Dansarinn með Daníel Ágúst, Bomarz og Doctor Victor – MYNDBAND!

Glæpasagan Dansarinn eftir Óskar Guðmundsson er komin út sem hljóðbók, rafbók og innbundin bók. Storytel fór á þá leið að semja titillag fyrir bókina í samstarfi við tónlistarmennina Daníel Ágúst, Bomarz og Doctor Victor. Lagið Dansarinn er nú einnig aðgengilegt á Spotify.

Einnig hefur verið framleitt tónlistarmyndband sem tengist bókinni beint en ekki er vitað til þess að þessi leið hafi verið farin áður, að gefa út lag samhliða útgáfu nýrrar skáldsögu. Það eru því spennandi tímar framundan sem sýna jafnframt hvaða víðtæku möguleika hljóðbókar formið hefur uppá að bjóða.

Skáldsagan er eftir verðlaunahöfundinn Óskar Guðmundsson en hann sló í gegn með fyrstu bók sinni Hilmu og á eftir fylgdu bækurnar Blóðengill og Boðorðin. Þær hlutu allar frábærar viðtökur lesenda og gagnrýnenda. Hilma hlaut Blóðdropann sem besta glæpasaga ársins og var tilnefnd til Glerlykilsins sem besta norræna glæpasagan.

Bókin er komin út á prenti og fæst í öllum helstu bókabúðum landsins. Hún er aðgengileg sem hljóðbók á sama tíma hjá Storytel en Daníel Ágúst er einnig lesari bókarinnar.

„Ferlið í skrifunum á Dansaranum og allri þeirri hugmyndavinnu sem fylgdi í kjölfarið hefur verið með ólíkindum skemmtilegt og lifandi. Fagmennska, hugmynda gleði og kraftur hefur ráðið ríkjum og það hafa verið forréttindi að vinna með öllu því skapandi fólki sem starfar hjá Storytel,“ segir Óskar Guðmundsson höfundur bókarinnar.

Sagan fjallar um Tony, ungan mann sem hefur alltaf verið utanveltu í lífinu. Hann elst upp hjá sjúkri og drykkfelldri móður sem var á sínum tíma helsta vonarstjarna Íslands í ballett. Þegar draumar hennar um frama í dans heiminum verða að engu reynir hún að færa þá yfir á son sinn með grimmilegum aðferðum – og skelfilegum afleiðingum.

Í Öskjuhlíðinni finnst lík sem hefur greinilega legið þar lengi. Rannsóknarlögreglumaðurinn Valdimar fær málið til skoðunar og fær til liðs við sig Ylfu sem er að stíga sín fyrstu skref innan lögreglunnar. Fljótlega kemur í ljós að hrottalegur morðingi gengur laus og að ekki er allt sem sýnist.

Auglýsing

læk

Instagram