Fastir liðir eins og venjulega

Annað kvöld verður fyrsti þáttur gamanþáttaseríunnar Fastir liðir eins og venjulega endursýndur á RÚV

Handritið af þáttunum er skrifað af leikkonunum Eddu Björgvins og Helgu Thorberg en Gísli Rúnar leikstýrði. Í þáttunum fylgjumst við með nokkrum pörum sem búa í raðhúsi og sjá karlarnir um heimilisverkin á meðan konurnar eru útivinnandi.

„Við skrifuðum bara eins og kynjahlutverkin væru akkúrat öfugt og hefðu aldrei verið öðruvísi. Karlarnir voru annað hvort heima eða nýfarnir að brjótast út af heimilunum,“ sagði Edda Björgvins í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

„Þetta hefði þótt vera dólgafemínismi ef einhver aulinn hefði verið búinn að ulla út því orði, sem er náttúrulega svo heimskulegt og ljótt orð,“ segir hún. „Ég hef notað húmor til að koma því á framfæri sem ég vil sjá breytast og allt sem hefur pirrað mig í gegnum tíðina, öll kúgun, ofbeldi og pólitískt bull. Ég nota þessa leið, að draga upp skoplega mynd af því, og þarna vorum við að gera það.“

Það eru fjölda mörg ár síðan þættirnir voru sýndir síðast og segist Edda spennt að rifja þá upp með landsmönnum.

„Ég hef ekki séð þá í mörg ár en ég hlakka svo til, sérstaklega að sjá þessa barnungu gullfallegu leikara, sem myndu í dag vera jafn fallegir og góðir, en ekki jafn barnungir.“

Þetta kemur fram á vef Rúv

Auglýsing

læk

Instagram