Iðnþing 2020 – Nýsköpun er leiðin fram á við

Iðnþing Samtaka iðnaðarins verður haldið í Silfurbergi í Hörpu næstkomandi föstudag 18. september kl. 13.00-14.30. Vegna samkomutakmarkana verður Iðnþing að þessu sinni í beinni útsendingu í stað fjölmenns viðburðar. 

Samtök iðnaðarins vilja leggja sitt af mörkum til að hvetja til nýsköpunar á öllum sviðum atvinnulífsins nú þegar þörf er á viðspyrnu í efnahagslífinu. Á Iðnþingi 2020 verður kastljósinu beint að því hvernig við mætum áskorunum um fjölgun nýrra starfa. Þar gegnir nýsköpun veigamiklu hlutverki, hvort heldur er í rótgrónum fyrirtækjum eða nýjum sprotafyrirtækjum. Tækifærin liggja víða og á þinginu verður horft til þess hvernig nýsköpun getur drifið vöxt framtíðar.

Logi Bergmann verður fundarstjóri. Á þinginu flytja ávörp Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Að loknum ávörpum munu Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, og Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, ræða um þá áskorun sem við stöndum frammi fyrir um fjölgun nýrra starfa en skapa þarf 60 þúsund ný störf fram til ársins 2050. Efnt verður til umræðna með þátttöku eftirtalinna: Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyris, Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir, aðstoðarforstjóri CRI, Sigurður Ragnarsson, forstjóri ÍAV, Sesselja Ómarsdóttir, framkvæmdastjóri lyfjagreiningardeildar Alvotech, Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis, og Ágústa Guðmundsdóttir, annar tveggja stofnenda Zymetech. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, lýkur síðan þinginu með samantekt. Á milli dagskrárliða verður vitnað til orða nokkurra forkólfa í íslenskum iðnaði.

Auglýsing

læk

Instagram