Frú Barnaby hvetur til góðverka á aðventunni

Frú Barnaby er hlaðvarp sem þær Auður Lóa Guðnadóttir listamaður og Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir heimspekingur og þýðandi hafa haldið úti síðastliðið ár og hefur það notið geisimikilla vinsælda hjá afmörkuðum hópi samfélagsins. 

Í þáttunum ganga þær undir nöfnunum Lóa og Móa og sem slíkar fjalla þær um samfélagið á gagnrýninn og hispurslausan hátt. Jafnvel sprenghlægilegan. 

Frú Barnaby var hrint úr vör, m.a. til að storka þeim gríðarfjölda karllægra hlaðvarpa sem þá voru að hrannast inn á hlaðvarpsveitur. Í þáttunum kryfja vinkonurnar há- og lágmenningu og annað sem ber hæst á góma í samfélaginu. Hin sívinsæla sjónvarpssería Barnaby ræður gátuna kemur við sögu og þær Lóa og Móa setja á sig Barnabygleraugun til þess að kafa ofan í efnið. Einn af föstum dagskrárliðum Frú Barnaby er svo Díönuhornið þar sem Breska konungsfjölskyldan og Díana eru sett undir mæliker. Hlaðvarpsgerðin er að öllu leyti heimagerð en er það jafnframt heimiliskötturinn Coco sem annast upptökustjórn. Málin eru rædd á afslappaðan hátt yfir tebolla, eða jafnvel einhverju sterkara og áskilja hlaðvarpsgerðarkonurnar sér rétt til að hafa stundum rangt fyrir sér.

,,Hversvegna að segja eitthvað af viti þegar maður getur sleppt því?“

Nú á aðventunni bjóða þær hlustendum að taka þátt í nýjum dagskrárlið, jólakveðjur Frú Barnaby. Hlustendur geta þannig sent kveðjur til vina eða vandamanna í fullkominni andstöðu við kapítalísk gildi. Sendendur kveðjanna eiga nefnilega að greiða fyrir kveðjuna með góðverki og þá jafnvel fleiri en einu. Eða eins og þær Lóa og Móa segja: „Okkur finnst mikilvægt að sýna það og sanna að í góðverkinu býr jólaandinn.“ 

 Hafðu samband við Frú Barnaby á facebook eða Instagram og fáðu þína kveðju lesna í þættinum!

http://frubarnaby.podbean.com/

Auglýsing

læk

Instagram