„Ég verð seint talin sú þolinmóðasta þegar kemur að framkvæmdum“

Tinna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Dineout, er mikill fagurkeri. Húnn hefur alltaf haft áhuga á heimili og hönnun og fékk mikla útrás fyrir það áhugamál þegar hún var að koma sér fyrir í nýju þakíbúðinni sinni í Borgartúninu. Tinna var tekin á tal í föstum lið Vikunnar og svaraði þar spurningum á heimilislegu nótunum.

Stærð og byggingarár íbúðar? „Íbúðin er þakíbúð á efstu hæð hússins sem byggt var árið 2019. Hún er rúmlega 200 fm. auk 180 fm. þaksvala sem fer allan hringinn í kring – þetta er einskonar einbýli á þaki hússins. Íbúðin var fokheld sem gerði verkefnið skemmtilegt og krefjandi.“

Hvaða einum hlut myndirðu bjarga úr brennandi húsi? Hvers vegna? „Ég hef aldrei hugsað út í það en þeir hlutir sem skipta mig mestu máli eru þeir sem hafa tilfinningalegt gildi, aðrir veraldlegir hlutir skipta engu máli. Ég myndi líklega bjarga hring sem Inga amma mín átti og gaf mér. Ég er alltaf með armband á mér sem Steina amma mín átti og vakna stundum á næturnar og athuga hvort það sé ekki örugglega enn þá á mér en ég hef ekki tekið það af mér í 12 ár. Ef ég myndi leyfa mér að vera hégómafull í brunanum myndi ég líklega bjarga verkinu eftir Loja en ég flaug til Danmerkur til að verða mér út verkið. Eða þá nýja litríka Louis Vuitton veskinu sem ég gaf sjálfri mér í sumar því það var og verður til í mjög takmörkuðu upplagi.“

Hvaða rými er í mestri notkun? „Eldhúsið og stofan er er í raun eitt og sama rýmið, það býður upp á stórfenglegt útsýni til allra átta. Það er líklega langmest notaða rýmið. Það er fátt meira kósý en að njóta morgunbollans með útsýni yfir hafið og fjöllin eða kvöldstundir með kveikt á arninum og kertum. Það er lifandi listaverk á öllum tímum sólarhringsins.“

Ef þú ættir að gefa eitt gott ráð fyrir fólk sem er að koma sér fyrir á nýju heimili, hvaða ráð væri það?
„Flýta sér hægt og reyna helst að „upplifa“ rýmið áður en ákvarðanir er teknar. Ef maður er óviss eða óöruggur með einhverjar ákvarðanir er gott að tala við fagaðila og fá ráð því það eru svo sannarlega til reynsluboltar á öllum sviðum. Það er þó varhugavert að fá mörg álit því það getur ruglað mann í rýminu. Maður þarf að geta greint á milli og tekið svo upplýsta ákvörðun sem byggir á eigin smekk og innsæi. Ég verð seint talin sú þolinmóðasta þegar kemur að framkvæmdum og vill helst keyra hlutina í gegn og klára eins fljótt og mögulegt er. Íbúðin var vissulega fokheld og því frekar krefjandi að upplifa rýmið af einhverri alvöru en þá reynir klárlega á ímyndunaraflið og sköpunarkraftinn.

„Ég verð seint talin sú þolinmóðasta þegar kemur að framkvæmdum og vill helst keyra hlutina í gegn og klára.“

Mér finnst svo mikilvægt að gleyma ekki að hugsa út í að skapa hlýleika og heild. Heimilið á að vera griðastaður og veita vellíðan. Fallegar gólfmottur, listaverk á veggjum og lampar finnst mér stundum vanmetinn þáttur en þessi atriði gera kraftaverk. Ég er mikið fyrir jarðliti þegar kemur að húsgögnum, gardínum og slíku en leyfi mér að poppa rýmin upp með litum í listaverkum og skúlptúrum á veggjunum. Þá skiptir gríðarlega miklu máli hvernig uppröðun á listaverkum er og ég er svo heppin að eiga góða vinkonu sem tekur að sér að hjálpa fólki við slíkt. Hún heitir Olga Lilja og er einn af eigendum Y gallery sem selur einnig svo falleg verk.“

Áttu þér eitthvað draumahúsgagn? „Ég get eiginlega ekki sagt það. Mér finnst öll rými heimilisins orðin svo falleg eins og þau eru og með þeim húsgögnum sem ég er með í dag. Smekkurinn minn hefur breyst mikið síðustu ár og í dag einkennist hann af rólegum jarðlitum og hlýleika. Verslunin Heimili og hugmyndir er í miklu uppáhaldi og mér finnst allt þar inni er svo hlýlegt og fallegt. Svo eru stelpurnar sem vinna þar svo æðislegar og hjálpsamar. Ef ég ætti samt að velja eitt húsgagn sem mig langar í núna þá væri það líklega fallegur stóll í hornið í svefnherberginu. Mér finnst til dæmis The Tired Man sem hannaður er af Flemming Lassen ekkert smá fallegur hægindastóll með skammel.“

Ef þú yrðir að mála allt rýmið í einum lit, hvaða litur yrði fyrir valinu? „Ég verð að vera hreinskilin og segja að ég gæti ekki verið ánægðari með litinn sem er núna á allri íbúðinni. Við tókum 22 litaprufur (brúnar og gráar) í Slippfélaginu og lékum okkur að blanda saman ýmsum litum. Útkoman sem okkur fannst flottust er ljósbrúngrá. Þeir hjá Slippfélaginu gátu skannað litinn og búið hann sérstaklega til. Mér skilst að hann sé kominn á skrá hjá þeim sem er svakalega skemmtilegt. Liturinn er mjög hlýr og fallegur og breytilegur eftir birtu. Hann er á öllum veggjum og loftum en einn veggur var svo málaður í dekkri útgáfu af sama lit. Sá veggur er „collage“-veggur með nokkrum vel völdum listaverkum. Mér finnst listaverkin njóta sín betur og veggurinn meira áberandi í þessum dekkri lit.“

Umsjón/ Guðný Hrönn
Myndir/ Hallur Karlsson

Auglýsing

læk

Instagram