Hvar er #ábyrgðin?

“Þetta snýst auðvitað ekkert um kvenfrelsi. Þetta snýst um það hvort fóstur eigi einhver réttindi.“ Þetta sagði Brynjar Níelsson í ræðu á Alþingi í umræðu um frumvarp til laga um þungunarrof sem nú hefur verið samþykkt. Umræðan fór hátt og mörg afdráttarlaus ummæli voru látin falla í kommentakerfum, á Alþingi og í umsögnum um frumvarpið. Mikið bar á skoðunum fólks á því hvað leghafar gera við leg sitt, en persónulegar reynslur leghafa hafa ekki farið hátt eða verið hunsaðar.

“Hvar eru vísindin sem gætu reddað málunum og losað okkur við þessar leiðinda Skessur sem ekki vilja unga út?” – kommentakerfi

“Að sýna samkennd og tillitsemi er alltaf gott og gilt, en undir þessum kringumstæðum ætti að minna á að taka ábyrgð á gjörðum sínum og birgja brunninn áður en barnið er dottið ofaní hann.” – kommentakerfi

Ég gæti haldið áfram endalaust að þylja upp ummæli af þessu tagi. Við vinnslu þessarar greinar fór ég í gegnum umsagnir við frumvarpið, stóran hluta af blaðagreinum um frumvarpið og athugasemdir við þær greinar. Ég hélt utan um þau ummæli sem voru skýrust í andstöðu sinni gegn rétti leghafa til að hafa völd yfir eigin líkama. Skjalið sem ég safnaði þeim saman í er rúmar 6 blaðsíður og 4316 orð, fyrir þau sem hafa gaman af tölum. Ummælin komu frá virtum einstaklingum, þjóðþekktum, menntuðum, ómenntuðum, nafnlausum og óþekktum. Fólk af öllum sviðum þjóðfélagsins virðist hafa skoðanir á því hvað leghafar kjósa að gera við leg sitt.

Mikið hefur verið rætt um að axla ábyrgð á gjörðum sínum og einhvern veginn hefur því verið tekið sem gefnu að í öllum tilvikum sé ábyrgasti hluturinn til að gera í þessum aðstæðum að ganga með og fæða barn. Fullt af fólki virðist vita best hvað er öðrum fyrir bestu í þessum efnum. Sama fólk hugsar ekki út í það að til eru margar leiðir til að axla ábyrgð. Leghöfum er treystandi til að vita sjálf hver er ábyrgasta leiðin fyrir þau. Fólk með leg hefur verið sett í annað eða þriðja sæti og enginn virðist tilbúinn til að hlusta á þeirra reynslur.

Þessi umræða einskorðast ekki við Ísland, eins og flestöll ættu að vita. Í Alabama voru nýlega sett lög þar sem þungunarrof eru bönnuð í öllum tilfellum nema þegar heilsu móður er ógnað eða þegar fóstrið telst ekki lífvænlegt. Þetta er allavega andi laganna, en þó ekki bókstafur þeirra. Í lögunum er sérstaklega tekið fram að átt er við fóstur í legi. Þetta þýðir að fóstur sem hefur orðið til við tæknifrjóvgun en er ekki komið í leg er ekki verndað með þessum lögum. Clyde Chambliss, þingmaður Alabama, staðfesti þetta í fyrirspurn frá öðrum þingmanni með því að segja “Egg á rannsóknarstofu á ekki við. Það er ekki í konu. Hún er ekki ólétt”. Það virðist því sanngjarnt að velta því fyrir sér hvað þessu fólki gengur til sem er á móti þungunarrofsaðgerðum. Reyndar sagði sami þingmaður, aðspurður um hvort bannið ætti einnig við um þungun eftir nauðgun, að það væri löglegt að fara í þungunarrof eftir nauðgun, svo lengi sem það er gert áður en leghafi veit af þunguninni. Hvernig það er hægt er sennilega best að Chambliss svari sjálfur, en þetta dæmi undirstrikar þá vanþekkingu sem hefur verið uppi í umræðunni.

“Þetta snýst ekki bara um rétt kvenna. Þetta snýst líka um rétt barnsins til að lifa. Og það þarf nú líka karlmann til að fjrógvun eigi sér stað. Og karlmenn eiga líka hafa eitthvað um þetta að segja , þar sem afkvæmið er þeirra líka.” – kommentakerfi

“Í stað þess að deyða heilbrigð ófædd fóstur/börn, væri ekki hægt að gefa þau til ættleiðingar? Það er sægur fólks sem getur ekki átt börn og borgar fúlgur fjár í tæknifrjóvganir osfrv sem svo oft ganga ekki. Væri ekki hægt að gefa þessum fóstrum líf með því fólki?” – kommentakerfi

Það viðhorf er algengt í þessum ummælum að leghafar eigi bara að bíta á jaxlinn og ganga með barn sem viðkomandi vill ekki eiga í góðgerðastarfsemi fyrir ókunnugt fólk, eða vegna þess að eigandi sæðisins eigi líka rétt til þess að eiga barnið. Sumir hafa líka minnst á ömmur eða aðra ættingja. Fólk virðist halda að það sé bara ekkert mál að ákveða að ganga með barn og gefa það frá sér, eins og það sé ákvörðun með svipaðar afleiðingar og að ákveða hvað verður í matinn. Í mörgum ummælanna sem ég tók saman var einnig minnst á afleiðingar af þungunarrofi, eins og t.d. þunglyndi og ófrjósemi. Í engum ummælanna var minnst á afleiðingar þess að ganga með og fæða barn.

Margar þeirra eru vel þekktar, og jafnvel oft gert lítið úr þeim, eins og þyngdaraukningu og þreytu. Aðrar vel þekktar hliðarverkanir eru svo meðgöngu- og fæðingarþunglyndi, grindargliðnun og meðgöngusykursýki. Margt fólk gerir sér hins vegar ekki grein fyrir því hversu alvarlegar afleiðingar þetta geta verið. Meðgöngusykursýki getur orðið að varanlegri sykursýki eftir meðgöngu. Fólk heldur gjarnan að fæðingarþunglyndi sé eitthvað sem varir í vikur eða mánuði, en áttar sig ekki á því að það getur varað í fleiri ár (30% þeirra sem hafa fengið fæðingarþunglyndi eru enn þunglynd eftir 3 ár). Þyngdaraukning á meðgöngu getur orðið að viðvarandi vandamáli eftir barnsburð. Aðrar hliðarverkanir eru kannski ekki oft ræddar, eins og þvagleki, minnkuð stjórn á hringvöðva, gyllinæð eða stoðkerfisvandamál.

Í raun hefur verið hálfgert tabú að ræða eiginlega allar af þessum hliðarverkunum. Að eignast barn á nefnilega að vera það dásamlegasta sem getur komið fyrir í lífinu. Alveg óháð öllum líkamlegum óþægindum, andlegum erfiðleikum eða félagslegum aðstæðum. Fíklar eiga að læknast umsvifalaust á undraverðan hátt, ungar mæður að geta klárað skóla og fengið draumastarfið, allt með hjálp fjölskyldu sinnar, eiginmaðurinn sem lemur konuna sína á að snarhætta af virðingu fyrir þessu litla undri og allt lífið á að geta aðlagast að þessum nýja veruleika algerlega vandkvæðalaust. Það er sú ímynd sem fólk hefur af barneignum. Fyrir marga nýbakaða foreldra er lífið þó ekki alveg svona einfalt. Að eignast barn lagar engin af þeim undirliggjandi vandamálum sem foreldrarnir eiga við í sínu lífi, þrátt fyrir að það sé auðvitað alveg dásamlegt fyrir marga sem upplifa það.

“Það mun engu máli skipta hversu lengi við velkjumst um með þetta í kerfinu. Það er markmiðið að þetta verði gert og það hefur þessi salur sannarlega sýnt með frábærum húrrahrópum og gleðihljóðum þegar við ætlum að taka hér ákvörðun um það að tuttugu og tveggja vikna gamalt, ófullburða barn verði drepið í móðurkviði. Og ég mun alltaf segja nei!” – Inga Sæland

“Það er fagleg skoðun undirritaðs að það skuli leitast við að láta konur fullklára meðgönguna.” – úr umsögn um frumvarpið.

Sjálf upplifði ég mikið meðgönguþunglyndi. Mér fannst eins og verið væri að nota líkama minn, eins og ég hefði ekki fullt vald yfir honum, og það hjálpaði mér alls ekki þegar fólk kom fram við kúluna framan á mér eins og hún væri almannaeign, eins og ég hefði skyndilega ekkert persónulegt rými, og að hver sem er mætti labba upp að mér og byrja að strjúka mér um magann. Ég valdi ekki að fara í þungunarrof en fyrir mig var ákaflega mikilvægt að vita að ég hefði valið, að þessi ákvörðun væri í mínum höndum. Ég er ánægð með þá ákvörðun sem ég tók og á í dag alveg yndislegt barn. Samt ætla ég aldrei að gera þetta aftur. Tilhugsunin vekur hjá mér svo mikinn ótta að þegar ég sé ólétt fólk úti á götu vorkenni ég þeim, jafnvel þegar ég sé ólétt dýr vorkenni ég því (þó ég elski kettlinga). Ég á erfitt með að óska fólki til hamingju með barn sem er á leiðinni, jafnvel þegar ég veit að það hefur beðið lengi eftir því og ég viti að barnið muni veita mikla gleði. Þessi upplifun af meðgöngu er alveg jafngild og upplifun annarra, þrátt fyrir að það sé ekki vel séð að tala um þetta.

Einmitt vegna þessa vil ég vekja athygli á átaki sem er að fara af stað 13. júní. Átakið heitir #ábyrgðin og gengur út á að gefa fólki rétt á að deila sinni persónulegu reynslu af meðgöngu, barnsburði, þungunarrofi eða fósturmissi. Það er svo margt sem þarf að koma meira fram, bæði svo fólk hætti að gera lítið úr þeirri fórn sem það er að fæða barn inn í þennan heim, og svo að leghafar sem verða óléttir hafi meiri upplýsingar um hvað það þýðir að klára meðgöngu og hvað það þýðir að fara í þungunarrof. Ég leitaði mér allra upplýsinga sem ég gat á meðan ég var ólétt um alla verstu hlutina sem gætu komið fyrir. Það var þó erfitt að finna þessar upplýsingar, því ég þurfti að vaða í gegnum hálft internet af fólki sem sá móðurhlutverkið fyrir sér í rósrauðum bjarma þar sem allir erfiðleikar eru tiltölulega auðveldlega yfirstíganlegir og ekkert getur staðið í vegi fyrir þessari einstöku hamingju. Ég var ekki þannig stödd andlega að ég gæti lesið þannig texta og hefði gjarnan verið til í að geta auðveldlega nálgast ófegraðar lýsingar á þessu. Við bjóðum því öllum sem hafa upplifað meðgöngu, fæðingu, þungunarrof eða fósturmissi að deila sinni upplifun með hashtagginu #ábyrgðin, hvort sem er undir nafni á eigin samfélagsmiðlum eða nafnlaust með því að senda skilaboð á síðuna nafnlausar frásagnir – #ábyrgðin. Tileinkum 13. júní þessum lífsreynslum og ræðum þau sjónarmið sem þurfa að komast í dagsljósið en hafa týnst í umræðunni undanfarið.

Auglýsing

læk

Instagram