Bareigendur orðnir óþreyjufullir:„Við sjáum ekki annað í stöðunni“

Reykjavíkurborg, Almannavarnir og lögreglan hafa fengið sent erindi frá hópi bareiganda í miðborg Reykjavíkur þar sem farið er fram á að fá að opna 25. maí.

Segjast þeir sjá sig tilneydda til að opna þrátt fyrir að ekki fáist leyfi. Hljóðið í þeim er orðið þungt enda hafa barir ekki verið opnir í rúma tvo mánuði.

„Auðvitað viljum við ekki brjóta lög og reglur en við sjáum ekki annað í stöðunni. Það er betra að selja kannski fyrir milljón og borga þá sekt fyrir 500 þúsund ef til þess kemur,“ segir Arnar Þór Gíslason sem rekur nokkra bari í miðborginni, í samtali við Rúv

„Okkur finnst verið að mismuna fyrirtækjum með því að leyfa veitingastöðum að hafa opið en börum ekki. Það eina sem við förum fram á er að fá að opna og hafa opið til 23 líkt og veitingastaðir svo við getum haldið okkar rekstri gangandi. Við myndum að sjálfsögðu virða allar fjöldatakmarkanir og fjarlægðarmörk. En við verðum að fá einhverjar tekjur til að borga laun og leigu. Við erum algjörlega tekjulaus,“ segir Arnar Þór.

„Það er farið að fjúka í bar- og pöbbaeigendur. Veitingastaðir mega hafa opið og þeir eru troðfullir. Fólk er að hrúgast inn á þessa staði til að fá sér drykki og þá væri auðvitað miklu betra að hafa barina opna til að dreifa úr fjöldanum.“

Erindi bareigandanna hefur ekki verið svarað en Arnar vonar að málið verði tekið alvarlega og niðurstaða fáist í málið sem fyrst.

Auglýsing

læk

Instagram