Björgvin Páll:,,Að vera með Kára Stefánsson á bakvið mig gefur mér byr undir báða vængi“

Hand­bolta­landsliðsmaður­inn Björg­vin Páll Gúst­avs­son er nýjasti gesturinn í Podcasti Sölva Tryggvasonar. Sölvi skrifaði fyrir ári síðan uppgjörsbók Björgvins, þar sem Björgvin lýsti andlegu og líkamlegu hruni sínu, þar sem hann meðal annars fékk ofsakvíðakast á miðju stórmóti í handbolta. Björgvin hefur undanfarið eitt og hálft ár unnið hörðum höndum að því að koma líkamskerfinu sínu í betra stand. Hann var í mörg ár með allt of lágt testósterón, sem hann tengir við sístreituástand til margra ára. Eftir að hafa lagt allt í sölurnar við að skilja ástand sitt og koma því í lag segist Björgvin sjá gríðarlegan mun og hann segist meðal annars hafa tvöfaldað testósterón-magnið í líkama sínum með öndunaræfingum, breyttri næringu og betri hvíld.

Björgvin og eig­in­kona hans Kar­en Ein­ars­dótt­ir, eiga von á sínu fjórða barni.

Björg­vin tengir þetta beint við þá vinnu sem hann hefur unnið á líkamsstarfsemi sinni, enda er þetta í fyrsta sinn sem Karen er ólétt án þess að það þurfi aðstoð til.

,,Svo kemur sá tímapunktur að konan mín verður ólétt og þá áttar maður sig á því að þetta hefur allt áhrif. Við eigum þrjú börn núna eftir níu meðferðir, en svo kemur eitt bara óvænt. Ég hef verið í blóðprufum alveg síðan að ég hrundi og nú sé ég breytingarnar þar og þetta ,,súmmerar“ í raun mjög fallega upp mitt ferðalag.“

Björgvin hefur síðastliðið ár unnið að því að hanna leiðir til að leggja sitt lóð á vogarskálarnar og fara fara inn í grunnskóla landsins og hefur fengið Kára Stefánsson í lið með sér.

,,Hann er svona minn stuðningsaðili í þessu öllu saman. Velferðasjóður barna er að koma að þessu og konan hans er með yfirumsjón yfir því….þegar Valgerður og Kári hafa trú á þér, þá gefur það þér ansi mikinn kraft, þar sem þau eru miklar fyrirmyndir fyrir mér. Þannig að það er ekkert sem stoppar mig í þessu núna. Það er bara spurning um hversu stórt þetta verkefni verður í kerfinu. Ég er búinn að funda með menntamálaráðherra og þetta er miklu meira en bara ég að blaðra um mína forsögu. Þetta er verkefni sem ég held að sé mjög mikilvægt fyrir krakkana. Við vorum að fá niðurstöður úr Pisa könnunum fyrir Covid sem voru ekki góðar og svo skellur Covid á og þá gleymdust börnin svolítið og það eiga eftir að eiga sér stað afleiðingar af því.“

Björgvin segir að Kári sé með risastórt hjarta og að það gefi honum byr undir báða vængi að fá aðstoð frá honum. Vegferð Björgvins hefur valdið því að hann dreymir um að hjálpa fólki sem er í vandræðum og einn af þeim hópum sem hann vonast til að geta aðstoðað eru þeir sem eru í fangelsum landsins.

,,Tolli Morthens er að gera eitt fallegasta mót sem til er með sínum fangapælingum og mig langar að komast inn í það með honum, af því að það er í raun staðurinn þar sem við þurfum að hjálpa hve mest. Það er hægt að snúa öllum til betri vegar…..við megum ekki gleyma því að allir eru einhvern vegin út af einhverju,“ segir Björgvin og bætir við:

,,Það þarf bara að fara rétt að þessu og nota rétt tól…ég veit ekki hversu mikið fangarnir munu hlusta á mig, en ég er allavega með tattú,“ segir Björgvin, sem leggur áherslu á að það sé eitt það allra mikilvægasta að hjálpa þeim sem hafa villst af braut.

Þáttinn í heild má nálgast hér að neðan:

Auglýsing

læk

Instagram