„Twitter hefur ekki skilað gríðarlega miklum hagnaði“

„Við sjáum þessa stóru miðla þróast í ýmsar áttir. Sumir hafa valið að taka alvarlega reglur sem ýmis ríki hafa sett. Aðrir hafa valið að fara aðrar leiðir. Það sem ég held að eigi eftir að ráða úrslitum um hvernig þetta eigi eftir að þróast eru viðbrögð notenda Twitter.“

Svo mælir María Rún Bjarnadóttir, doktor í internet- og mannréttindalögfræði og varaformaður fjölmiðlanefndar í samtali við RÚV. Stjórn Twitter hefur samþykkt 44 milljarða dala kauptilboð Musk, sem nemur um 5.700 milljörðum króna. Það hafi vakið athygli hversu fljótt hafi náðst samstaða meðal Evrópuþjóða um nýja Evrópulöggjöf sem verndar notendur samfélagsmiðla gegn hatursorðræðu, röngum upplýsingum og öðru skaðlegu efni.

María Rún efast um að Musk hrindi í framkvæmd áformum sínum um að losa hömlur á Twitter þannig að tjáning geti verið óheft og að útrýma reikningum gervimenna. Mannréttindasamtök hafa lýst áhyggjum af áformum Musk og Evrópusambandið minnti hann í dag á að hann yrði að fara að Evrópulöggjöf.

„Umfang miðilsins, það hversu margir notendur eru, það hefur mikil áhrif á hvernig þessar nýju reglur frá Evrópusambandinu eiga eftir að gilda fyrir mismunandi miðla. Ekki síður á það eftir að hafa áhrif á tekjumódelið hjá þessum miðli. Ef notendum fækkar verulega getur maður sett spurningarmerki við hversu góð fjárfesting það er hjá Musk að kaupa Twitter.“

Þegar spurð að því hvort vald hins almenna notanda verði það sem ræður úrslitum um framhaldið segir María að það eigi eftir að vera gríðarlega mikilvægt ekki síst vegna þess að það hefur svo mikil áhrif á tekjumódelið.

„Twitter hefur ekki skilað gríðarlega miklum hagnaði. Það eru fyrst og fremst auglýsingatekjur. Ef hann ætlar að stíga svona hart inn gagnvart gervimennum og heimila engum að nota Twitter nema það sé raunverulegur notandi á bak við, þá held ég að það eigi eftir að hafa mikil áhrif á tekjumódelið. Og ef óánægðir notendur hætta, þá efast ég um að hann græði mikið á þessu,“ segir María Rún.

Auglýsing

læk

Instagram