10 gagnlegar uppeldisábendingar frá reyndum fjölskylduráðgjafa

Þegar þú getur hreinlega ekki lesið fleiri uppeldisbækur eða kenningar er ágætt að skima yfir það sem reynst hefur öðrum foreldrum best. Hér er rjómi af ráðum og styðjandi staðreyndum sem virkað hafa best fyrir flesta.

#1. Mundu að börn munu haga sér barnalega

Við gleymum því stundum að börn byrja að læra með því að klúðra einhverju. Þau gera mistök. Haga sér barnalega. „Töfrarnir“ eiga sér stað þegar styðjandi uppalandi stígur inn og stýrir barninu í rétta átt. Við foreldrar verðum sannarlega pirruð og óþolinmóð, fáum nóg af væli og mótbárunum frá börnunum okkar en í raun er þessi barnaskapur forritaður í hausunum á þeim. Sá hluti heilans sem ábyrgur er fyrir rökhugsun, skynsemi og sjálfstjórn nær ekki fullum þroska fyrr en á unglingsárum og stundum ekki fyrr en undir tvítugt. Barnaleg hegðun er eðlileg hjá barnalegu fólki með barnalega heila. Sú vísindalega staðreynd ætti að hjálpa okkur að vera þolinmóð og styðjandi þegar börnin okkar gera mistök.

#2. Setjum mörk með virðingu, ekki með gagnrýni

Börnin okkar þurfa að læra bókstaflega allt um heiminn gegnum okkur. Þess vegna þurfum við að setja þeim mörk allan liðlangan daginn. Án markanna fara börnin í algjöra kleinu, upplifa kvíða og stjórnleysi. Mörk er hægt að setja gegnum skammir og gagnrýni en þau er líka hægt að setja í trausti og virðingu. Hugsaðu um hvernig þú vilt að talað sé við þig í vinnunni, og beittu þeim talsmáta í uppeldinu.

#3. Verum meðvituð um þroskastigin þeirra

Hefur þú lent í því að rólyndisbarnið gufar upp og á svæðið mætir andsetið tilfinningabúnt sem stendur á orginu yfir því að vera skilið eftir á leikskólanum? Halló aðskilnaðarkvíði! Börnin okkar þurfa að fara í gegnum hundruði lítilla „breytingaskeiða“, heilbrigð og eðlileg þroskaskref áður en þau fullorðnast. Að vera meðvitaður um þau verkefni barnanna okkar setur óvænta og stundum óþolandi hegðun þeirra í samhengi og eykur líkurnar á því að við sýnum þeim rétt viðbrögð.

#4. Þekktu skapgerð og persónuleika barnsins

Þetta virðist augljóst, en ef við erum meðvituð um persónueiginleikana sem gera barnið okkar einstakt skiljum við betur hvenær og hvernig þau þurfa aðstoð okkar, og hvenær og hvernig þau njóta sín best. Þegar þú veist hvað stuðar barnið þitt verður margt mikilvægt í daglega lífinu auðveldara, til dæmis skipulag háttatímans, heimanámsins eða ferðlagsins.

#5. Gefðu barninu næg færi á að leika sér sjálft

Fæstir fullorðnir eru meðvitaðir um mikilvægi leiksins fyrir þroska barna. Börnin læra um bókstaflega allt í leik og þroska allt sitt í gegnum leik. Það er mikilvægt að dagsskipulagið rúmi algjörlega óstýrðan leiktíma þar sem börnin fá að læra, rannsaka og kynnast veröldinni sinni á sínum eigin forsendum.

#6. Hvenær áttu að tala og hvenær bara að hlusta?

Krakkar eru frábær í að leysa málin sjálf ef við leyfum þeim það. Við elskum þau út af lífinu og viljum þeim allt það besta og því hættir okkur til þess að stökkva til og leysa málin fyrir þau, oft með tilheyrandi fyrirlestrum og gagnrýni. Ef foreldrar sætu frekar á sér og biðu aðeins kæmi það mörgum á óvart hversu flink börnin eru í að finna út úr hlutunum sjálf.

Það að á mann sé hlustað er mjög „heilandi“ og það hjálpar okkur að hugsa hlutina til enda og komast sjálf að niðurstöðu. Börn vilja að á þau sé hlustað og þau vilja mæta skilningi. Alveg eins og við öll.

#7. Gleymum ekki sjálfsmynd okkar, utan barnsins

Sumir foreldrar segja að börnin þeirra séu þeim allt, og það er sannarlega satt þegar kemur að ást okkar og hjartans málum. En í daglega lífinu þörfnumst við líka annarra samskipta. Við þurfum að leggja rækt við vináttu, ástríður og áhugamál sem gera okkur að því sem við erum, sem einstaklingar. Að sinna því getur verið stöðug barátta – kvíðinn yfir tilfinningu þess að börnin geti ekki án okkar verið, eða við ekki án þeirra. En við getum, og verðum að vera án þeirra, til að halda geðheilsunni og forða því að við skikkum börnin okkar til að mæta öllum tilfinningalegu þörfunum okkar.

#8. Það eru verkin sem tala

Það hvernig þú kemur fram við barnið þitt og lifir þínu lífi er mikilvægasti lærdómurinn sem barnið þitt meðtekur. Börn eru stórkostlega athugul og búa yfir meira innsæi en við höldum. Þau eru alltaf að fylgjast með. Það getur valdið okkur óþægindum, en ef við erum meðvituð um það sláum við tvær flugur í einu höggi – við reynum sjálf að standa okkur betur og vera góðar fyrirmyndir og kennum þeim að haga sér í leiðinni.

#9. Það er vænlegast að efla jákvæða hegðun og viðhorf með góðum tengslum, fjöri og sköpunarkrafti

Ótti og stjórnun eru ekki vænlegt veganesti í uppeldi barnanna okkar. Slík tól geta virkað til skamms tíma en þau hjálpa ekki börnunum okkar að læra að taka góðar ákvarðanir eða leysa vandamál. Börn verða að finna að þau séu metin sem manneskjur í samskiptum sínum og þau munu læra að virða aðra og hafa sjálfsöryggi til þess að taka góðar ákvarðanir ef við treystum þeim.

#10. Mótaðu hjarta barnsins, ekki bara hegðun þess

Við fáum á tilfinninguna að markmiðið með uppeldinu sé að framleiða þæg börn. Það getur verið ákjósanlegt fyrir marga foreldra en það er ekki endilega ávísun á hamingjusama og heilbrigða einstaklinga. Ef við hjálpum börnunum okkar að skilja hugsanir sínar og tilfinningar verða þau sterkari og eiga í betri samskiptum. Þau öðlast hæfileika sem munu nýtast þeim allt lífið. Það getur verið erfitt að breyta um aðferðir í uppeldinu, en ef það er sannarlega í þágu barnanna okkar er það alltaf þess virði.

 

Fjölskylduráðgjafinn Angela Pruess tók saman þennan lista yfir mikilvægar staðreyndir og ráð fyrir uppalendur, byggðan á 12 ára reynslu sinni og samskiptum við fjölskyldur. Ráð þessi birtust fyrst á síðunni http://www.parent.co en Pruess heldur einnig úti heimasíðunni http://parentswithconfidence.com/.

 

Auglýsing

læk

Instagram