BIRTA – Verðlaun fyrir Besta leikkonan í hópi ungmenna!

Kristín Erla Pétursdóttir 12 ára aðalleikkona í kvikmyndinni Birtu eftir Braga Þór Hinriksson var valin besta leikkonan í hópi ungmenna þvert á aldursflokka frá 7-18 ára á Schlingel í Chemnitz í Þýskalandi, einni af stærstu barnakvikmyndahátíð í Evrópu.

Kristín þótti bera af sem leikkona af u.þ.b. 200 kvikmyndum sem sýndar voru á hátíðinni þetta árið. Dómnefndin á Schlingel taldi leik hennar eftirminnilegan og áhrifaríkan þar sem hún þótti fara á afar trúverðugan hátt með hlutverk sitt. 

Kristín er í Kvíslarskóla í Mosfellsbæ. Hún hefur leikið umtalsvert síðastliðin ár og meðal annars tekið þátt í Stundinni okkar. Hún sjálf segist ekki hafa búist við þessu og tíðindin hafi komið verulega á óvart þegar nafn hennar var kallað upp.

Bragi Þór Hinriksson leikstjóri segir þetta innilega verðskulduð verðlaun fyrir Kristínu Erlu, hún hafi sýnt þvílíka næmni og fagmennsku við leik sinn í Birtu, oft við krefjandi aðstæður. Kristín hafi haft hæfileika til að sýna allan tilfinningaskalann í  myndinni sem að hans viti hafi verið fordæmalaust.

„Ég er einstaklega stoltur af Kristínu sem leikstjóri og einn framleiðenda myndarinnar. Það er í raun ekki hægt að óska eftir betra hrósi. Við hefðum einnig ekki getað verið heppnari með þessi verðlaun í þeirri hörðu samkeppni sem blasti við okkur.  Ég held að allir krakkar á Íslandi geti fundið eitthvað í sjálfum sér við að horfa á leik Kristínar og ég hlakka til að sýna þeim myndina,“ segir Bragi að lokum. 

Kvikmyndin Birta er fyrsta leikna barna- og fjölskyldumyndin hér á landi síðan Víti í Vestmannaeyjum var frumsýnd árið 2018, sem einnig var leikstýrt af Braga Þór Hinrikssyni. Birta verður frumsýnd í bíóhúsum Senu, Smárabíó, Háskólabíó, Laugarásbíó og Borgabíó á Akureyri 5.nóvember nk. Myndin verður svo sýnd á Síminn Premium 25. nóvember samhliða sýningum í bíóhúsum.    

Auglýsing

læk

Instagram