Faraldur ópíóðanotkunar geisar á Íslandi og er alvarlegri en nokkru sinni fyrr: „Á sér ekki hliðstæðu við þau lönd sem við berum okkur við.“ 

Alvarlegur faraldur ópíóðanotkunar geisar á Íslandi og er alvarlegri en nokkru sinni hefur áður sést hér á landi. „Áreiðanlegar upplýsingar segja að rúmlega 30 ungmenni hafi látist bara á þessu ári, sem á sér ekki hliðstæðu við þau lönd sem við berum okkur við.“  Þetta kemur fram í umsögn Berglindar Gunnarsdóttur Straumberg,  framkvæmdastjóra Foreldrahúss, í umsögn hennar til Fjárlaganefndar.

Foreldrahús var stofnað fyrir 37 árum en um er að ræða eina sértæka úræðið á Íslandi sem tekur á áfengis- og vímuefnavanda unglinga og freistar þess að styðja og valdefla forelda sem eiga börn í klóm fíknar. Í umsögn Berglindar kemur fram að komum í Foreldrahús hefur fjölgað mikið undanfarin ár. Árið 2022 voru 3.476 skráðar komur en til samanburðar voru þær 3.242 árið 2021, 2.552 árið 2020 og 2.410 árið 2019.

Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, óttast að metfjöldi falli frá vegna fíknar á þessu ári. Hún fagnar yfirlýsingu Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra um að skera upp herör gegn ópíóíðafaraldri.

„Við ópíóíðafíkn höfum við gagnreynd lyf sem ráðlagða lyfjameðferð, það er ekki til við öðrum efnum.“

Hins vegar vanti fjármagn. „SÁÁ er með samning við ríkið um 90 manns en í dag þiggja 300 manns þessa meðferð.“ SÁÁ hafi ítrekað bent á þörfina en ekki haft erindi sem erfiði. Hún vonar að það breytist eftir yfirlýsingu ráðherra.

„Við á Vogi erum ekki með fullnýttan spítala því við höfum ekki fjármögnun til þess. Við getum gert miklu meira og viljum gera miklu meira.“

Styrkja verkefni sem vinna gegn ópíóíðafíkn

Nú hefur heilbrigðisráðuneytið ákveðið að auglýsa styrki til verkefna sem snúa að því að vinna gegn fíknisjúkdómum. Í ár verður sérstök áhersla lögð á að styrkja verkefni sem vinna gegn ópíóíðafíkn.

Auglýst er eftir umsóknum frá frjálsum félagasamtökum um styrki til afmarkaðra verkefna sem hafa það markmið að vinna gegn fíknisjúkdómum með áherslu á ópíóíðafíkn. Styrkupphæð til hvers verkefnis getur verið allt að 10 milljónir en alls eru 30 milljónir til úthlutunar.

Tilgangur styrkveitingar er að styðja við verkefni á sviði heilsueflingar og forvarna sem vinna gegn fíknisjúkdómum með áherslu á ópíóíðafíkn. Þar með talið eru verkefni tengd skaðaminnkun og snemmtækum inngripum.

Mat á styrkhæfni byggir á að verkefnin byggi á faglegum grunni, hafi skýr raunhæf markmið tengd því að vinna gegn fíknisjúkdómum með áherslu á ópíóíðafíkn, hafi skýrt upphaf og endi og árangur þeirra sé metinn.

Í umsókninni þarf að koma fram:

  • Upplýsingar um starfsemi og meginmarkmið félagasamtaka.
  • Nákvæm lýsing á verkefninu og markmiðum þess.
  • Rökstuðningur fyrir því hvernig verkefninu er ætlað að vinna gegn fíknisjúkdómum með áherslu á ópíóíðafíkn.
  • Upplýsingar um framkvæmd árangursmats.
  • Tíma- og verkáætlun.
  • Kostnaðaráætlun.
  • Upplýsingar um samstarfsaðila ef við á.
  • Upplýsingar um aðra styrki sem fengist hafa til verkefnisins.

Umsóknarfrestur er til 27. nóvember 2023. Styrkir verða veittir í desember 2023.

Umsóknir með umbeðnum upplýsingum skulu sendar á hrn@hrn.is

Umsókn sem berst eftir að umsóknarfresti er lokið verður ekki tekin til umfjöllunar.

Ekki verður tekið við umsóknum um rekstrarstyrki.

 

Auglýsing

læk

Instagram