðlimum mótórhjólagengja og krimmum. Hefur þú einhvern tímann verið hrædd á meðan tökum stóð yfir?

Já. Einu sinni voru vinir mínir að skjóta heimildarmynd um ólöglegan slagsmálaklúbb kvenna í undirheimum Brownsville, New York. Þessi klúbbur var fjármagnaður af dópsölum. Þeir báðu mig um að taka nokkrar ljósmyndir. Allt í einu vorum við læst inni í bílakjallara í Brownsville og þarna voru pitbull hundar og ofbeldismenn sem hvöttu berhnefaða kvenmenn til dáða í hringnum. Ég óttaðist það að einhver mundi draga fram byssu ef að úrslitin væru óhentug.

Allt í einu vorum við læst inni í bílakjallara í Brownsville og þarna voru pitbull hundar og ofbeldismenn sem hvöttu berhnefaða kvenmenn til dáða í hringnum.“

Þú tókst æðislega mynd af Busta Rhymes í mintugrænum jogginggalla. Var Busta ekki hress?

Hann var ótrúlega skemmtilegur. Hann var meðlimur hljómsveitarinnar „Leaders of the New School“ á þessum tíma. Ég var að skjóta myndir af honum fyrir plötuumslagið.

Er einhver einn, djúpstæður sannleikur sem þú hefur uppgötvað um ljósmyndalistina frá því að þú byrjaðir?

Ljósmyndirnar mínar eru samvinna á milli mín og þeirra sem ég er að ljósmynda. Ég sýni ávallt virðingu. Ég er aldrei of ýtin. Ef einhverjum finnst óþægilegt að stilla sér upp á einhvern ákveðinn hátt þá þrýsti ég ekki á viðkomandi. Þessar reglur hafa virkað ágætlega fyrir mig.

Ljósmyndirnar mínar eru samvinna á milli mín og þeirra sem ég er að ljósmynda.“

Þú ert á leiðinni til Íslands í tilefni sýningarinnar „HIP HOP MASHUP / World Tour Exhibit.“ Getur þú sagt lesendum SKE aðeins frá þessari sýningu?

Þarna verða ljósmyndir af guðfeðrum Hip-Hop, allt frá Run DMC og Slick Rick – goðsögnum frá níunda áratugnum. Svo verða til sýnis ljósmyndir af pönkurum frá Bretlandi, allt frá the Clash og Boy George. Svo er það Mashup hluti sýningarinnar sem er samansafn ljósmynda sem Cey Adams tók saman. Hann fékk nokkra graffara til þess að endurgera nokkrar ljósmyndir eftir mig – „Old School Hip-Hop“ ljósmyndir. Svo kemur Cey Adams (sem er listamaður og fyrrum listrænn stjórnandi plötufyrirtækisins Def Jam) með til að sýna nokkur málverk, sem og Mashup málverk, eftir sig í galleríinu.

Verður þetta í fyrsta sinn sem þú heimsækir Ísland?

Já.

Ertu búin að skipuleggja eitthvað sérstakt?

Ég vonast eftir því að taka myndir af hljómsveitum sem spila á Airwaves hátíðinni. Svo verð ég með eina eða tvær vinnustofur. Ég stefni að sjálfsögðu að því að sjá eins mikið af Íslandi eins og ég get.

Hefur þú einhver ráð handa upprennandi ljósmyndurum?

Fylgdu eigin sannfæringu og ástríðu og taktu myndir að því sem þú elskar.

Eitthvað að lokum?

Ég hlakka mikið til að heimsækja Ísland!

Auglýsing

læk

Instagram