https://www.xxzza1.com

„Enginn þorir að segja sína skoðun upphátt“

Matarbloggarinn og fagurkerinn María Gomez fékk sumarvinnu sem flugfreyja síðastliðið sumar. Hún hafði sótt um starfið 2017 og farið á námskeið hjá flugfélaginu árið 2019 en sökum alls konar ástæðna, eins og kyrrsetningar á MAX-vélum félagsins og svo COVID, byrjaði hún ekki að fljúga fyrr en á þessu ári.

María ákvað að halda ekki áfram sem flugfreyja þótt það stæði henni til boða en uppsögn hennar átti eftir að draga dilk á eftir sér. Hún ætlaði að segja fylgjendum sínum á Instagram frá ástæðu þess að hún ákvað að hætta í fluginu og bauð þeim að spyrja sig út í starfið en við það opnuðust flóðgáttir þar sem margir fóru að segja frá sinni reynslu af því að starfa hjá flugfélaginu.

Satt að segja líður mér svolítið eins og ég hafi verið í ofbeldissambandi með narsissista eftir þessa mánuði hjá Icelandair,“ segir María. „Fólki er látið líða eins og það sé svo sérstakt að hafa fengið vinnu þarna, eins og það sé útvalið, tekið fram yfir mörg hundruð umsækjendur en ef fólk er ekki tilbúið til að láta hvað sem er yfir sig ganga eða hefur skoðanir á hlutunum þá eru margir sem bíði eftir starfinu manns. Ég vil samt ítreka að ég er bara að tala út frá minni upplifun og er ekki að gera lítið úr þeim sem vinna þetta starf. Þetta var líka aldrei ádeila á samstarfsfólkið, flugliðana, sem er frábært fólk, eða starfið sem getur verið mjög skemmtilegt þótt það geti líka verið mjög krefjandi en jafnframt einhæft á köflum. Ég vildi bara segja frá minni upplifun, hvers vegna ég ákvað að halda ekki áfram sem flugfreyja og þess vegna ákvað ég að setja spurningabox á Instagram þar sem fólk gat spurt mig að hverju sem var í sambandi við starfið. Þá bara opnuðust flóðgáttir og mér bárust ótal margar sögur frá fólki sem hafði upplifað sömu hluti, bæði fólki sem er hætt og líka fólki sem vinnur þarna enn.

Margar sögur voru ljótar og þær var erfitt að lesa, margar fengu að koma fram í dagsljósið en það var líka oft sem fólk bað mig um að birta ekki sína sögu því það væri hægt að tengja það við það sem sýnir vel hvað fólk er hrætt. Ég fann það líka þegar ég var að fljúga að fólk var að hvíslast á um alls konar hluti úr starfsumhverfinu og fólk trúði mér fyrir ýmsu í vinnunni. Enginn þorir að segja sína skoðun upphátt þótt þeir séu leiðir yfir því hvernig fyrirtækið hefur komið fram við þessa stétt en ég tók margar sögurnar mjög nærri mér.“

Sá að eitthvað var mikið breytt og andrúmsloftið skrýtið

María segist upphaflega hafa sótt um sem flugfreyja hjá Icelandair árið 2017 og farið í atvinnuviðtal árið 2018 til að komast á námskeið fyrir sumarið 2019. „Þetta var í raun fimm ára ferli og loks þegar ég kláraði þjálfunina voru allar MAX-vélarnar kyrrsettar þannig að við sem vorum á síðustum þremur námskeiðunum komumst ekki inn á línuna, eins og það er kallað. Svo fengum við tölvupóst 2020 um að við værum komin inn, fengum einkennisbúning og allt klárt en tveimur vikum seinna skall fyrsta COVID-tilfellið á hér á Íslandi og við vitum nú öll söguna eftir það,“ segir hún og hlær létt.

„En þegar að því kom að við áttum loks að fara að fljúga urðum við að fara í gegnum alla þjálfun aftur og þá sá ég að eitthvað var mikið breytt frá því á námskeiðinu 2019, andrúmsloftið var eitthvað skrýtið en ég hugsaði með mér að það væri líklega bara af því að fyrirtækið væri að komast í gang aftur eftir COVID. Ég man að það kom tvisvar fyrir á námskeiðinu að ég hugsaði að mig langaði ekki að halda þessu áfram en í stað þess að hlusta á innsæið hlustaði ég á fólkið sem hvatti mig áfram og sagði mér að gefa þessu tækifæri, ég væri nú komin þetta langt og skyldi prófa áður en ég lokaði þessum dyrum.“

Hún segist þó strax hafa fundið þegar hún byrjaði að fljúga að eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera. „Í hverju einasta flugi heyrði ég flugliða, bæði fólk með margra ára reynslu og nýliða, tala um að þeim liði illa, þetta og hitt væri ekki í lagi og svo framvegis. Ég heyrði af alls konar framkomu yfirmanna við starfsfólkið og mér fannst greinilegt að fólk væri hrætt. Það var líka búið að traðka á því í kjarabaráttunni árið 2020 og fólk talaði m.a. um það hvernig flugmönnum var egnt gegn flugfreyjum og áttu að fara að ganga í þeirra störf í kjarabaráttunni, fólki var sagt upp í miðri baráttu og forstjórinn sendi prívat tölvupósta á þá sem voru að berjast í kjaradeilunni. Síðan var manneskjan sem fór hvað harðast gegn flugfreyjunum sett yfir flugfreyjurnar, sem forstöðumaður flugfreyja og -þjóna hjá Icelandair. Þetta er svo galið í alla staði,“ segir María og hristir höfuðið líkt og í vantrú. „Ég skynjaði það fljótt að það var best að hafa sig hægan, betra að þegja en segja, og ef maður vildi halda starfinu og eiga einhverja möguleika til að fá að þróast og ná lengra þyrfti maður að standa og sitja eins og stjórarnir vildu.“

Þetta er brot úr lengra viðtali Vikunnar en það er að finna í heild sinni á vef Birtings.

 

Texti: Guðrún Óla Jónsdóttir
Myndir: Hallur Karlsson

 

Auglýsing

læk

Instagram